Þjóðsöngur Íslendinga

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 18:22:41 (303)

1996-10-14 18:22:41# 121. lþ. 7.11 fundur 35. mál: #A þjóðsöngur Íslendinga# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:22]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir það frumkvæði sem hún á að þessu máli. Ég er einn af flm. vegna þess að mér finnst þetta mjög athyglisvert og við eigum að taka upp umræðu af þessu tagi. Ég get tekið undir allt sem hún nefndi í sinni ræðu og þá ekki síst hvað íslenski þjóðsöngurinn er óhemjulega erfiður í flutningi. Ég hef sjálf lent í því að vera beðin um að syngja þjóðsönginn og hef sprungið á hæstu tónum. Þetta er þjóðsöngur sem venjulegt fólk getur ekki sungið, enda er hann yfirleitt útsettur fyrir kóra, margradda kóra þar sem jafnvel karl- og kvenraddir skiptast á. Þetta er hátíðarljóð sem samið var í þeim tilgangi og ég efast um að Sveinbjörn Sveinbjörnsson hafi nokkurn tíma látið sér detta í hug að þessi söngur yrði að þjóðsöng. Ég þekki reyndar ekki söguna nægilega vel til að átta mig á hvers vegna þessi hátíðarsálmur var gerður að þjóðsöng. Hvort það var fyrst og fremst það að hann var fluttur þegar við fengum stjórnarskrána 1874 eða hvað eiginlega olli þessu. Það er vissulega mikill galli á þjóðsöng að fólk geti ekki almennt sungið hann. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég kenndi í Kvennaskólanum um nokkurra ára bil var Ísland ögrum skorið alltaf sungið í enda athafnar þegar skólanum var sagt upp, útskrifaðir stúdentar og fleira slíkt og datt ekki nokkrum til hugar að reyna við Ó, Guð vors lands. Ég hygg að sú venja að syngja Ísland ögrum skorið sé margra áratuga gömul, jafnvel frá þeim tíma þegar það lag kom fram, sem var ef ég man rétt í kringum 1920. Ég þori ekki alveg að fara með ártalið en svo mikið er víst að það lag sló algerlega í gegn á sínum tíma, Ísland ögrum skorið, og er mjög mikið sungið þegar Íslendingar koma saman. Þess vegna mundi ég gjarnan vilja sjá það lag við hlið okkar gamla þjóðsöngs sem auðvitað á að syngja við ýmis mjög hátíðleg tækifæri. En það eru ýmis önnur lög og kvæði sem koma til greina eins og Land míns föður, Hver á sér fegra föðurland og lagið sem við sungum við messu þegar þingið var sett Yfir voru ættarlandi sem er líka ákaflega fagurt lag og fallegur texti og nefna má ýmis fleiri og margt kemur til greina fyrir utan þá hugmynd að efna til samkeppni sem gæti skilað árangri eins og Ísland ögrum skorið sem sló í gegn eins og ég nefndi áðan.

En vegna fyrirspurnar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um hvort fyrirkomulag af þessu tagi tíðkist þá er það svo í allmörgum löndum, einkum þar sem eru konungdæmi. Þar eru svokallaðir konungssöngvar og af einhverjum ástæðum hefur breski þjóðsöngurinn, God save the queen eða king eftir því hvort kynið situr þar á stóli, líka verið konungssöngur í Noregi þannig að þeir ganga milli landa. Þetta lag, Eldgamla Ísafold, var ákaflega vinsælt hér og mikið sungið. En í Bretlandi eiga þeir líka lög og texta eða tónverk, m.a. eftir breska tónskáldið Elgar, sem er geysilega mikið flutt við hátíðleg tækifæri og það má nefna Rule Britannia. Í Danmörku er bæði þjóðsöngurinn og lagið um Kong Christian sem var líka mjög þekkt hér á sínum tíma þannig að þetta er með ýmsu móti en eftir því sem ég þekki til tengist það nokkuð konungsfjölskyldum. Það er lofsöngur til konungdæmisins og síðan er einhver þjóðsöngur sem blessar ættjörðina.

Aðalatriðið er að þjóðsöng á að vera hægt að syngja og því vil ég taka undir efni þessarar tillögu og vonaðist til að hún fengi meiri og ítarlegri umræðu. Það er eiginlega synd að hún skuli vera svona seint á dagskrá því ég get ímyndað mér að þetta sé mál sem margir hafi skoðun á og vilji gjarnan velta fyrir sér en vonandi fær hún ítarlegri og skemmtilegri meðferð í allshn.