Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:24:27 (245)

1996-10-10 14:24:27# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:24]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að á sínum tíma hefði hæstv. sjútvrh. látið kanna hvort hann hefði lagaheimildir til þess að beita reglugerðarvaldi til þess að stöðva úthafsveiðar í Smugunni á sínum tíma. Nú kemur hæstv. ráðherra hér upp og reynir ekki aðeins að að neita þessu, heldur varpar sök á aðra.

Staðreyndin í málinu er sú að það eru lög nr. 34/1976 sem kveða á um heimildir sjútvrh. til þess að setja reglugerð. Vel má vera að sjútvrh. hafi leitað til þjóðréttarfræðings utanrrn. Mér barst vitneskja um áform sjútvrh. frá honum vegna þess að hann sagði: ,,Ég hef nú samið drög að reglugerð að beiðni sjútvrh. um þetta mál.`` Það varð til þess að ég komst á snoðir um þessi áform, leitaði lögfræðilegrar álitsgerðar annars staðar frá og tókst með atbeina hæstv. forsrh. á sínum tíma að stöðva þessi áform. Þetta er sannleikurinn í málinu. Hitt er útúrsnúningur. Það hefur alltaf legið fyrir frá upphafi að það hefur ekki hvarflað að mér sem utanrrh. að beita einhverju lagasetningarvaldi sem reyndar var í höndum sjútvrh. til þess að stöðva þessar úthafsveiðar, enda hafði ég engan vilja til þess.