Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:08:09 (253)

1996-10-10 15:08:09# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:08]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem löngu er orðin tímabær í sölum Alþingis. Nú er svo komið, eins og ráðherra nefndi áðan, að við getum selt til manneldis alla þá síld sem veiða má á þessu hausti. Það er hins vegar spurningin hvort menn vilja reyna að hafa stjórn á því í hvaða vinnsluferli hráefnið fer, hvort það fer til manneldisvinnslu eða bræðsluvinnslu.

Vissulega þarf að taka tillit til margra sjónarmiða en þegar litið er til þess hversu miklu meiri verðmætaaukning verður við vinnslu síldar til manneldis heldur en bræðslu er töluvert á sig leggjandi til þess að hnika því í rétta átt. Talið hefur verið að verðmæti aukist þrisvar til fimm sinnum við manneldisvinnslu miðað við bræðsluvinnslu og mannaflsþörf er margföld og skiptir þessi vinnsla því gífurlega miklu máli í þeim sjávarplássum þar sem lögð hefur verið áhersla á þessa vinnslu. Þær vinnslur sem ekki hafa yfir síldarkvóta að ráða eru algerlega varnarlausar í þeirri baráttu sem nú á sér stað um hráefnið þar sem kvótaverðið hefur nú náð alveg stjarnfræðilegum upphæðum.

Annað atriði er að nú sækja umhverfisverndarsamtök mjög stíft að veiðum á uppsjávarfiski. Íslendingar hafa getað varist því með því að vinnsla síldar í bræðslu og manneldisvinnslu væri í góðri sátt. En hvað verður það lengi ef niðurstaðan verður sú á þessari vertíð að ekki næst hráefni upp í samninga til manneldisvinnslu? Það er töluvert á sig leggjandi, eins og ég sagði, að ná einhverjum árangri í þessu og síldarnefndin svokallaða sem sjútvrh. skipaði hefur komið með ágætistillögu sem m.a. lagasetningin frá 1994 var byggð á.