Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:38:31 (272)

1996-10-14 15:38:31# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, þakka sérstaklega hv. málshefjanda sem er málefnaleg eins og venjulega. Orð eru dýr, sagði einn hv. þm. áðan og það er rétt. Ég ætla aðeins að minna á ummæli sem sá ágæti hv. þm. Össur Skarphéðinsson viðhafði einmitt þegar samningurinn var gerður við Sjúkrahús Reykjavíkur 28. ágúst sl., þá fannst hv. þm. þetta góður samningur eins og mér sem hér stend. En þá fannst honum rétt að segja að þessi samningur væri eingöngu að þakka borgarstjóra og fjmrh. Það hentaði þá. En nú aftur á móti hentar að segja að þessi samningur sé alfarið mér að kenna.

Ég vil aðeins fara betur yfir þennan samning sem ég tel vera mjög mikilvægan. Hann er alfarið byggður á áætlunum og tölum frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Og öll samhæfingin sem gert er ráð fyrir að fari fram á sjúkrahúsum á Reykjavíkursvæðinu á næstu mánuðum er öll byggð á samvinnu við Sjúkrahús Reykjavíkur. Þess vegna voru það mikil vonbrigði fyrir mig, sem skrifaði undir þennan samning, þrem vikum síðar að heyra það að e.t.v. gæti þetta samkomulag ekki staðist fullkomlega. Ég fékk ekki formlegar upplýsingar um það að staðan væri jafnslæm og hún er fyrr en fyrir fáum dögum síðan. En það bætir ekki skaðann og af því að hér hefur verið talað um það sérstaklega að það þyrfti að gefa stjórnendum Sjúkrahúss Reykjavíkur ráðrúm til að anda, þá get ég tekið undir það. Ég tel að þeir hafi tekið ábyrgt á sínum málum þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir gætu ekki staðið við sínar áætlanir, þá gerðu þeir ráðstafanir. Það var þeirra skylda. Og ég hef engan heyrt segja það úr þessum ræðustól núna að mönnum þyki rétt að það komi enn og aftur til aukafjárveiting til sjúkrahúsanna í Reykjavík, það hef ég ekki heyrt frá neinum.