Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:54:05 (275)

1996-10-14 15:54:05# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:54]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér voru settar fram nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi vil ég benda á að samkæmt þeim hugmyndum sem gerð var grein fyrir mun þetta fyrirkomulag, þ.e. ókeypis heilsugæsla, leiða til sparnaðar þegar upp er staðið. Vitnað var í skýrslur sem unnar voru á vegum OECD þar sem færð eru rök fyrir þessu.

Í öðru lagi vil ég benda á að samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir tekjuafgangi upp á 1,1 milljarð kr. og þar er um peninga að ræða til ráðstöfunar. Síðan vil ég minna hv. þm. á að fyrir fáeinum árum var þessi þjónusta ókeypis og þau eru mörg ríkin í heiminum sem hafa viðhaldið slíku kerfi í almannaþjónustu. Svo er um Danmörk t.d. og England þrátt fyrir Thatcher í langan tíma og síðan John Major, að þar er aðgangur að heilsugæslunni ókeypis, í Þýskalandi ókeypis, í Ítalíu ókeypis, í Kanada ókeypis, í Grikklandi ókeypis. Hér hafa verið færð rök fyrir því að þessi gjaldtaka bitnar á fátæku fólki og hv. þm., þá spyr maður ekki svona.