Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:27:50 (247)

1996-10-10 14:27:50# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:27]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Embættismenn semja ekki reglugerðir. Það gera ráðherrar. Hvaða ráðherra var það sem óskaði eftir því að kannað yrði hvort hann hefði reglugerðarvald til þess að stöðva úthafsveiðar í Smugunni? Var það þáv. utanrrh.? Nei. Hvaða ráðherra var það? Það var hæstv. sjútvrh. Hvaða embættismann bað hann um að kanna þessar valdheimildir fyrir sig? Hann segir að beiðnin hafi borist til þjóðréttarfræðings utanrrn. Það er staðfest að þjóðréttarfræðingurinn á þeim tíma skýrði mér frá því að hann hefði verið beðinn um að semja drög að slíkri reglugerð af sjútvrh. sem hafði þær heimildir. Ég endurtek: Þetta varð til þess að ég komst á snoðir um þessi áform. Ég var algerlega ósammála þessum áformum. Ég leitaði lögfræðilegrar álitsgerðar hjá öðrum lögfræðingum, ræddi málið við forsrh. og okkur kom saman um það að stöðva slík áform. Þannig var það gert. Þetta er sannleikurinn í málinu, ekki hagræðing á sannleikanum.