Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:19:45 (283)

1996-10-14 16:19:45# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:19]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Flutningsmaður frv. vitnaði til skýrslu OECD um sparnað í heilbrigðiskerfinu með því að lækka þjónustugjöld á heilsugæslustöðvum eða í frumheilbrigðisþjónustunni. Það er rétt að með því að afnema gjöld eða hafa gjöld mjög lág á heilsugæslustöðvum er fólki beint í þá þjónustu sem er þjóðfélagslega hagkvæm. Nú eru langflestir heilsugæslulæknar sérfræðingar í heimilislækningum og þeim er því treystandi til að vísa fólki til annarra sérfræðinga ef það þarf á sérhæfðri þjónustu að halda og þar með dýrari þjónustu en veitt er á heilsugæslustöðvum í dag.

Valfrelsi í læknisþjónustu er til staðar og verður áfram þó að þjónustugjöld verði aflögð á heilsugæslustöðvum en fólk leitar þá frekar í þessa grunnþjónustu og þar með í ódýrari þjónustu fyrir vikið. Sérfræðingar hér á landi eru trúlega lítið hrifnir af þessari tillögu því að í tillögunni felst að það verði að öllum líkindum í minna mæli leitað til þeirra.

Í dag getur fólk valið sér heilbrigðisþjónustu og fólk velur mismunandi greiðslu til heilsugæslustöðva og greiðslu til sérfræðinga. Sérfræðingar taka hærri greiðslu fyrir þjónustuna en það sem sjúklingar finna ekki er kostnaður og gjöld Tryggingastofnunar ríkisins sem er mun hærri þegar leitað er til sérfræðinganna en til heimilislækna. Þar af leiðandi er þjónusta sérfræðinganna mun dýrari fyrir þjóðfélagið en kemur fram í þessum mismunandi gjöldum.

Álögur á sjúklinga og heimilin hafa aukist undanfarin ár og það er komið að öðrum að standa undir skattlagningu og framlögum til velferðarkerfisins á Íslandi. Jafnframt því að fella niður þjónustugjöld á heilsugæslustöðvum þarf að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni og í þessu félagslega þjónustukerfi okkar. Ég hef sagt það áður að mjög sérhæfð þjónusta, sem gagnast fáum og er dýr, á vart rétt á sér í svo fámennu þjóðfélagi sem Ísland er og verður að skoðast mjög gaumgæfilega áður en henni er komið á því að það er alltaf erfitt að taka hana af þegar búið er að koma henni á.

Áðan var bent á skýrslu og á hagkvæmustu leiðir til að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í Reykjavík. Í þeirri skýrslu kom fram að hagkvæmt væri að reka saman Borgarspítalann og Landspítalann og einnig að óhagkvæmt væri að koma á glasafrjóvgunardeild, hjartaskurðlæknum og fleira. Okkur ber ekki alltaf gæfa til þess að fara eftir þeim ráðum sem við erum að kaupa til þess að leiðbeina okkur inn í framtíðina. En ég segi enn og aftur að við þurfum að skoða vel þegar við byrjum með mjög dýra þjónustu. Í störfum þingsins tel ég það vera skyldu okkar allra, sama hvar í flokki við erum, að verja hagsmuni þeirra sem minna mega sín, sjúklinga, fjölskyldunnar og annarra.