Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:22:16 (265)

1996-10-14 15:22:16# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:22]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda þessa umræðu sem ég tel mikilvæga og nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvað er að gerast hjá stærstu sjúkrastofnunum landsins.

Á þessu ári, eða nánar tiltekið í ágústmánuði, var gert mjög mikilvægt samkomulag á milli aðila, þ.e. heilbrrh., fjmrh., Reykjavíkurborgar og stóru sjúkrahúsanna, Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Með því samkomulagi var að því stefnt annars vegar að tryggja til skamms tíma fjárveitingar til lausnar á vanda þessa árs og hins vegar til lengri tíma að tryggja fjárveitingar þannig að hægt væri að stunda þá starfsemi og þann rekstur sem þessar mikilvægu stofnanir eiga að sinna. Ég tel að á þessari stundu og þrátt fyrir þann vanda sem Sjúkrahús Reykjavíkur stendur frammi fyrir sé of snemmt að kveða upp nokkra dóma um árangur af þessu samkomulagi þó að talið sé að það þurfi um 100 millj. kr. sem stjórn sjúkrahússins og framkvæmdastjórn hafa fjallað um. Ég tel að stjórnendur Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi sýnt mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart sínu mikilvæga viðfangsefni og við hv. þm. verðum að líta til þess.

Hins vegar er einnig á það að líta að sameining Landakots og Borgarspítala gerðist fyrir tiltölulega skömmum tíma. Við verðum að sýna biðlund og sýna stjórnendum þessara stofnana, t.d. stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur, þá virðingu að þær fái lengri tíma til að ná vopnum sínum áður en við förum að kveða upp stóra dóma um þeirra störf. Ég tel að störf þeirra og staða séu þess eðlis að við eigum að gefa þeim lengra tóm.