Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:04:14 (289)

1996-10-14 17:04:14# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem fer fram um fæðingarorlof feðra og fæðingarorlof almennt. Þetta er mjög tímabær umræða um hvernig með þetta á að fara vegna þess að málið hefur margar hliðar eins og hefur komið fram í umræðunni. Þingmenn sem hafa setið lengi á þingi þekkja að af og til eru að koma upp tillögur um fæðingarorlof bæði um lengingu þess, samræmingu og fæðingarorlof feðra. Ég hygg að mikill vilji sé fyrir því á Alþingi að á þessu máli sé tekið. Engu að síður hefur málið verið að þvælast í heilbrrn. án þess að nokkur niðurstaða hafi fengist. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst mjög sérkennilegt að hæstv. heilbrrh. sjái enga ástæðu til að vera við þessa umræðu né þá umræðu sem var áðan um þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu sem snertir hæstv. heilbrrh. mjög mikið. Ég vil spyrja hvort hæstv. heilbrrh. sé í húsinu?

(Forseti (ÓE): Ráðherrann er ekki í húsinu.)

Það er mjög miður vegna þess að full ástæða er til að hún skýri frá því hvað er að gerast í þessum málum í heilbrrn. og hvort einhver samstaða er um leiðir varðandi fæðingarorlof og hvort hugmyndin sé að veita feðrum sjálfstætt fæðingarorlof eins og hér er gerð tillaga um.

Ég sakna þess líka, virðulegi forseti, að ekki fleiri en einn sjálfstæðismaður, auk forsetans sem hér situr í ræðustól, sjái ástæðu til að fjalla um þetta frv. sem er til umræðu. Eftir því sem mér skilst var málið rætt á landsfundi sjálfstæðismanna og ályktað um það að feður skyldu fá sjálfstætt fæðingarorlof. Það hefði verið full ástæða til þess og ég hvet þann þingmann sem hér er, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að skýra nú fyrir þingheimi hvað felst í þessari tillögu sjálfstæðismanna. Hvort þetta sé einhver sýndartillaga eins og jafnréttismálin í heild eru hjá Sjálfstfl. því að þetta er auðvitað þáttur í jafnréttismálum --- sú tillaga sem við ræðum hér. Ég spyr hv. þm. hvernig sjálfstæðismenn hugsi sér útfærsluna. Er þetta sjálfstæður réttur feðra þar sem þeir halda sínum launum eða er þetta einhver óhugsuð sýndartillaga sem sett verður ofan í skúffu hjá Sjálfstfl. eftir landsfundinn?

Það er mjög brýnt að feður fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs hvernig sem á málið er litið. Það er alveg ljóst. Það eru sláandi tölur sem hér hafa komið fram að á þremur árum eru um 13.000 fæðingar og að í einungis 41 tilviki hafa feður getað tekið fæðingarorlof eða nýtt hluta af fæðingarorlofi kvenna. Það segir sig sjálft að mjög óheilbrigt er að feður skuli ekki hafa sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Við getum auðvitað velt fyrir okkur skýringunni á því af hverju feður taka ekki fæðingarorlof. Ég hygg að skýringin sé að stærstum hluta sú að feður hafa oft meiri tekjur en móðirin og telja sig þess vegna ekki geta farið í fæðingarorlof. Á þessu verður að verða breyting. Það er mjög mikilvægt að feður hafi þennan kost, að fæðingarorlof verði lengt og að fyrstu mánuðir og ár barns séu með þeim hætti að fjölskyldulífið sé eðlilegt og báðir foreldrar geti umgengist nýfætt barn sitt eðlilega.

Fæðingarorlofið er mjög stór hlið á jafnréttismálunum þegar við hugsum okkur jafnrétti bæði inni á heimilinu og í atvinnulífinu. Þetta er raunverulega lykillinn að því að hægt sé að stíga einhver raunhæf skref í átt til jafnréttis þ.e. að opnaðir séu möguleikar fyrir feður til að taka sér fæðingarorlof.

Ég vil taka undir það sem fram hefur komið að nauðsynlegt er að við skoðum og finnum leiðir til að lengja fæðingarorlofið jafnvel þótt það sé í áföngum. Þetta er allt of skammur tími sem foreldrum, sem iðulega eru báðir útivinnandi frá heimilinu, gefst tækifæri til að vera með barni sínu. Ekki er eðlilegt að foreldrar þurfi eftir sex mánuði að setja barnið inn á dagvistarheimili eða í umsjá einhvers annars. Ef við hlúum að fyrstu mánuðum og uppvaxtarárum barnanna mun það skila sér út í þjóðfélagið síðar meir vegna þess að barn mótast á sínum fyrstu uppvaxtarárum og býr að þeim þroska alla tíð. Þess vegna vil ég hvetja til að tillagan og fæðingarorlofið í heild sinni fái rækilega umfjöllun á Alþingi. Það þarf að samræma þetta og ekki er boðlegt að konur sem eiga sín börn og ala upp skuli hrapa verulega niður í tekjum. Það verður að samræma þessi sjónarmið en ekki á kostnað þess að taka það sem konur hjá hinu opinbera hafa heldur verður að samræma þetta upp á við. Á það legg ég mikla áherslu, herra forseti.

Ég vil eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir aðeins segja nokkur orð um það merkilega átak sem er að fara af stað á vegum Reykjavíkurborgar og ég er sannfærð um að geti skilað miklu. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem nokkrum feðrum verður gefið tækifæri til að fara í fæðingarorlof og þá í lengri tíma heldur en hér er gert ráð fyrir. Ég geri mér grein fyrir að þetta er fyrsta skrefið, í þrjá mánuði og síðan er hugmyndin að kanna hvaða áhrif þetta hefur, bæði varðandi barnið og hvort þetta geti verið hvatning til þess að fleiri feður taki sér fæðingarorlof þannig að ég held að þetta sé mjög merkileg tilraun sem Reykjavíkurborg stendur að með fjárstuðningi frá ESB með vísan í jafnréttisáætlun þeirra og er vert að fylgjast með henni.

En tíminn er að verða búinn. Ég er mjög forvitin að heyra um hvað býr að baki þessari samþykkt landsfundar sjálfstæðismanna og vil nota tækifærið fyrst einn þingmaður af 25 sjálfstæðismönnum, auk forseta, sér ástæðu til að vera við þessa umræðu. Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég harma að hæstv. heilbrrh. skuli ekki sjá ástæðu til að blanda sér í þessa umræðu og fá skoðun hæstv. heilbrrh. fram þegar verið er að fjalla um tvö svona veigamikil mál á hennar málefnasviði eins og þjónustugjöldin og fæðingarorlofið. Mér finnst að forsetar eigi að sjá til þess að ráðherrar sýni þinginu þá virðingu að sitja við umræðu þegar stórir málaflokkar eru til umfjöllunar, jafnvel þó það séu þingmannamál, þau eiga ekki að hafa minni vigt heldur en stjórnarfrv. í umræðunni.