Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:43:04 (297)

1996-10-14 17:43:04# 121. lþ. 7.5 fundur 18. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðsla) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:43]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan, að það er ósiður sem hér tíðkast og hefur tíðkast mjög lengi að stjórnarskrárfrumvörp fá yfirleitt enga þinglega meðferð nema þegar þau snerta breytingu á kosningalögum og um þau hefur orðið samkomulag áður eða þegar þau snerta breytingu á skipan Alþingis og um það hefur orðið samkomulag áður en frv. var lagt fyrir þingið.

Í þessari stofnun þyrftum við auðvitað að eiga fasta stjórnarskrárnefnd að mínu mati, nefnd sem færi yfir stjórnarskrárfrumvörp þegar þau koma fram. Ég vísa til þess að í norska Stórþinginu og í sænska þinginu eru nefndir sem heita kontroll- og konstitusjons-nefndir og fara yfir allar breytingartillögur við stjórnarskrána, sömuleiðis allar skýrslur ríkisendurskoðunar í viðkomandi löndum, bæði um ríkisreikning og aðrar skýrslur og skýrslur umboðsmanna þinganna gagnvart viðkomandi þjóðum. Ég tel reyndar að óhætt sé að stinga því máli inn í þessa umræðu að það er auðvitað ekki vansalaust að hér á Alþingi Íslendinga er enginn farvegur fyrir skýrslu Ríkisendurskoðunar og ríkisreikninga annar en sá sem felst í meðferð fjárln. og það er viðurkennt af öllum að það er ófullnægjandi. Þegar við breyttum stjórnarskránni síðast, felldum við niður ákvæði hennar um þingkjörna yfirskoðunarmenn ríkisreikninga og það var m.a. með mínum stuðningi --- þá var ég einn af yfirskoðunarmönnum --- að það var gert. En það hefur ekkert komið í staðinn og ég tel að það sé til vansa og vil vekja athygli á því hér af því að verið er að tala um stjórnarskrána og verið er að tala um sérnefnd.

[17:45]

Ég vil líka vekja athygli á öðru máli sem ég tel að hafi gleymst við síðustu stjórnarskrárbreytingu og það er sú staðreynd að samkvæmt gildandi stjórnarskrá þarf atbeina framkvæmdarvaldsins, þ.e. forsrh., til þess að kalla þing saman og til að fresta þingi. Það hefur reyndar gerst með friðsamlegum hætti í flestöll skipti þau ár sem ég hef setið hérna. Þó munum við eftir því sum sem erum í salnum að einu sinni brá svo við að maður stökk hérna úr stólnum sem er mér á hægri hönd ekki langt í burtu með bláa bók allstóra og frestaði þinginu, án þess að um það hefði verið gert neitt samkomulag. Það er auðvitað óeðlilegt að hafa það fyrirkomulag að það þurfi atbeina framkvæmdarvaldsins til að kalla þingið saman. Það er niðurlægjandi fyrir þingið að mínu mati og það er enn þá meira niðurlægjandi þegar þarf atbeina framkvæmdarvaldsins til að fresta þinginu á vorin, sérstaklega eftir að það ákvæði var sett inn í lög landsins og grundvallarlög að þingið stendur í raun og veru allt árið. Þá er algjörlega fráleitt að hafa þetta ákvæði um atbeina framkvæmdarvaldsins og þjóðhöfðingjans eins og það er núna. Þetta ákvæði er gamalt. Það hefur verið í stjórnarskránni alveg frá upphafi og var í dönsku stjórnarskránni. Þar var gert ráð fyrir atbeina framkvæmdarvaldsins, en það var tekið út við breytingar á stjórnarskránni í Danmörku fyrir nokkrum árum vegna þess að allir sem að því komu sáu að annars var þingið í raun og veru ekki fullvalda andspænis framkvæmdarvaldinu. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Þetta er ekki síst mikilvægt atriði, hæstv. forseti, þegar kemur að umræðunni sem alltaf kemur upp, hvort það á að setja bráðabirgðalög eða ekki. Aftur og aftur kemur sú umræða upp. Það er augljóst mál að ef það er skoðun ríkisstjórnar við núvernadi aðstæður að það sé betra að setja bráðabirgðalög af pólitískum ástæðum heldur en að kalla þingið saman, þá setur hún bráðabirgðalög. Ef staðan væri hins vegar þannig að það að kalla þingið saman væri vald sem væri í hendi forseta Alþingis, en ríkisstjórnin gæti kannski verið annarrar skoðunar, þá horfir málið allt öðruvísi við. Þess vegna held ég að þetta sé eitt af þeim atriðum sem eigi að breyta, litlum, tæknilegum atriðum liggur mér við að segja sem eigi að breyta í stjórnarskránni og er í samræmi við þann vilja og þau viðhorf sem hafa komið upp á undanförnum árum.

Varðandi málið sjálft er það rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að frumvörp af þessu tagi eða um þetta efni hafa mjög oft verið flutt áður. Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur flutt mörg frumvörp af þessu tagi og ég hygg að hér á fyrr á árum, á fyrstu árum lýðveldisins, hafi mál af þessu tagi verið flutt af mjög mörgum þingmönnum, um að það væri hægt fyrir þjóðina að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að atbeini forsetans þyrfti að koma til þannig að um þetta hefur verið mjög lengi samstaða. Það er hins vegar alveg greinilegt að Sjálfstfl. hefur svo að segja alltaf verið á móti þessu og hefur ekki verið tilbúinn til þess að stíga þetta skref.

Hitt er svo líka ljóst að það hefur verið mjög erfitt að fá flokka sem hafa verið í ríkisstjórn, og þá á ég einkum við Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., að fallast á þjóðaratkvæðagreiðslur þó svo að eftir því hafi verið kallað af mjög stórum hluta þjóðarinnar. Nýjasta dæmið í þeim efnum er umræðan um Evrópska efnahagssvæðið þar sem menn voru á jaðrinum í sambandi við stjórnarskrána sem slíka og hefðu auðvitað átt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál eins og við töldum reyndar, en var fellt með naumum meiri hluta á Alþingi. Ég man ekki satt að segja hver hann var nákvæmlega. Var hann ekki 33:30? Það var alla vega mjög knappur meiri hluti sem hafnaði því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er dálítið umhugsunarefni og ýtir undir það að vel sé tekið á móti svona tillögu eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að mæla fyrir áðan.

Ég ætla þessu næst að víkja aðeins að þeirri fullyrðingu hv. þm., sem er rökstuðningur hennar fyrir þessu frv., að í raun og veru sé málskotsréttarákvæðið marklaust eins og það er. Ég neita því. Ég tel að það séu engin rök fyrir þessu. Ég tel að það séu alveg fullnægjandi almenn lýðræðisleg rök fyrir þessu frv. og þurfi ekki að nota þau rök að málskotsréttarákvæðið sé ónýtt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að málskotsréttarákvæðið sé ekki ónýtt. Mín rök í þeim efnum eru t.d. síðustu forsetakosningar. Umræðan fyrir síðustu forsetakosningar var mjög sláandi og sterk í þessu sambandi þar sem allir forsetaframbjóðendurnir sögðu: Við munum, ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, beita okkur fyrir því, hvað sem þinginu sýnist, hvað sem þingið segir, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið á grundvelli þessa ákvæðis. Þannig skuldbundu í raun allir forsetaframbjóðendurnir sig til þess að nýta þetta ákvæði, jafnvel þó að Alþingi vildi ekki nýta það og meiri hlutinn og framkvæmdarvaldið. Það var t.d. mjög sterkt og mjög eftirminnilegt sem núverandi forseti Íslands sagði um þetta mál, en hann sagði ekki einasta að hann mundi beita því, heldur sagði hann: ,,Ef stjórnmálamennirnir ganga á bak orða sinna í þessu máli, þá mundi ég samt beita því ef ég verð kosinn forseti.`` Það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga.

Ég skrifaði grein um þessi þjóðaratkvæðagreiðslumál og um Evrópusambandsmálið í Morgunblaðið sem birtist 26. júní ef ég man rétt, nokkrum dögum fyrir kosningar. Þar fór ég mjög vandlega yfir þetta. Ég bar þá grein efnislega, ég get sagt frá því hér, undir marga sérfræðinga í þessum málum, m.a. flesta þá sem yfirleitt er vitnað til í sambandi við þessi mál stjórnskipunarréttarins. Það er alveg augljóst að miðað við þann texta sem þar var og miðað við það sem fram kom í kosningabaráttunni og miðað við það sem forsetaframbjóðendurnir sögðu, þá er málskotsrétturinn virkur og mikilvægur og hann verður að vera það. Jafnvel þó að hann hafi aldrei verið notaður, þá er hann dýrmætt öryggisákvæði fyrir þjóðina, en þar með er ég ekki að segja að þessi tillaga sé óþörf, langt frá því. Ég styð hana heils hugar eins og ég hef reyndar oft áður gert þegar svipaðar tillögur hafa verið fluttar hér.

Ég vildi síðan, hæstv. forseti, vekja athygli á því að í umræðunni um Evrópusambandsmálið og þjóðaratkvæðagreiðsluna voru ræddir þeir möguleikar að framkvæmdarvaldið mundi vilja fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni þannig að hún færi fram ekki tafarlaust, heldur síðar þegar það hentaði betur í skoðanakönnunum eða öðru fyrir viðkomandi stjórnarflokka. Þetta var líka rætt og ég tel að niðurstaðan hafi orðið sú af hálfu núverandi forseta Íslands og af hálfu allra forsetaframbjóðendanna að þetta ætti að gerast tafarlaust. Reyndar er ég, herra forseti, þeirrar skoðunar að það megi hugleiða hvort breyting eins og hugsanleg aðild að bandalagi eins og Evrópusambandinu, sem felur í sér afsal sjálfsákvörðunarréttar á vissum sviðum, hvort það mál sé ekki þannig vaxið að Alþingi ætti, ef áhugi væri á slíku af hálfu ríkisstjórnar, að taka afstöðu til þess áður en farið er af stað í viðræður við þennan aðila. Það gæti bæði gerst þannig að samþykkt væri almenn stefnuyfirlýsing á Alþingi sem heimilaði að lagt yrði af stað í slíkar viðræður eða þá að samþykkt yrðu lög eða þá að samþykkt yrði stjórnarskrárbreyting. Það var nákvæmlega það sem gert var í Danmörku og sem gert var í Noregi, en sú breyting sem gerð var í Noregi náði hins vegar ekki eins langt og stuðningsmenn aðildar Noregs að Evrópusambandinu og EB áður vildu. Þess vegna varð að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla í tvö skipti þar eins og menn þekkja og sem endaði á þann veg sem menn þekkja til.

Ég held með öðrum orðum að þetta sé mjög mikilvægt atriði að halda til haga og ég ætla að draga það saman með því að segja: Ég tel að hvaða ríkisstjórn sem er, sem legði af stað í það verkefni að kanna hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og það er í dag, ætti að spyrja Alþingi áður en hún legði upp í vegferðina, hún ætti ekki að gera það út á almennar, opnar framkvæmdarvaldsheimildir. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sjónarmið liggi fyrir og ég vil draga það fram í umræðunni um þetta mál sem hv. þm. mælti fyrir.

Að öðru leyti tel ég ástæðu til að fagna því að þessi mál eru rædd. Ég vek athygli á því að það liggur fyrir frv. frá okkur alþýðubandalagsmönnum um breytingar á stjórnarskránni varðandi almenninga og rétt til eignar á þeim.

Svo er það að lokum þetta, hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar er talað um að breyta kosningalögunum. Og að breyta kosningalögunum þýðir venjulega stjórnarskrárbreytingu. Það að breyta kosningalögum og stjórnarskrárákvæðum um þau mál hefur alltaf verið reynt að gera fyrst að máli allra flokka en ekki bara stjórnarflokka. Og það er mjög sérkennilegt ef það er rétt, mér skilst að það sé fyrirspurn á dagskrá á morgun frá þingmanni, jafnvel þingmanni stjórnarflokks, ég veit það ekki, að það sé verið að spyrja um endurskoðun kosningalaganna. En að því er mér er best kunnugt hafa engin samtöl farið fram á milli flokkanna í þinginu um það hvernig væri hugsanlegt að breyta kosningalögunum. (Gripið fram í: Ekki síðan á síðasta kjörtímabili.) Ekki síðan á síðasta kjörtímabili. Og sú umræða lýsti ekki alltaf mikilli alvöru, verð ég að segja, vegna þess að menn fóru svo seint í hana. Ég hlýt því að draga það inn í þessa umræðu að ef ætlunin er að ræða um stjórnarskrárbreytingar á annað borð, þá væri það auðvitað fjarstæða að ætla sér að láta umræður um kosningalögin dingla lausar einhvers staðar í höndunum á forustumönnum stjórnarflokkanna einna. Ég veit ekkert hvað þeim dettur í hug. En svo mikið er víst að ég treysti þeim ekki til þess að vera með þetta einum. Ég vil að allir flokkarnir séu með svona mál. Þetta er svo stórt mál að að því eiga allir aðilar sem hér eiga fulltrúa að koma, a.m.k. í byrjun til að kanna það hvort um málið geti orðið einhver samstaða.