Höfundalög

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 13:36:01 (306)

1996-10-15 13:36:01# 121. lþ. 8.5 fundur 62. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73 1972, með áorðnum breytingum.

Með frv. þessu, sem samið er af endurskoðunarnefnd höfundalaga, er verið að samræma íslenska höfundalöggjöf tilskipunum Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar en í þeim tilskipunum er fjallað um reglur varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendinga um gervihnött og endurvarps um kapal, leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti, vernd og tíma höfundaréttar og að síðustu um vernd tölvuforrita.

Frv. þetta var fyrst lagt fram á vorþingi 1995 og aftur á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því það var lagt fram síðast, einkum með hliðsjón af nál. meiri hluta menntmn. Alþingis þegar frv. var til meðferðar á 120. löggjafarþingi. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. og athugasemdum við það frá því það var síðast lagt fram á Alþingi eru: Lagt er til að í 1. gr. verði heimilað án sérstaks leyfis forritshöfundar að skoða, rannsaka eða prófa forrit í því skyni að kanna virkni þess og þær hugmyndir og þau grundvallarsjónarmið sem einstakir þættir forritsins hvíla á. Í fyrri frumvarpstexta var þessi heimild nokkru þrengri.

Í athugasemdum við 1. gr. frv. er tekin af allur vafi um að einungis framsetning tölvuforrits er vernduð samkvæmt höfundalögum en ekki hugmyndir eða grundvallarforsendur sem liggja þar að baki. Er það einnig í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Í athugasemdum við 10. gr. frv. er tekið fram að greinin girði ekki fyrir að fleiri en ein sameiginleg innheimtusamtök framleiðenda og listflytjenda geti gert kröfu til endurgjalds samkvæmt greininni vegna opinbers flutnings hljóðrita og sé heimilt að setja gjaldskrá um þóknun vegna flutnings efnis af hljóðritum utan útvarps að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis.

Þegar frv. þetta var fyrst lagt fram var gerð ítarleg grein fyrir efni þess í framsöguræðu og tel ég ekki þörf á að endurtaka það hér.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni umræðunni.