Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:40:12 (286)

1996-10-14 16:40:12# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu. Það er umhugsun\-ar- og áhyggjuefni hve hægt gengur að breyta þeim þáttum til betri vegar sem skapa hefðbundið umhverfi fjölskyldunnar, þætti sem þurfa að vera í lagi, þ.e. þjónusta við foreldra, við börnin og reyndar þjónusta við ömmu og afa ef fjölskyldan á að njóta sín og einstaklingar innan hennar að alast upp við það sem okkur finnst eðlilegt í dag og tölum um sem sjálfsagt einstaklingsfrelsi.

Eins og flutningsmaður kom inn á fyrir stundu ræddum við fæðingarorlof fyrir ári og við erum að ræða það aftur. Við erum að taka fyrir sömu tillögurnar ár eftir ár eftir ár. Við vísum til Norðurlanda og nágrannalandanna um það hvernig fjölskyldulíf getur orðið farsælt séu þessir þættir í lagi en það miðar ekkert. Kannski er rangt að segja að það miði ekkert vegna þess að ekki er svo langt síðan við fengum lög um sex mánaða fæðingarorlof. Satt best að segja hefur það kannski gert heilmikið fyrir fjölskyldur í dag og rétturinn verið að einhverju leyti jafnaður. Ég lít í eigin barm og minnist þess að þegar ég kornung tók fæðingarorlof vegna fyrsta barnsins var ég opinber starfsmaður og fékk laun í fæðingarorlofi. Sautján árum seinna átti ég aftur von á barni og þá stóð ég frammi fyrir því að ég átti rétt á hálfum mánuði í fæðingarorlof hjá því verkalýðfélagi sem ég tilheyrði þá. Það er ekki svo afskaplega langt síðan en þó hefur margt lagast frá þeim tíma en þrátt fyrir allt er breytingin fram á við hjá ákveðnum stéttum en ekki innbyrðis aðlögun.

Af því að hér var vísað til karlanefndar Jafnréttisráðs ætla ég að leyfa mér að koma inn á erindi sem formaður karlanefndarinnar flutti á haustdögum í fyrra hjá Kvenfélagasambandinu þar sem því er lýst hvernig mismunur er eftir því hvar maður er starfsmaður og eftir því hvernig maður er staddur þegar von er á barninu. Og hann segir þegar hann er að lýsa því hvað honum finnast þessi mál í miklu klúðri hjá okkur, með leyfi forseta:

,,Réttur fólks til fæðingarorlofs er að vísu jafn. Foreldrar sem gegnt hafa launuðu starfi eiga rétt á að leggja niður það starf og taka sex mánaða orlof við fæðingu barns. Þegar kemur að greiðslum í fæðingarorlofi verður kerfið hins vegar verulega vitlaust því að þá skiptir öllu hvar þú vinnur. Mæður á almennum vinnumarkaði eiga rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun og til þess að hindra að menn leggist nú í eitthvert hóglífi og vitleysisgang eru fæðingardagapeningar 1.202 kr. á dag eða milli 33 og 34 þús. kr. eftir lengd mánaðar. Hjá Tryggingastofnun telst allur réttur föður afleiddur af rétti móður þannig að eftir að móðirin geti tekist fyrsta mánuðinn geti faðirinn tekið greitt orlof ef móðirin fellst á það. Faðirinn á engan sjálfstæðan rétt til greiðslna. Hjá hinu opinbera er réttur mæðra heldur skárri hvað tvennt varðar. Í fyrsta lagi geta mæður þar haldið launum í fæðingarorlofi, óskertum launum fyrstu þrjá mánuði fæðingarorlofs, en grunnlaunum næstu þrjá. Í öðru lagi geta konur lengt fæðingarorlofið allt að einu ári gegn samsvarandi skerðingu greiðslna. Þeir karlar á hinn bóginn sem kvæntir eru konum í opinberri þjónustu eiga engan rétt til greiðslna. Lög og reglur um fæðingarorlof opinberra starfsmanna eru bundin við konur. Fjmrn. hefur ekki viljað breyta þeim ákvæðum og því geta karlar ekki haldið launum sínum í fæðingarorlofi. Í og með að móðir í opinberri þjónustu heldur launum sínum, þá á hún ekki rétt á greiðslu hjá Tryggingastofnun og þar sem réttur föður er afleiddur af rétti móður og hún er í þessu tilfelli réttlaus þá er faðirinn einnig réttlaus.``

Því tek ég þessa klausu upp úr erindi Ingólfs V. Gíslasonar að hann dregur saman á skorinorðan hátt stöðuna í þessum málum fyrir feður og þá í raun fyrir mæður því að þetta er að sjálfsögðu baráttumál beggja foreldra.

[16:45]

Að mínu mati er fæðingarorlof beggja foreldra undirstaða jafnréttis eins og jákvæð og réttlát umgjörð fjölskyldunnar er lykilatriði í því hvort jafnrétti næst. Tillagan beinist ekki beinlínis að jafnrétti kynjanna, en þegar hún næst fram --- og ég bið hv. þm. að taka eftir að ég segi þegar hún næst fram en ekki ef sem væri freistandi að nota þegar litið er til hversu baráttan er löng og ströng --- verður framkvæmd hennar þýðingarmikill áfangi á leið til jafnréttis og kvennfrelsis. Ég leyfi mér að taka svo til orða, virðulegi forseti, vegna þess að á meðan þessi mál eru jafnóleyst og þau eru nú er tómt mál að tala um jafnrétti, einstaklingsfrelsi og kvenfrelsi. Það er tómt mál að tala um það á meðan þessi mál eru í ólestri.

Tillagan er að sjálfsögðu um rétt feðra en hún snýr að rétti barnsins til að njóta samvista við föður á fyrsta mótunarskeiði frumbernskunnar og það er að sjálfsögðu grundvallaratriði.

Virðulegi forseti. Þegar mál sem þetta hefur verið á dagskrá Alþingis ár eftir ár og endurflutt vegna þess að lítt miðar gæti maður í raun og veru tekið ræðuna frá í fyrra og flutt hana aftur því hún á jafnmikinn rétt á sér. Það ætla ég hins vegar ekki að gera en ég ætla að leyfa mér að vísa í mál sem ég vísaði til við umræðuna í fyrra sem var að Evrópusamtök atvinnurekenda, Evrópusamtök sjálfseignarstofnana með ríkisaðild og Evrópusamtök verkalýðsfélaga hafa gert samkomulag um að setja lágmarksreglur um foreldraorlof sem er mikilvægur þáttur að þeirra mati í því að samræma skyldur á vinnumarkaði og fjölskyldulíf og stuðla að jöfnum tækifærum og jafnrétti karla og kvenna. Ég rakti þetta fyrir ári og benti á hversu mikilvægt væri að slík samtök væru að hreyfa við þessum málum og hafa sett tillögur fram við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og gert tillögur um að hún leggi þetta rammasamkomulag fyrir ráðherraráð ESB. Nú hefur það reyndar gerst, þann 3. júní sl., að ráðherranefndin afgreiddi frá sér sem tilskipun þessa tillögu um foreldraorlof. Það er tveggja ára aðlögun fyrir aðildarlönd Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins þannig að 3. júní 1998 tekur þessi tilskipun gildi hér. Þá er það réttur þeirra sem eru á vinnumarkaði að fá foreldraorlof sem í raun er hugsað sem viðbót við fæðingarorlof. Að vísu er óleyst hvernig þetta verður fjármagnað en þarna er talað um talsvert mikinn rétt beggja foreldra og að þetta er óframseljanlegur réttur einstaklings.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er að ljúka. Ég ætla að leyfa mér að benda á aðra merkilega staðreynd sem er að jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar er að fara af stað með sérstakt (Forseti hringir.) tilraunaverkefni. Það á að gera nokkrum feðrum hjá borginni kleift að fá fæðingarorlof til lengri tíma en þekkist, eftir því sem ég hef hlerað í þrjá mánuði. Það er (Forseti hringir.) styrkur samkvæmt jafnréttisáætlun Evrópusambandsins sem gerir þetta kleift. Ég hef upplýsingar um að styrkurinn hafi fengist. Það er ástæða til að benda á, virðulegi forseti, að margt jákvætt fylgdi með í félagslega þætti Evrópska efnahagssvæðisins sem við höfum sjaldan rætt. Yfirleitt var tekist á í þessum ræðustól um aðra þætti og þá sem áhyggjum ollu. En við þyrftum að ræða það hér hversu margt gott fékkst við aðildina af þessum toga.