Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 13:58:37 (236)

1996-10-10 13:58:37# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:58]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir málefnalega umfjöllun um það mikilvæga viðfangsefni sem hér er verið að fjalla um. Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að um ýmis atriði í þessu sambandi séu skiptar skoðanir eins og reyndar um flest þau atriði sem lúta að sjávarútvegi og stjórnun veiða.

Það kemur fram í athugasemdum með þessu frv. og hefur komið fram af minni hálfu að við undirbúning málsins var ákveðið að bíða eftir niðurstöðum úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og ýmis efnisatriði í frv. taka mið af þeim niðurstöðum. Hitt er hins vegar rangt sem hv. 4. þm. Vestf. hélt fram, að ég hefði lýst því að það væri úthafsveiðisáttmálinn sem kallaði á þessa lagasetningu nú og að meðferð frv. yrði hraðað svo sem kostur væri. Þetta er rangt og þetta hef ég hvergi sagt, enda er það ekki í samræmi við það sem fram kemur í frv.

[14:00]

Frv. tekur mið af ýmsum atriðum úthafsveiðisáttmálans en mörg helstu og veigamestu atriði frv. eru algerlega sjálfstæð og koma honum ekkert við. Við tökum upp á eigin spýtur ákvarðanir um það hvernig við úthlutum veiðiheimildum þar sem við höfum aflað okkur réttinda til veiða í úthafinu. Enginn úthafsveiðisáttmáli getur mælt fyrir um það hvernig við Íslendingar stýrum okkar veiðum og skiptum niður okkar aflaheimildum og við bíðum ekki eftir neinum fyrirmælum um það frá útlöndum eða alþjóðlegum samþykktum. Um það tökum við okkar eigin ákvarðanir. Og það er einmitt þetta sem er ein helsta uppistaðan í þessu frv., að taka um það ákvarðanir hvernig við úthlutum veiðiheimildum og réttindum til veiða úr deilistofnum og farstofnum þar sem við höfum aflað okkur veiðiréttinda. Það sem knýr á um að hraða málinu er að við stöndum frammi fyrir ýmsum mjög afgerandi ákvörðunum í þessum efnum. Við höfum á þessu ári gert samning um skiptingu á norsk-íslenska síldarstofninum. Við höfum staðið að ákvörðunum innan NAFO um heildarkvóta og skiptingu á honum á milli aðildarþjóða sem eiga réttindi á Reykjaneshryggnum í úthafskarfaveiðum. Og við þurfum að taka þessar ákvarðanir. Þó að þær beri að sumu leyti merki þróunar í hafrétti og þar á meðal samþykktar úthafsveiðisáttmálans, þá eru þetta alveg sjálfstæðar ákvarðanir sem við getum ekkert hlaupist frá eða lokað augunum fyrir. Það er mjög brýnt að efnisreglur um þessa þætti séu settar með góðum fyrirvara áður en veiðar hefjast og þess vegna hefði verið mikil þörf á því að fá þessa lagasetningu á síðasta ári. Í raun var það fullseint í vor sem leið og síðustu forvöð nú á haustþingi að setja þessar lagareglur vegna þessara atriða sem eru ein meginuppistaðan í frv. Allir sem lesa það og fara yfir það og fylgjast með hljóta að gera sér grein fyrir þessum veigamiklu staðreyndum.

Hv. 4. þm. Vestf. innti eftir því hversu margar þjóðir hefðu þegar staðfest úthafsveiðisáttmálann. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum og eru reyndar mánaðargamlar, þá höfðu þrjár þjóðir staðfest úthafsveiðisáttmálann, en í mjög mörgum þjóðþingum er nú verið að fjalla um sáttmálann og þess er að vænta að mjög margar þjóðir til viðbótar muni á næstu mánuðum fylkja sér í þann hóp.

Hv. 4. þm. Vestf. gerði svo að umtalsefni þá nýju málsgrein sem er í 4. gr. frv. og lýtur að því að við getum tekið ákvarðanir um veiðistjórnun þar sem við höfum kosið að mótmæla samþykktum um fiskveiðistjórnun sem gerðar hafa verið í alþjóðlegum samtökum eða svæðastofnunum. Tilefni þessarar frumvarpsgreinar er vitaskuld, eins og kunnugt er, sú staða sem uppi er á Flæmska hattinum og sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stefna að því að stjórna veiðum þar á næsta ári og draga úr þeim. Hv. þm. sagði að þarna væri verið að færa ráðherra alveg ótæpilegt vald og vissulega er verið að færa ráðherra ákvörðunarvald í þessu efni, en það lýtur þó ýmsum takmörkunum að því er varðar úthlutun á veiðiréttindum þar sem vísað er til ákvæða 5. og 6. gr. frv. Það er svolítið sérkennilegt í öllum þessum málflutningi hv. 4. þm. Vestf. og nokkurra fleiri þingmanna að það er verið að gagnrýna grein eins og þessa og segja að hún feli í sér of mikið vald til ráðherrans, þó að hún takmarkist af skýrum ákvæðum 5. gr. um það hvernig eigi að standa að úthlutun veiðiheimildanna og ráðherrann hefur ekki heimildir umfram það sem lögin ákveða í því efni, þá er á hinn bóginn sagt: Það þarf ekki að setja þessi lög vegna þess að við höfum lögin frá 1976. En í hverju eru þau fólgin? Þau eru bara fólgin í því að ráðherra geti sett þær reglur sem þurfa þykir. Það er ekki til í íslenska lagasafninu önnur eins löggjöf um framsal á valdi og svo koma talsmenn Alþfl. og segja: Það er þessi löggjöf sem við eigum að hafa og ekkert annað og hún er fullgóð, en um einstaka greinar í þessu frv. gera þeir svo athugasemdir af því að það er verið að framselja vald til ráðherra. Það er ekki mikið samhengi í þessum málatilbúnaði og rökin að öðru leyti eftir því.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. vék svo að því hvort ástæða væri til þess að takmarka sókn á Flæmska hattinum og dró í efa þær niðurstöður sem liggja fyrir frá vísindanefnd NAFO í því efni. Ég tel og það er skoðun ráðuneytisins og helstu hagsmunaaðila í íslenskum útvegi að sú niðurstaða sem liggur fyrir frá vísindanefnd NAFO sé með þeim hætti að það væri óverjandi að ýta henni til hliðar. Þar kemur m.a. fram að afli á togtíma af kvenrækju hefur dregist saman um 70% á árunum frá 1993--1996 og ég held að það sé alveg fráleitt að ætla að loka augunum fyrir slíkum staðreyndum. Við verðum að taka þátt í veiðum eins og þessum með ábyrgð og þurfum þess vegna að hafa lagaheimildir til þess að stjórna veiðunum. Í þessu tilviki höfum við gert ágreining um það hvernig á að standa að veiðunum. Það hefur verið afstaða íslenskra útvegsmanna að það væri rétt að stýra þeim með kvótasetningu, það leiddi til aukinnar hagræðingar í veiðunum sjálfum og því höfum við fylgt eftir. Við höfum mótmælt sóknarstýringarákvörðunum, en ætlum okkur að takmarka veiðarnar á grundvelli kvótasetningar.

Það er sagt: Það er atvinna í húfi. Auðvitað er atvinna í húfi. Það væri líka hægt að segja um þorskveiðar hér á Íslandi. Það er atvinna í húfi, við getum fjölgað atvinnutækifærum með því að veiða miklu meiri þorsk. Og vissulega gætum við gert það en bara um skamman tíma. Svo þyrftum við að horfast í augu við hrunið og atvinnuleysið sem því fylgdi og menn geta horft til Nýfundnalands í því efni. Ég trúi ekki að það sé nokkur maður hér inni sem vill standa að veiðum almennt með þeim hætti og það gilda alveg sömu rök í þessu efni á Flæmska hattinum og varðandi aðrar veiðar, þó að þær séu fjarlægari.

Þá var að því spurt hvers vegna sú regla væri í frv. að þeir sem fengju veiðirétt úthlutaðan ættu að skila ákveðnum hluta í þorskígildum til þeirra sem stunda veiðar innan landhelginnar. Þau rök hafa verið sett fram varðandi þetta efni að úthafsveiðarnar hafi að hluta til átt sér stað með því að kvótakerfið hefur auðveldað þeim sem hafa haft tækifæri til þess að sækja í úthafið að gera það á þann hátt að arðsamt hefur verið. Það er auðvitað fjarri lagi að segja að allir þeir sem hafa veitt í úthafinu hafi leigt frá sér heimildir. Það er beinlínis rangt. En sumir hafa gert það og heimaflotinn hefur á þann veg tekið nokkurn þátt í þessum veiðum og þá hafa menn sagt: Það er ekki óeðlilegt að heimaflotinn fái einhvern hlut af þessum nýju réttindum. Og það er einkum úr röðum sjómanna og talsmanna minni útgerða og einstaklingsútgerða sem þessi sjónarmið hafa komið fram og það er ástæðan fyrir því að þessi efnisákvæði eru í frv.

Hv. 19. þm. Reykv. ræddi svo um grundvallaratriði varðandi úthlutun aflaheimilda og ég ætla ekki að fjölyrða um það efni. Um það er grundvallarágreiningur. Hv. þm. sagði að það gengi ekki að úthluta veiðirétti til þeirra sem þarna hafa stundað veiðar. Ég veit í sjálfu sér ekki til hverra á að úthluta þessum veiðirétti ef ekki til þeirra. Hvaða aðrir aðilar eru það sem eiga að fá þennan rétt eða er hv. þm. að ræða um það í alvöru að hér eigi að koma á ríkisútgerð til þess að fullnægja þeim sjónarmiðum sem hv. þm. hefur sett fram? Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, því að sú umræða mun sjálfsagt fara fram bæði við framhaldsumræðu um þetta mál og önnur sem lúta að sjávarútvegi.

Hv. 9. þm. Reykv. fór svo enn einu sinni með þá röngu fullyrðingu að það hefðu verið fyrstu viðbrögð mín þegar útgerðarmenn ákváðu að halda til veiða í Smugunni að kanna hvort unnt væri að stöðva þær með reglugerðarsetningu. Hv. þm. hefur æðioft farið með þessa röngu fullyrðingu. Staðreyndin í þessu máli er þessi: Þegar útvegsmenn sneru sér til sjútvrn. og tilkynntu um áform sín um að hefja þarna veiðar og báðu um upplýsingar um réttarstöðu sína, þá sneri sjútvrn. sér eðli máls samkvæmt til utanrrn. með óskum um að fá ráðgjöf og upplýsingar um þjóðréttarlega stöðu íslenskra skipa á þessu veiðisvæði. Þjóðréttarfræðingur utanrrn. lagði til að sett yrði reglugerð sem heimilaði stjórnun á veiðunum og taldi að lögin sem hv. 9. þm. Reykv. hefur prísundað jafnmikið og raun ber vitni í þessari umræðu væru nægjanleg lagastoð í því efni. Það varð svo niðurstaða við nánari skoðun að menn töldu að það væri ekki nægjanleg stoð í þeim lögum fyrir slíkri reglugerðarsetningu. Þessar hugmyndir eru komnar frá þjóðréttarfræðingi utanrrn. á þessum tíma og komu til umfjöllunar í sjútvrn. Það er eins og mig minni að hv. 9. þm. Reykv. hafi á þeim tíma haft eitthvað með málefni utanrrn. að gera, a.m.k. ekki verið með öllu saklaus af því og ég geri ráð fyrir því að hann hafi haft stjórn á sínum mönnum. Þetta er nú sannleikurinn í þessu máli og þess er að vænta að hv. þm. hagi orðum sínum framvegis um þessi efni sem eru nær sannleikanum en verið hefur um langan tíma.

Ég held að ég hafi þá vikið að flestum þeim atriðum sem ástæða þykir til að gera athugasemd við á þessu stigi. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá hv. þm. sem talað hafa að um þetta mál fóru fram ítarlegar umræður í vor sem leið og á þessu stigi er unnt að vísa til þeirrar umfjöllunar og hv. þingnefnd mun svo fá málið til umfjöllunar og það koma hér til 2. umr. síðar.