Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:20:41 (242)

1996-10-10 14:20:41# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:20]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé alveg ljóst. Þau sjónarmið hafa verið sett fram og það með nokkrum rökum að heimaflotinn hafi hjálpað til við það að stærri skipin gátu nýtt sér þá möguleika sem fyrir hendi voru í úthafinu og þegar að því kemur að úthluta veiðirétti í úthafinu, þá sé eðlilegt að taka einhvern veginn tillit til þess. Þessi leið er valin í frv. og ég held að fyrir þessu séu gild rök. Auðvitað má alltaf deila um það í hversu ríkum mæli þetta eigi að gerast og þetta er vandmeðfarið mál. En ég held að þau sjónarmið sem þarna hafa legið að baki njóti fylgis og það er ekki síst að þau hafa komið úr röðum sjómanna og minni útgerða að ég held að menn hafi viljað hlusta á þau og fallast á að taka tillit til þeirra í frv.