Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:49:17 (287)

1996-10-14 16:49:17# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:49]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um fæðingarorlof feðra. Þessi tillaga var einnig lögð fram á síðasta þingi og þá lét ég í ljós mikla ánægju mína með tillöguna enda er hún samhljóða einum lið í þáltill. okkar kvennalistakvenna sem við lögðum fram á síðasta þingi um fæðingarorlof eins og fram hefur komið í umræðunni.

Tillaga okkar var eigi útrædd fremur en sú sem nú er til umræðu. Eins og fram kemur í greinargerð og hefur komið fram í umræðunni hefur karlanefnd Jafnréttisráðs lagt til mun róttækari breytingar á lögunum um fæðingarorlof en hér eru lagðar til eins og kom fram í ræðu hv. flutningsmanns sem ítrekar að tillagan hér á borðinu, þ.e. tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns, er að sjálfsögðu algjör lágmarkskrafa, en mjög mikilvæg lágmarkskrafa.

Atriðin sem koma fram í greinargerð karlanefndarinnar og ég tek heils hugar undir koma reyndar öll fram í tillögu okkar kvennalistakvenna frá liðnu ári. Hún var í níu atriðum sem ná m.a. til lengingar fæðingarorlofs í 12 mánuði í áföngum, til sveigjanleika við töku fæðingarorlofs og að fólk haldi fullum launum í fæðingarorlofi. Til þess að fá full laun í fæðingarorlofi lögðum við til að stofnaður yrði sérstakur sjóður, fæðingarorlofssjóður, sem ég mun koma nánar að á eftir. En síðast en ekki síst leggjum við til að feður fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Vegna ummæla flutningsmanns áðan um að í Svíþjóð og víða á Norðurlöndum sé réttur feðra til tveggja vikna fæðingarorlofs stundum tekinn síðar á fæðingarorlofstímabilinu, vil ég vekja athygli á að í tillögu okkar kvennalistakvenna frá síðasta þingi er það einn liður að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði. Þá eigum við við sérstakan rétt sem kemur til viðbótar við rétt mæðra. Svo segjum við í öðrum sjálfstæðum lið: ,,... að tryggja feðrum sérstakt fæðingarorlof í tvær vikur eftir fæðingu barns, sem ekki skerðir fæðingarorlof móður.`` Ég vil vekja athygli á að þarna er um tvenns konar þarfir og tilgang að ræða. Strax eftir fæðingu barns þarf faðirinn oft að koma inn í bæði til að sinna fjölskyldunni heima fyrir á meðan móðirin er á spítalanum og einnig til að aðstoða við umönnun barnsins fyrstu vikurnar. Hinn tilgangurinn, þ.e. að faðir annist barnið fyrsta æviárið í þrjá til fjóra mánuði til jafns við móður og á móti henni ef hún er útivinnandi er annar, nefnilega sá að faðir geti eins og móðir tengst barninu á fyrsta æviárinu og lært að umgangast það einn og óstuddur eins og móðirin gerir í fæðingarorlofi. Ég tel mjög mikilvægt að aðgreina þetta tvennt. Ég er alls ekki að gera lítið úr þessu tveggja vikna orlofi strax eftir fæðingu. Það er mjög mikilvægt. En það er annar tilgangur með því en að faðirinn komi inn í þetta síðar meir eins og móðirin gerir núna í fæðingarorlofi. Ég vara við því að þetta sé tengt saman og sagt að feður taki fæðingarorlof þegar hentar í öðrum tilgangi. Ég held að þessi tilgangur sé mjög einlægur og mikilvægur bæði fyrir barnið og foreldrana ekki síst út frá sjónarmiðum jafnréttis eins og ég kem að á eftir.

Það hefur komið fram að ríkisstjórnin er nú að endurskoða gildandi lög um fæðingarorlof með nefnd sem er starfandi þó það bóli enn þá lítið á stjórnarfrv. um efnið. Það virðist því miður vera lítil sátt innan þeirrar nefndar ef marka má það sem heyrist. Markmið þeirrar nefndar er m.a. það að jafna rétt mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs sem því miður gæti verið framkvæmt þannig að feður fengju aukinn rétt á kostnað móðurinnar. Það voru því í raun ekki mjög miklar fréttir af landsfundi Sjálfstfl. núna að fyrirhugað væri að feður fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort svo á að verða þannig að fólk fái full laun því ef svo er ekki má gera ráð fyrir að margur faðirinn telji sig ekki hafa efni á að fara í fæðingarorlof og láti móðurinni það eftir ef þau geta valið. Mæður eru oft á lægri launum og ef um val er að ræða og fólk heldur ekki fullum launum, þá er það bara oft praktísk spurning að það er móðirin sem tekur fæðingarorlofið.

Reynslan frá Svíþjóð sýnir að feður taka fæðingarorlof eingöngu ef það kemur sem viðbót við fæðingarorlof móður viðbót sem ekki fæst ef feður taka fæðingarorlofið ekki sjálfir. Þ.e. að á meðan þetta var sveigjanlegt og val á milli þá var mjög lítið um að feður tækju fæðingarorlof en ef það fékkst viðbótarmánuður eingöngu ef feður tækju það þá tóku þeir þennan mánuð. Það verður því fróðlegt að sjá hvort það að feður fá sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs kemur sem viðbót eða að það verði eingöngu heimilt fyrir feður að taka það á móti móður og án þess að laga launakjörin í fæðingarorlofi. Þá verður þetta í reynd ekki mikil réttarbót ef marka má reynslu annarra.

Ég er sannfærð um að það er mjög mikið jafnréttismál á milli hjóna og mannréttindamál fyrir börn að báðir foreldrar hafi aðstöðu til að sinna börnum sínum í fæðingarorlofi. Það er grundvallaratriði bæði vegna tengsla barnsins við foreldra og vegna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði að karlar og konur geti bæði sinnt börnum sínum í fæðingarorlofi. (Forseti hringir.)

Við kvennalistakonur erum að þróa hugmyndir okkar um fæðingarorlofssjóð og munum kynna þær síðar á þessu þingi. Ég vil einnig taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur þegar hún var að vekja athygli á þeirri áhugaverðu tilraun sem nú er að fara í (Forseti hringir.) gang hjá Reykjavíkurborg þar sem feður eiga að fara í fæðingarorlof og gera á kvikmynd um efnið. Vonandi verður það þessum málum til framdráttar. Ég styð þessa tillögu.

(Forseti (ÓE): Forseti biður þingmenn um að gæta tímamarka. Það er ósköp leiðinlegt að vera alltaf að hringja bjöllunni.)