Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:00:33 (278)

1996-10-14 16:00:33# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að þakka þingmönnum Alþb. og óháðra fyrir þennan frumvarpsflutning um að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslunni. Ég tel að málið sé gott innlegg í það hvort við getum komið til móts við heimilin í landinu og lækkað skuldir þeirra. Ég hefði engu að síður viljað sjá að tillagan væri nokkuð víðtækari þannig að við færum yfir sviðið, hvar þjónustugjöldin liggja og á hverjum þau lenda. Við erum ekki bara með þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu sem hér er sérstaklega verið að fjalla um heldur erum við með þau miklu víðar. Athyglisvert er að horfa til þess hverjir raunverulega bera þau þjónustugjöld. Jú, eins og hér er verið að ræða um eru það sjúklingarnir. Ríkisvaldið hefur farið mjög út í að skattleggja skuldir heimilanna, skattleggja neyð skuldugra heimila. Þegar skuldir og vanskil aukast hefur ríkið meiri tekjur og græðir á neyð fólksins. Gjöld sem ríkið tekur í skattlagningum af skuldum heimilanna eru á milli 2 og 3 milljarðar. Það sjáum við í formi þinglýsingargjalda, stimpilgjalda, gjalda af fjárnámi og nauðungarsölum og fleiri þáttum. Þannig að þeir sem eru verst staddir lenda helst í þessum þjónustugjöldum.

Ef ég sný mér að tillögunni sem er til umræðu þá held ég að rökin sem eru færð fram í málinu séu nokkuð skýr og sumpart hægt að taka undir þau. Til dæmis er kveðið á um að vegna þess hve mikilvæg heilsugæslan er sem grunnur heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að einmitt þar verði hafist handa við að snúa til réttrar áttar á ný. Er þá verið að tala um þjónustugjöldin. Einnig eru færð rök fyrir því að ætla megi að ef dregið yrði úr þessum gjöldum og heilsugæslan yrði efld mundi sérfræðikostnaður minnka um leið. Ég held að það sé reynsla þeirra þjóða sem leggja áherslu á og hlúa að frumheilsugæslunni og grunnheilbrigðisþjónustunni að heilbrigðisþjónustan verði ódýrari. Ella kemur að því, eins og fram kemur í þáltill., að sérfræðikostnaðurinn eykst. Þannig að ég lít á þetta sem lið í að efla frumheilsugæsluna sem ég held að sé mjög brýnt. Kannski er það eitt brýnasta verkefnið í heilbrigðisþjónustunni að efla grunnheilsugæsluna og leggja aukna áherslu á slysavarnir, forvarnir, heilsuvernd og endurhæfingu. Þetta er því gott innlegg í málið.

Í grg. með frv. kemur fram að frá og með fjárlögum fyrir árið 1992 hafi álögur á sjúklinga verið auknar jafnt og þétt. Ég held að við verðum að skoða málið í miklu víðara ljósi heldur en hér er sett fram vegna þess að við höfum lengi haft þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustunni. Ég er með töflur bæði um útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála allar götur frá 1980 til 1995 og hvernig álögurnar í heilbrigðiskerfinu hafa komið fram í útgjöldum heimilanna til heilbrigðismála á þessu tímabili. Mér finnst tölurnar nokkuð athyglisverðar og þær eigi erindi inn í umræðuna. Ef skoðuð eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála á þessu 15 ára tímabili og þau skoðuð staðvirkt á mann í þúsundum kr. þá kemur fram að opinber heilbrigðisútgjöld hins opinbera árið 1980 voru 75.700 á mann. Á árinu 1995, og er þá miðað við verðlag ársins 1995, eru þau komin í 116.900 þannig að þau hafa aukist um 50% á mann á tímabilinu. Það sem er athyglisvert, en á sér auðvitað sínar skýringar, er að aukningin ef við förum í einstaka málaflokka innan heilbrigðismálanna, er orðin langmest í öldrun og endurhæfingu en hún hefur þrefaldast á þessu tímabili á mann. Árið 1980 fóru 6.500 kr. í þann málaflokk innan heilbrigðiskerfisins --- öldrun og endurhæfing --- en sú tala er orðin 17.000 á árinu 1995.

Ef við snúum okkur að útgjöldum heimilanna, hvernig þau hafa þróast á þessu tímabili þá er það alls ekki frá 1992 sem þetta byrjar. Og ekki endilega frá 1995 heldur frá 1986 hafa þessi útgjöld aukist hraðar en gerði á árum áður. Ef við tökum bara heildarútgjöld heimilanna til heilbrigðismála á þessu tímabili og er þá verið að tala um lyf og læknisþjónustu, hefur þetta aukist úr 0,73% í 1,29% sem hlutfall af landsframleiðslu. Samkvæmt þeim útreikningum, sem ég hef og eru byggðir á tölum frá Þjóðhagsstofnun, hefur læknisþjónustan sem slík aukist á sambærilegu verðlagi um 77% á tímabilinu. Erum við þá að tala bæði um sérfræðingana og heilsugæsluna. Þessi þáttur, lyf og læknisþjónusta, hefur farið vaxandi í útgjöldum heimilanna á 15 ára tímabili, úr 401 millj. kr. í 712 millj. kr. og rekja má til þessarar gjaldtöku.

Ef við tökum heilsugæsluna sem slíka ber mínum tölum ekki saman við tölurnar sem hv. þm. Árni M. Mathiesen nefndi, vegna þess að samkvæmt því sem ég hef um heilsugæsluna hafa þjónustugjöld eða útgjöld heimilanna beint vegna heilsugæslu aukist úr 239 millj. kr. á sambærilegu verðlagi í 410 millj. kr. eða um 71%.

Ég ræddi áðan um læknisþjónustuna, þ.e. sérfræðingana og heilsugæsluna, hvernig hún hefur aukist um 77%. Ef við tökum bara læknishjálpina í heild, innan hennar er tannlæknaþjónusta, læknisþjónusta, slysadeildin og ljósmæðraþjónusta, þá hefur hlutur heimilanna hvorki meira né minna en þrefaldast í læknisþjónustunni á tímabilinu eða úr 0,25% sem hlutfall af landsframleiðslu í 0,86%. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu og velti fyrir mér hvort sú leið sé rétt sem hv. þm. nefnir vegna þess að það sem er mjög athyglisvert í þessari tölu er ekki útgjaldaaukningin til heilsugæslunnar í þjónustugjöldum heldur er það hlutur heimilanna sem sker sig úr öllu öðru þegar farið er í einstaka þætti í heilbrigðismálunum. Það er hlutur heimilanna í tannlæknakostnaði eða tannlæknaþjónustunni sem hefur vaxið á tímabilinu 1980 til 1995, og er þá miðað við verðlag 1990, um 287% eða nærfellt þrefaldast. Útgjöldin hafa því aukist, voru á árinu 1980 479 millj. kr. og hafa aukist í 1 milljarð og 667 millj. kr. Ef við veltum fyrir okkur hvernig við getum best komið til móts við heimilin í landinu, t.d. með því að lækka þjónustugjöldin, þá er spurning hvort við eigum frekar að horfa til tannlæknaþjónustunnar. Einnig hefði ég viljað að menn veltu fyrir sér þeirri hugmynd í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir, um að útgjöld heimilanna eru langmest á sviði tannlæknaþjónustu, hvort ekki beri að stefna að því að tannheilbrigðisþjónustan verði boðin á heilsugæslustöðvum til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum sem þar eru boðin. Þá erum við að tala um að tannlæknaþjónustan gæti falist í fyrirbyggjandi aðgerðum eins og tannvernd og minni háttar tannviðgerðum en meiri háttar tannviðgerðir yrðu þá utan heilsugæslunnar. Tannheilbrigðisþjónustan yrði þá veitt á sömu kjörum og þar eru boðin. Ég held nefnilega að útgjöld heimilanna til þessa þáttar heilbrigðisþjónustunnar sé mörgum heimilum ofviða. Auðvitað þyrfti að skoða nánar hvaða áhrif þessi vaxandi útgjöld heimilanna til tannheilbrigðisþjónustu hafa á tannheilsu og tannvernd barna og unglinga.

Það sem líka er athyglisvert í þessu og kom mér nokkuð á óvart er hvernig lyfjakostnaður og lyfjabúðavörur hafa breyst á þessu tímabili þar sem um lækkun hefur verið að ræða. Það sýnir að þær aðgerðir, sem t.d. fyrrv. heilbrrh. beitti sér mjög fyrir, sem var lækkun á lyfjakostnaði og lyfjaverði, hafa skilað árangri. Í ljós kemur ef lyfin eru skoðuð sérstaklega, að þau voru 0,48% í útgjöldum heimilanna til heilbrigðismála en eru 0,44% á árinu 1995, sem sýnir að þarna hefur náðst verulegur árangur.

Ég stóð hér upp, virðulegur forseti, til að taka undir það að skoða þarf þessi þjónustugjöld í heild sinni, velta fyrir sér niður á hverjum þau koma helst. Hvort þau séu sanngjörn og eðlileg og hvort hvort við séum á réttri leið í þessari skiptingu milli beinna skatta og annarra skatta vegna þess að þetta er ekkert annað en skattur.

Ég veit að Sjálfstfl. hefur viljað fara þá leið að auka frekar þjónustugjöldin heldur en almenna skattheimtu. Við vitum að þjónustugjöldin og eðli þeirra eru með þeim hætti að þau koma niður á þeim sem síst skyldi eins og sjúkum.

Lokaorð mín skulu verða þau að ég hefði viljað sjá að farið væri í þessari tillögu almennt yfir þjónustugjöldin og svið þeirra. Það tel ég nauðsynlegt að gera og skoða þetta í heild sinni vegna þess að ég held að kannski sé almennt hægt að segja um álagningu á þjónustugjöldum að þau hafi ekki verið nægilega markviss og menn hafi ekki skoðað nægilega hvernig þau koma niður á heimilunum og einstökum hópum og hvort við séum yfirleitt á réttri leið. Síðan tel ég að stefna beri að því og ég held að öll rök mæli með því --- kannski í staðinn fyrir þessa leið sem hv. þm. mælir hér fyrir --- að tannheilbrigðisþjónusta verði boðin á heilsugæslustöðvum til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum og þar eru boðin.