Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:25:59 (246)

1996-10-10 14:25:59# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:25]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að það voru engin áform uppi um að stöðva þessar veiðar. Það var leitað eftir þjóðréttarlegu áliti úr utanrrn. og ég var ekki að varpa neinni sök á einn eða neinn í því efni. Það var ósköp eðlilegt að það væri gert og ofur eðlilegt að það gætu verið um það skiptar skoðanir svo brátt sem málið bar að. Íslensk stjórnvöld voru vissulega ekki vel undir það búin að takast á við það eins og hér hefur réttilega komið fram í umræðunni. En það réttlætir ekki hitt að fara endalaust með staðlausa stafi um þetta mál. Ég man ekki eftir því að hafa fengið í hendur uppkast eða drög að reglugerð sem bannaði þessar veiðar. Það kann vel að vera að hæstv. utanrrh. hafi séð slíkt en ég minnist ekki að slík reglugerðardrög hafi komið á mitt borð. Um það var rætt hvort setja ætti reglugerð sem gæfi okkur möguleika á því að stjórna veiðunum og niðurstaðan varð sú að gera það ekki. En það voru engar ákvarðanir teknar um að það bæri að stefna að því að koma í veg fyrir að þessar veiðar gætu farið fram. Ég skil ekki hvers vegna hæstv. utanrrh. getur ekki á það fallist að eðlilegra sé að hafa það sem sannara reynist í þessu efni. Þó að honum hafi orðið það á að búa til smá skáldsögu einhvern tíma í orðaleikfimi í ræðu, þá á hann að vera maður til þess að hafa frekar það sem sannara reynist.