Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:36:14 (271)

1996-10-14 15:36:14# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:36]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki rétta leiðin í þessari umræðu að bera saman aðgerðir á Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þetta eru mjög misstórar einingar og þar af leiðandi mjög misauðvelt að taka á þeim vanda sem við er að glíma. Ég gæti farið með langar talnarunur ef ég hefði þær hjá mér um niðurskurðinn og hagræðinguna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hún er ekkert smáræði. Þar hefur rúmum fækkað um tugi og starfsfólki fækkað o.s.frv. o.s.frv. Bæði stóru sjúkrahúsin hafa verið að glíma við þennan mikla vanda um árabil og nú er mál að linni. Þessu verður að fara að ljúka vegna þess að allur þessi niðurskurður hefur haft mjög afdrifaríkar og alvarlegar afleiðingar á vinnuanda á sjúkrahúsunum. Og eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, þá fara störf stjórnenda á Sjúkrahúsi Reykjavíkur mestmegnis í það að glíma við þennan endalausa vanda og ég varpaði fram þeirri spurningu hvort hin daglega stjórnun kunni að vera í einhverjum molum vegna þess. Það er auðvitað mál sem þarf að athuga þegar allur tíminn fer í það að liggja yfir einhverjum kreppu- og niðurskurðartillögum.

Hæstv. heilbrrh. einblínir mjög á samninginn og bindur miklar vonir við hann. Eins og ég rakti telja stjórnendur spítalans að þar inn í vanti ákveðnar upphæðir sem þeir töldu að þeir fengju bættar á annan hátt, m.a. vegna launahækkana og lífeyrisgreiðslna sem snúa að Reykjavíkurborg o.s.frv. Það er því alveg ljóst að vandi sjúkrahússins hefur ekki verið leystur með þessum samningi, en við skulum vona að það takist að ná árangri í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru, en mergurinn málsins er þessi: Þessu ástandi verður að fara að linna. Ég tek undir það með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að við eigum að gefa stjórnendum Sjúkrahúss Reykjavíkur tíma og færi til þess að vinna úr þessum tillögum og þurfa ekki alltaf að vera að glíma við nýjan og nýjan vanda.