Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:23:24 (295)

1996-10-14 17:23:24# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:23]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga málefni. Ég tek undir það sjónarmið sem kom fram hjá nokkrum þingmönnum sem tóku til máls að mikilvægt væri að stefnt verði að því að samræma réttindin á öllum launamarkaðinum. Ég held að mikilvægi þessa sé talsvert fyrir opinbera geirann ekki síður en hinn eftir að lögum um réttindi og skyldur var breytt og eftir að menn fóru að reyna að beina samningskerfinu öllu inn á einstakar stofnanir, valddreifa því, gera stofnanirnar ábyrgar fyrir öllum skuldbindingum sínum. Þetta er að gerast varðandi lífeyrisréttindi og hefur verið að gerast í seinni tíð og ekki er ólíklegt að þetta muni gerast einnig á öðrum sviðum að með ákvörðun um laun og kjör fylgi sú krafa að sami aðili og semur um þessi efni axli jafnframt ábyrgðina. Þá erum við komin með það sama á opinberum vinnustöðum og við hefðum á vinnustöðum á almennum markaði ef almannatryggingakerfið kæmi ekki til sögunnar með fæðingarorlofspeningana, þ.e. að atvinnurekandinn mundi forðast að ráða konur á barneignaraldri í ríkari mæli en hann gerir núna vegna þess að hann þyrfti sjálfur að axla fjárhagslegar skuldbindingar. Ég tel því að það sé mikilvægt hagsmunamál að sveigja þetta inn á þessa braut og læt þess getið að BSRB, fjölmennustu samtök opinberra starfsmanna, ályktuðu í þessa veru fyrir um ári. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að þegar samræmingin á sér stað verði hún ekki niður á við þannig að réttindi einstaklinganna verði skert heldur verði hún upp á við, það er grundvallaratriði.

Varðandi tal mitt um að feður kynnu að misnota orlofsréttinn ef hann væri ekki bundinn fyrstu vikunum eftir fæðingu kom tvennt fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals um það efni. Hann færði rök fyrir því að það væri jafnvel mikilvægara að feður tækju réttinn síðar, ekki á þessum fyrstu dögum eða vikum, það er bara málefnaleg afstaða. Hitt var atriði sem ég vakti máls á í framsögu minni að væri rétturinn ekki bundinn gæti það verið upp á teningnum að menn vildu misnota hann, ættu þeir kröfu til launa, og einnig væri á hitt að líta að atvinnurekandi mundi hugsanlega beita þrýstingi til að menn nýttu sér réttinn þegar það hentaði þeim en ekki fjölskyldunni.

Eins og aðrir hér tek ég undir þetta skref sem Reykjavíkurborg er að stíga en spyr sjálfan mig hvernig standi á því að ekki sé tekið skref fyrir alla feður og að þeim sé tryggður sjálfstæður réttur í stað þess að binda sig við þá mola sem hrjóta af borðum Evrópusambandsins. Hins vegar fagna ég þessu skrefi, það er til góðs, en hefði að sjálfsögðu kosið að þessi atvinnurekandi eins og aðrir atvinnurekendur, sem hafa völd til þess að gera breytingar, nýti sér þau fyrir alla feður.

Að lokum vil ég segja að í máli allra þeirra sem hafa talað í dag um þetta málefni kemur fram að slíkt orlof er mikilvægt fyrir barnið, fyrir föðurinn og móðurina, fyrir fjölskylduna alla og þetta fellur vel að þeirri fjölskylduvænu jöfnunarstefnu sem við í þingflokki Alþb. og óháðra fylgjum.