Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:07:31 (262)

1996-10-14 15:07:31# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:07]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í þriðja sinn á þessu ári standa stjórnendur, starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur Sjúkrahúss Reykjavíkur frammi fyrir niðurskurði. Aðgerðum, sem samið var um fyrir örfáum vikum milli ríkis og borgar og eiga að leiða til sparnaðar, verður að fresta sumum hverjum. Breytingar verða gerðar á deildum og þjónustu til að ná um 80 millj. kr. sparnaði en verst er, herra forseti, að ekki verður betur séð en að þessar sparnaðarhremmingar haldi áfram á næsta ári þrátt fyrir samninginn sem gerður var í ágúst. Þegar vinna við fjárlög þessa árs stóð yfir nú í haust var ljóst að Sjúkrahús Reykjavíkur yrði í miklum vanda vegna halla ársins 1995 og vegna þess að frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 gerði ráð fyrir miklum niðurskurði. Frá upphafi þessa árs hefur stjórn sjúkrahússins verið að glíma við halla og fjárvöntun upp á 400 millj. kr. sem allt var fyrirséð í upphafi ársins. Stjórnin lagði fram sínar fyrstu sparnaðartillögur sem eins og flestar slíkar mættu harðri andstöðu og voru sumar hverjar kveðnar í kútinn svo sem lokun Kleifarvegsheimilisins sem betur fer. Það tókst þó að ná fram 150 millj. kr. sparnaði en þá voru 250 millj. kr. eftir auk hallans frá fyrra ári. Þá gerðist það um mitt sumar að stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur sendi frá sér mjög harðar niðurskurðartillögur sem fólu í sér lokanir deilda og uppsagnir fjölda starfsmanna. Tillögurnar voru gagnrýndar harðlega sérstaklega væntanleg örlög Grensásdeildarinnar og mótmæli voru kröftug. Vikum saman ríkti mikil óvissa um hvað úr yrði þar til samningur tókst milli ríkis og borgar um 230 millj. kr. framlag gegn ákveðnum breytingum og aukinni samvinnu við Ríkisspítalana. Þessi upphæð dugar þó hvergi nærri því inni í henni eru fjárhæðir, t.d. til lífeyrisgreiðslna og verðbætur á laun, sem stjórn spítalans taldi sig mundu fá bættar með öðrum hætti. Þegar sjö mánaða yfirlit var lagt fram snemma í september kom í ljós að veikindi og þörf fyrir þjónustu höfðu verið meiri en ráð var fyrir gert þannig að kostnaður fór um 80 millj. kr. fram úr áætlunum eða er skýringanna ef til vill að leita í því að stjórnendur eru svo uppteknir við að glíma við nýjar og nýjar sparnaðaraðgerðir að daglegt eftirlit og aðhald er í molum. Fróðlegt væri að fá svar við því hvaða áhrif stanslaus krísustjórnun allt þetta ár og erfitt vinnuumhverfi þar sem enginn veit hvað næsti dagur ber í skauti hefur haft á þjónustu og afkomu sjúkrahússins.

Þær aðgerðir sem nú hafa verið boðaðar eiga að spara þessar 80 millj. kr. en eftir sem áður er útlit fyrir að halli áranna 1995 og 1996 verði um 185 millj. kr. Sá vandi er enn óleystur. Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 lækka fjárveitingar til Sjúkrahúss Reykjavíkur úr 4.168.500.000 í 4.141.600.000 en stóru sjúkrahúsunum er ætlað að spara um 370 millj. kr. á næsta ári vegna samningsins við Ríkisspítalana og aðgerða innan dyra. Samkvæmt mínum heimildum úr stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur þýða þessar tölur að miðað við þá þjónustu, stofnkostnað og breytingar sem þurfa að eiga sér stað vantar allt að 400 millj. kr. á næsta ári rétt eins og á þessu. Þessar tölur eru ekki nákvæmar og hafa ekki verið skoðaðar rækilega en ef að líkum lætur eru þarfir Sjúkrahúss Reykjavíkur enn einu sinni stórlega vanmetnar. Ef þetta reynist rétt þýðir það að sparnaðarmartröðin heldur áfram. Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sem vel að merkja er fyrst og fremst bráðasjúkrahús sem getur ekki synjað fólki um þjónustu, hefur í raun verið gert að framkvæma hið óframkvæmanlega --- að skerða þjónustu sem verður að veita.

Þessu ástandi verður að linna, hæstv. heilbrrh. Það er ekki hægt að bjóða sjúklingum, aðstandendum, starfsfólki og stjórnendum upp á enn eitt árið með niðurskurði og hörmungum. Ég vil þar leggja sérstaka áherslu á hag sjúklinga ekki síst aldraðra, geðsjúkra og aðstandenda þeirra sem hafa mátt þola ótta og öryggisleysi hvað eftir annað vegna boðaðra aðgerða. Ábyrgð stjórnvalda er mikil, þar á meðal þeirra sem stýra fjármagninu á hina háa Alþingi. Við verðum að forgangsraða á raunhæfan hátt og átta okkur á því að sjúkrahús eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki sem hægt er að stýra eftir ísköldum lögmálum. Þau eru ekki eins og fiskvinnslufyrirtæki sem geta stýrt veiðum og vinnslu svo lengi sem kvótinn endist.

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en viðurkennt að mér brá mjög við fréttirnar í síðustu viku af enn frekari niðurskurði á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ég hef þó enn meiri áhyggjur af því sem fram undan er því allsendis á eftir að koma í ljós hvort sá sparnaður, sem margnefnt samkomulag milli ríkis og borgar gerir ráð fyrir, gengur eftir. Og hver raunveruleg fjárþörf sjúkrahússins verður á næsta ári. Mestu máli skiptir þó að koma á ró á spítalanum þannig að fólk geti unnið sitt verk og sjúklingar njóti öryggis og fái góða þjónustu. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi. Hyggst ráðherra grípa til frekari aðgerða vegna nýrra sparnaðaráforma á Sjúkrahúsi Reykjavíkur?

Í öðru lagi. Er fyrirsjáanleg fjárvöntun að mati ráðherrans hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur á næsta ári og hversu mikil verður hún samkvæmt áætlunum?

Í þriðja lagi. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja að þeirri niðurskurðarmartröð sem Sjúkrahús Reykjavíkur hefur gengið í gegnum á undanförnum árum fari að linna?