Þjóðsöngur Íslendinga

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 18:27:51 (304)

1996-10-14 18:27:51# 121. lþ. 7.11 fundur 35. mál: #A þjóðsöngur Íslendinga# þál., Flm. USt
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:27]

Flm. (Unnur Stefánsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í umræðum um þessa tillögu og get tekið undir flest af því sem þeir hafa sagt í sambandi við málið. Ég vil bæta við að umhverfi okkar hefur breyst svo gríðarlega á síðustu árum að það er orðið allt annað. Mín reynsla er sú að það er nánast eingöngu á landsleikjum sem ég heyri þjóðsönginn leikinn og ég lýsti áhrifunum sem hann vekur við slík tækifæri.

Þegar ég var krakki var þjóðsöngurinn alltaf leikinn í lok útvarpsdagskrár og svo síðar í sjónvarpsdagskránni. Mér er tjáð að þetta sé alveg niðurlagt þannig að þarna hefur líka orðið breyting. Og ég vil ítreka það að ég vil frekar að löggjafinn taki á þessu máli og breyti og komi með annan söng við hliðina á núverandi þjóðsöng heldur en að fólk fari að hætta að nota hann meira eða minna.