Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:56:47 (251)

1996-10-10 14:56:47# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:56]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að ræða þau viðhorf sem uppi eru um síldveiðar til manneldis nú í upphafi vertíðar. Horfur á síldarmörkuðum eru góðar nú. Verð fer hækkandi á frystri síld og markaður fyrir saltsíld og síldarflök hefur náð sér á strik. Heildarkvóti hefur verið ákveðinn og síldveiðivertíð á þessu hausti er nú þegar hafin. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru hefur áhugi vaxið og er vaxandi fyrir að efla vinnslu á loðnu og síld og hafa fjárfestingar í aukinni afkastagetu á þessu sviði verið mjög miklar á liðnum mánuðum. Áhugi fyrir þessari vinnslu hefur verið enn meiri vegna þess að afkoma hefur verið afar slæm í botnfiskvinnslunni.

Það hefur verið svo á undanförnum árum að mjög stórum hluta af síld á síldarvertíðinni hefur verið landað til bræðslu, en vinnslan hefur fengið minna í sinn hlut. Aðilar á þeim svæðum þar sem síldveiðin og síldarvinnslan er mest hafa haft áhyggjur af þessari þróun og m.a. ályktaði Samband austfirskra sveitarfélaga um málið á fundi þann 29. og 30. ágúst sl. og beindi þeim tilmælum til sjútvrn. að stofnað væri til samstarfs sem hefði það að markmiði að ná fram stjórnun veiða og vinnslu síldar og loðnu þannig að verðmæti unninna afurða verði sem mest. Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi hefur sent áskoranir til ráðuneytisins í sömu veru, að aðeins verði leyfð veiði á síld til manneldisvinnslu þar til búið verði að fullnýta þá möguleika sem eru á sölu á söltuðum og frystum síldarafurðum.

Ráðuneytið svaraði Sambandi sveitarfélaga með bréfi þann 11. september sl. og segir að ekki séu fyrir hendi forsendur til að verða við áskorun aðalfundar Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi í upphafi vertíðar að leyfa aðeins veiði á síld til manneldisvinnslu þangað til búið sé að fullnýta þá möguleika sem eru á sölu á mörkuðum á söltuðum og frystum síldarafurðum. Fyrir þessu færir ráðuneytið rök og er m.a. sagt í þeirri röksemdafærslu að margir þeirra sem stunda þessar veiðar telji einfaldlega að það borgi sig ekki að landa síld til manneldis þegar litið er til þess að meiri tími fer í veiðar til manneldis vegna þeirra krafna sem gerðar eru til meðferðar manneldissíldar, bæði um borð í skipi og við löndun.

Ráðuneytið segir enn fremur að þeir taki ekki afstöðu til þessarar skoðunar, en segir þó að ljóst sé að verðlagningin hljóti að hafa mikil áhrif á það hvort síld er landað til manneldisvinnslu eða ekki.

Í lok svars ráðuneytisins segir hins vegar að ef Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi eða Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi hafi tillögur um hvernig leysa megi þau vandamál, sem lauslega eru reifuð hér að ofan, þætti ráðuneytinu fengur að þeim. Ég sé ekki betur en þarna gefi ráðuneytið að vissu leyti þetta mál frá sér, að nota reglugerðarákvæði, sem er samkvæmt lögum nr. 128/1994, en þar er heimilt að takmarka ráðstöfun síldar til bræðslu. Ég sé ekki betur en með bréfinu sé þessum áformum slegið á frest eða ráðuneytið gefi frá sér að taka afstöðu, en auglýsi eftir umræðu um málið. Nú er síldarvertíð komin af stað og það hlýtur að brenna á mönnum hver verður þróunin í þessum efnum og því spyr ég ráðherra: Er hann á sömu skoðun og þetta bréf ber með sér? Eru uppi áform í ráðuneytinu um að endurskoða þessa afstöðu? Ég hef tillögu í þessu máli, en hún er sú að manneldisveiðar séu reglan en veiðar til bræðslu sé undantekning.