Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 13:45:07 (235)

1996-10-10 13:45:07# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:45]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þegar djarfhuga útgerðarmenn á sínum tíma beindu skipum sínum til veiða á alþjóðlegu hafsvæði í svokallaðri Smugu, þá voru fyrstu viðbrögð þáverandi og núverandi hæstv. sjútvrh. að láta kanna það hvort hann hefði valdheimildir til þess að láta stöðva slíkar veiðar. Niðurstaða þeirrar könnunar var að svo væri ekki. Þó er það svo að þá voru í gildi og eru í gildi lög nr. 34/1976, sem heimila sjútvrh. að beita reglugerðarvaldi til þess að koma stjórn á slíkar veiðar utan íslenskrar lögsögu sem nauðsynlegar þykja til þess að framfylgt verði ákvæðum alþjóðasamninga. Þess vegna er það að á grundvelli þessara lagaákvæða buðum við Norðmönnum þegar í stað að ganga til samninga um veiðar á þessu alþjóðlega hafsvæði og bentum á að ef gerður yrði slíkur samningur, þá fengi sjútvrh. Íslands virkar valdheimildir til þess að framfylgja stjórnun veiðanna. Reyndar er ástæða til þess að minna líka á að þessar valdheimildir eru rúmar og þær taka einnig til þess að samræma slíkar reglur um veiðar á úthafi í tengslum við alþjóðasamninga þeim reglum sem gilda um veiðar innan lögsögu. Þessar valdheimildir hafa verið notaðar og við höfum vísað til þess að okkur sé ekki að vanbúnaði að koma stjórn á slíkar veiðar, ef það er gert til þess að framfylgja samningsskuldbindingum.

Þess vegna er fyrsta spurningin í þessu máli auðvitað sú: Ber brýna nauðsyn til að afla miklu víðtækari valdheimilda fyrir sjútvrh. til þess að hafa stjórn á veiðum utan lögsögunnar? Og það er þá gjarnan rökstutt með því að þess þurfi til þess að framfylgja skuldbindingum okkar gagnvart hinum svonefnda nýja úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem ekki er genginn í gildi, en er bindandi alþjóðasamningur sem byggir á forsendum hafréttarsáttmálans sem var virkur 1982.

Eins og kom á daginn í umræðum um málið í nefnd, þá varð uppi mikill ágreiningur um frv. í sinni upprunalegu mynd og ég hygg að þrátt fyrir nokkrar breytingar sem orðið hafa á málinu í meðförum nefndar, þá sé enn uppi verulegur ágreiningur um málið. Sá ágreiningur snýst um það hvort nauðsyn beri til að setja svo ítarlega löggjöf og afla svo rækilegra valdheimilda fyrir sjútvrh. í fyrsta lagi. Í annan stað hvort tímabært sé að gera það á þessari stundu. Í þriðja lagi ræða menn um það hvort ekki sé rétt að fram fari almenn og ítarleg umræða fyrst um hinn nýja úthafsveiðisáttmála og skuldbindingar hans og Alþingi síðan í kjölfarið á því fari ofan í saumana á því hvort og í hve miklum mæli nauðsynlegt er að leita lagaheimilda fyrir sjútvrh. í framhaldi af þeim samningi. Ég held að það sé rétt að þetta frv. gengur mun lengra heldur en beinlínis nauðsyn krefur til þess að fullnægja þeim skuldbindingum sem samningurinn kveður á um.

Þess vegna er það að í þessu nefndarstarfi skilaði hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fyrir hönd þingflokks Alþfl. mjög rækilegum athugasemdum þar sem hún setti fram gagnrýni á ýmis meginatriði frv. og einnig gagnrýni á einstakar lagagreinar. Þessu er síðan enn frekar til skila haldið í nefndaráliti þegar þetta mál var til umræðu á vorþinginu. Vegna þess að þetta liggur nú allt saman fyrir skriflega, þá tel ég ekki nauðsynlegt á þessari stundu að tíunda það neitt nákvæmlega. Þetta liggur allt fyrir í gögnum málsins og ég sé ekki að málið hafi út af fyrir sig breyst á neinn þann veg að þessi efnisatriði kalli á aðra afstöðu.

Ég slæ því föstu að um það sé enginn ágreiningur á Alþingi Íslendinga að við eigum að stjórna okkar fiskveiðum innan lögsögu og utan á þann veg að við fylgjum fram grundvallarreglum um ábyrga fiskveiðistjórnun og um hagkvæmar veiðar. Ég á von á því í framhaldi af umræðum, einkum og sér í lagi í Noregi vegna ágreiningsmála sem upp hafa komið við Norðmenn að þeir munu gjarnan líta til þessara mála hér, en þeir hafa sem kunnugt er rekið þann áróður linnulaust á alþjóðlegum vettvangi í núna bráðum þrjú ár að Íslendingar stundi ábyrgðarlausar sjóræningjaveiðar, að Íslendingar hafi söðlað um gersamlega í stefnu sinni í hafréttarmálum frá því að vera í fararbroddi í baráttu fyrir réttindum strandríkja yfir í það að falla frá fyrri röksemdum og skirrast einskis í kröfugerð um réttindi úthafsveiðiríkja og að við förum þar fram með ábyrgðarlausum hætti. Sá sem hér stendur hefur gert sér nokkurt far um það að svara Norðmönnum líka á alþjólegum vettvangi og sér í lagi þeim siðferðislegu áfellisdómum sem þeir hafa kveðið upp yfir Íslendingum og jafnvel gert það í ritum sem Norðmenn hafa gefið út sjálfir og tekið þátt í umræðum á ráðstefnum sem þeir hafa boðið til. Ég þekki því vel til hversu einhliða mynd og ranga Norðmenn hafa dregið upp af íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, af þeirri stefnu sem við höfum fylgt innan lögsögu og tvískinnungi Norðmanna þegar kemur að annars vegar málflutningi þeirra þar sem þeir slá mjög á þá strengi að þeir sýni gott fordæmi sem ábyrg fiskveiðiþjóð, en fordæma aðrar þjóðir með farísearæðum.

Það er enginn ágreiningur um það að fylgja þessum grundvallarreglum um ábyrga fiskveiðistjórnun og um hagkvæmar veiðar. Það er einfaldlega lífsnauðsyn þeirrar þjóðar sem býr í verstöð og á afkomu sína alla undir því að þetta tvennt nái fram að ganga. Það er auðvitað grundvallarforsenda fyrir hinum hola hljómi í áróðri Norðmanna að Noregur er fyrst og fremst iðnríki og olíuríki sem hefur rekið sjávarútveg fyrst og fremst í krafti niðurgreiðslna og ríkisstyrkja og jafnvel skipasmíðaiðnað sinn á sömu forsendum, en það er einmitt slíkt framferði þróaðra iðnríkja sem er meginástæðan fyrir of stórum flota og tilhneigingum til stjórnlausrar rányrkju á úthöfunum. Ég er þess vegna hræddur um það að Norðmenn út af fyrir sig geti ekki kennt okkur mikið í þessu efni, enda er það staðreynd líka að fiskveiðistjórnun Íslendinga er strangari og viðurlagameiri en Norðmanna. Og með vísan til þeirrar umræðu sem hér var fyrr í dag um veiðileyfagjöld er sennilega hægt að færa fyrir því nokkuð haldbær efnahagsleg rök að fiskveiðistjórnun Íslendinga hafi skilað meiri árangri í að laga veiðigetu að auðlindastærð heldur en þeim hefur tekist.

Um þetta út af fyrir sig er ekki ágreiningur. Spurningin er hins vegar sú: Er þörf á svona löggjöf? Ef það er niðurstaðan af rækilegri könnun á úthafsveiðisamningnum að svo sé, er þá þörf á því að ganga jafnlangt og hér er gert til þess að takmarka litlar valdheimildir í hendur á sjútvrh. til þess að stjórna veiðum á heimshöfunum og jafnvel innan lögsögu annarra ríkja? Sumt af þessu virðist mér vera nánast spaugilegt vegna þess að það er svo að hið háa Alþingi hefur ekki löggjafarvald utan lögsögu íslenska ríkisins og fer ekki með löggjafarvald innan lögsögu annarra ríkja, enda veit ég ekki hvaða ríki það eru sem við getum ekki treyst til þess að framfylgja eigin lögum innan eigin lögsögu. Látum það vera. Allt hefur þetta verið tíundað.

En það er eitt sem sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á og var meginuppistaðan í máli hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríðar Jónasdóttur, áðan. Það er nefnilega dálítið merkilegt og hefur ekki farið fram hjá Kristjáni Ragnarssyni, formanni LÍÚ, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því sem stjórntæki að sjútvrh. sé heimilt að krefja um aflagjaldsígildi eða veiðileyfagjaldsígildi við stjórnun á þessum veiðum. Spurningin er hins vegar sú: Hvers vegna er það gert að því er varðar úthafsveiðar? Og í annan stað: Hvernig er það gert? Sér í lagi er ástæða til þess að spyrja: Hvernig ætla menn að réttlæta það að úthafsveiðiskip án heimilda innan lögsögu, sem eiga þá afkomu sína undir því að stunda veiðar á úthöfunum, verði að lokum að greiða fyrir aðganginn að samningsbundnum auðlindum utan lögsögunnar með því að afhenda veiðiheimildir sínar sem síðan verði endurúthlutað til þeirra innan lögsögunnar sem fengið hafa allar sínar veiðiheimildir ókeypis? Hvernig má slíkt kerfi samrýmast siðaðra manna reglum um jafnan rétt og um leikreglur þar sem allir menn sitji við sama borð? Ég læt nú vera að segja sem svo: Það er út af fyrir sig alls góðs maklegt og fagnaðarefni að hæstv. sjútvrh. og sérfræðingar hans eru smám saman að skilja nauðsyn þess að taka upp einhvers konar veiðileyfagjöld og gera það í einu formi. En þá væri æskilegt að það væri gert þannig að allir sætu við sama borð og jafnframt að veiðileyfagjaldtakan verði innt af hendi til þeirra sem annars vegar eiga auðlindina innan lögsögunnar eða til almannavaldsins sem hefur með alþjóðasamningum tryggt viðurkenndar veiðiheimildir utan lögsögu með samningum, annaðhvort tvíhliða samningum, fjölþjóða samningum eða samningum innan fjölþjóðastofnana. Allt eru þetta með öðrum orðum atriði sem þarfnast mjög rækilegrar skoðunar í nefnd. Það þarf ekki að koma neinum á óvart eins og um þetta var deilt á vorþinginu, en sér í lagi vil ég að lokum leggja áherslu á það að menn eiga að flýta sér hægt í þessu máli. Fyrst er að skoða ofan í kjölinn hinn nýja samning og bera síðan saman hann annars vegar og þessi frumvarpsdrög og gæta þess að það sé ekki á fölskum forsendum með vísan til alþjóðlegra skuldbindinga verið að færa hæstv. sjútvrh. valdheimildir sem skerða atvinnufrelsi manna að óþörfu.