Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:56:57 (298)

1996-10-14 17:56:57# 121. lþ. 7.5 fundur 18. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðsla) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:56]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil í nokkrum orðum taka undir efni þessa frv. og þakka 1. flm. fyrir að hefja þessa umræðu svo snemma þings, ekki veitir af. En ég vil jafnframt minna á það að við kvennalistakonur höfum í gegnum árin flutt nokkrar tillögur sem ganga í svipaða átt. Þar hefur verið um að ræða tillögur sem bæði snerta sveitarstjórnarstigið, þ.e. rétt kjósenda í sveitarstjórnum til þess að krefjast almennra atkvæðagreiðslna um ýmis mál og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er rétt sem fram kom hjá síðasta ræðumanni að tillögur af þessu tagi hafa iðulega komið fram, en einhverra hluta vegna gengur afar erfiðlega að knýja fram breytingar. Það vekur þær spurningar hvernig eigi að standa að breytingum á stjórnarskránni og hvað eigi í rauninni heima í stjórnarskrám landa. Þær eru afskaplega mismunandi. Þær eru ýmist nokkuð ítarlegar eða mjög knappar eins og íslenska stjórnarskráin er. Og það er spurning um grundvallarstefnu hversu mikið á að tíunda í stjórnarskrá. En hún á auðvitað að tryggja ýmis grundvallarréttindi. Hún á að tryggja lýðræðið, hún á að tryggja þrískiptingu valdsins. Hér hefur stjórnarskráin líka verið notuð til þess að tryggja ákveðna kirkjuskipan, sem reyndar er farið að gagnrýna æ meir, og auðvitað er það hlutverk stjórnarskrár að tryggja mannréttindi. Það eru þessir þættir sem eiga þar heima en spurning er um kirkjuskipanina í landi sem jafnframt tryggir íbúum sínum trúfrelsi.

En vegna þess að þetta frv. er hér til umræðu þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að það væri í rauninni mjög margt sem þyrfti að endurskoða í stjórnarskránni. Þar er fyrst að nefna vald forseta og þá kannski ekki síst í ljósi þeirra miklu umræðna sem urðu fyrir síðustu forsetakosningar og hafa verið raktar hér. Þar eru atriði sem þarf að skoða. Og þó að ég vilji halda mjög fast í þingræðið og ábyrgð þingsins á því að setja lög, þá þarf ákveðinn hópur fólks, ákveðinn hluti kjósenda, hvar sem við drögum þau mörk, að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu því að þær aðstæður geta skapast á þingi að þingið sé farið að ganga þvert á vilja þjóðarinnar. Við þurfum ekki að fara langt í sögunni til þess að leita að stórhættulegum dæmum úr Evrópusögu um það þegar ýmis öfl ná völdum á þingum og knýja í gegn lagabreytingar og þjóðfélagsbreytingar áður en nokkur fær vörnum við komið.

Annað atriði sem mér finnst að þurfi að styrkja í stjórnarskránni eru skilin á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem að mínum dómi eru alls ekki nægilega skýr hér. Við höfum náttúrlega fjöldamörg dæmi um hvernig það blandast saman hér. Til dæmis má varpa fram spurningunni um það hvort að ráðherrar eigi að vera þingmenn. Mér finnst það líka spurning hvort ekki þurfi að styrkja sjálfstæði og stöðu dómsvaldsins. Ég vil varpa fram þeirri spurningu hverjir eigi að skipa dómara. Er það hlutverk framkvæmdarvaldsins? Í ýmsum stofnunum og reyndar ríkjum er það einmitt löggjafarvaldið sem skipar og velur eða kýs dómara.

[18:00]

Að mínum dómi þarf að ganga lengra í að tryggja ýmis mannréttindi þó að reyndar hafi verið stigið stórt skref í því vorið 1994. Ýmislegt fleira má nefna og ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar varðandi það að kalla þingið saman og að slíta því, þetta er í raun alveg furðulegt.

Enn eitt í því sambandi sem ég hef lengi hugleitt er að Alþingi skuli ekki þurfa að samþykkja skipan ráðherra. Það fara fram kosningar og það er myndaður einhver meiri hluti og sá meiri hluti velur ráðherra en Alþingi kemur þar hvergi nærri þó að þessir ráðherrar séu ábyrgir gagnvart Alþingi. Alþingi hefur valdið til þess að setja ráðherrana af og því er spurningin: Á Alþingi ekki líka að samþykkja skipan þeirra? Það er því ýmislegt að athuga en greinilegt er að óttinn við kosningar kemur iðulega í veg fyrir að menn samþykki stjórnarskrárbreytingar. Það má helst ekki samþykkja þær fyrr en í lok kjörtímabils þannig að hægt sé að bera þær undir kjósendur jafnhliða almennum kosningum. Þess eru þó dæmi úr sögu okkar að jafnvel tvennar kosningar hafi farið fram á sama sumri þegar menn voru fyrst og fremst að breyta kosningalöggjöfinni. Spurningin er hvort menn vilja fara út í minni háttar breytingar og kippa í liðinn ýmsu því sem augljóst er að þarf að lagfæra eða hvort fara á út í meiri endurskoðun á stjórnarskránni. Það er alveg greinilegt að ekki hefur verið vilji til þess. Það var greinilegt þegar síðast var farið í gegnum stjórnarskrána. Menn voru tilbúnir til þess að taka mannréttindaþáttinn í gegn í tilefni af afmæli íslenska lýðveldisins. Það er sem sagt spurning hvort menn geta sameinast um að gera einstakar breytingar eða hvort það á að fara í nánari endurskoðun. Vorið 1994 var rætt um að það þyrfti að fara út í frekari endurskoðun. Enn þá hefur ekki orðið af því að nein nefnd væri sett í það og ég í auglýsi eftir því hvort að menn eru tilbúnir til þess að fara út í meiri skoðun en jafnframt ítreka ég að við erum reiðubúnar til þess að styðja einstaka tillögur eins og þessa.