1996-10-15 13:39:46# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari sem lögð var fram til kynningar á síðasta Alþingi er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. des. 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim.

Samningurinn sem gerður var í New York 4. ágúst 1995 hefur almennt verið nefndur úthafsveiðisamningurinn. Samningurinn liggur frammi til undirritunar í eitt ár frá og með 4. des. 1995 og var Ísland í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu hann þann dag. Alls hafa 47 ríki undirritað samninginn. Hann mun öðlast gildi 30 dögum eftir að 30 ríki hafa tilkynnt um fullgildingu hans. Þegar hafa þrjú ríki fullgilt samninginn, þar á meðal Bandaríkin, og líklegt er að fleiri ríki muni bætast í hópinn á næstunni, m.a. Noregur.

Samkvæmt frumvarpi til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sem hefur verið lagt fram á Alþingi, eru sköpuð skilyrði til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Yfirlýst markmið samningsins er að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Segja má að samningurinn byggist á eftirfarandi fimm meginþáttum:

Fyrsti meginþátturinn eru þær reglur sem verndun stofnanna og stjórnun veiða úr þeim skulu byggð á. Annars vegar er um að ræða hinar almennu reglur 5. gr. samningsins, en meðal þeirra er sú að verndunar- og stjórnunarráðstafanir skuli byggðar á bestu vísindalegu niðurstöðum sem tiltækar eru og hins vegar ákvæði um varúðarleiðina en þar er m.a. gert ráð fyrir að ríki skuli sýna sérstaka varúð þegar upplýsingar um viðkomandi stofn eru óvissar eða ónógar.

Annar meginþáttur úthafsveiðisamningsins og kjarni hans eru reglur III. hluta um samstarf ríkja. Þar er gert ráð fyrir að strandríki og úthafsveiðiríki starfi saman á vettvangi svæðisbundinna veiðistjórnarstofnana að verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim. Ef fyrir hendi er svæðisbundin stofnun, sem er bær til að ákveða verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna tiltekinna stofna, skulu ríki sem veiða úr stofnunum á úthafinu og viðkomandi strandríki uppfylla samstarfsskyldu sína með því að gerast aðilar að stofnuninni ef þau eru það ekki fyrir. Aðild að slíkri stofnun er opin öllum ríkjum á jafnræðisgrundvelli sem hafa raunverulega hagsmuni af viðkomandi fiskveiðum.

Ríki telst væntanlega hafa raunverulega hagsmuni af veiðum úr stofni ef það hefur stundað slíkar veiðar eða ef stofninn heldur sig að einhverju leyti innan efnahagslögsögu þess. Ef svæðisbundin veiðistjórnarstofnun er ekki fyrir hendi skulu viðkomandi strandríki og þau ríki, sem veiða úr viðkomandi stofni á úthafinu, í sameiningu koma henni á fót.

Innan svæðisstofnunar skulu ríki m.a. koma sér saman um verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna viðkomandi stofna, ákvarða leyfilegan heildarafla úr stofnunum, úthluta kvótum til einstakra ríkja, ákveða hver veiðisókn skuli vera, setja reglur um veiðar og veiðarfæri, taka saman og dreifa gögnum um veiðarnar, fylgjast með ástandi stofnanna og setja reglur um eftirlit með veiðunum.

Þriðji meginþátturinn, sem samningurinn byggist á, er ákvæði 7. gr. hans um að verndunar- og stjórnunarráðstafanir fyrir úthafið annars vegar og efnahagslögsögu ríkja hins vegar skuli vera samþýðanlegar. Sem dæmi um slíkar ráðstafanir má nefna ákvörðun um skiptingu leyfilegs heildarafla úr stofni á milli úthafssvæðis annars vegar og lögsögu ríkja hins vegar. Sérstaklega er tekið fram að við ákvörðun samþýðanlegra verndunar- og stjórnunarráðstafana skuli ríki taka tillit til þeirra ráðstafana sem strandríki hafa ákveðið og þau beita vegna sömu stofna innan lögsögu sinnar og tryggja að ráðstafanir, sem samþykktar eru vegna þessara stofna á úthafinu, grafi ekki undan áhrifum þessara ráðstafana. Hér er annars vegar tekið tillit til þess að fiskstofnarnir eru líffræðilegar heildir sem samræmd stjórn þarf að vera á og hins vegar þess að strandríki hafa samkvæmt hafréttarsamningnum óskoraðan fullveldisrétt yfir auðlindum í efnahagslögsögu sinni.

Meðal annarra atriða, sem taka skal tillit til við ákvörðun samþýðanlegra verndunar- og stjórnunarráðstafana, er dreifing viðkomandi stofns og veiðarnar úr honum, þ.e. í hve miklum mæli stofninn heldur sig og veitt er úr honum á úthafinu annars vegar og innan lögsögu ríkja hins vegar. Einnig má nefna að taka skal tillit til þess að hve miklu leyti strandríki og úthafsveiðiríki eru háð veiðum úr viðkomandi stofni hvor um sig.

Þó að úthafsveiðisamningurinn hafi þannig að geyma viðmiðunarreglur um skiptingu leyfilegs heildarafla úr stofni á milli úthafssvæðis annars vegar og lögsögu ríkja hins vegar inniheldur hann engar almennar viðmiðunarreglur um skiptingu kvóta milli einstakra ríkja. Hinum svæðisbundnu veiðistjórnarstofnunum er látið eftir að ákveða hvaða viðmið skuli lögð til grundvallar skiptingu kvóta milli aðildarríkja þeirra.

[13:45]

11. gr. samningsins felur þó í sér mikilvæga undantekningu frá þessu, en þar er kveðið á um ýmsar viðmiðunarreglur við ákvörðun veiðiréttinda nýrra aðildarríkja að svæðisstofnunum. Meðal þess sem taka skal tillit til er ástand viðkomandi stofna, veiðihagsmunir einstakra ríkja, framlög þeirra til verndunar og stjórnunar og til vísindarannsókna, þarfir strandbyggða sem byggja afkomu sína að mestu leyti á veiðum úr viðkomandi stofnum og síðast en ekki síst þarfir strandríkja ef efnahagur þeirra er í mjög miklum mæli háður fiskveiðum.

Þrátt fyrir að þessar viðmiðunarreglur eigi samkvæmt orðanna hljóðan aðeins við í þeim tilvikum þegar veiðiréttindi nýrra aðildarríkja að svæðisstofnunum eru ákvörðuð er ljóst að þær verða einnig hafðar til hliðsjónar í öðrum tilvikum, enda er um almennt viðurkennd viðmið að ræða sem ríki hafa lagt til grundvallar skiptingu kvóta sín á milli.

Fjórði meginþáttur úthafsveiðisamningsins eru ákvæði hans um eftirlit og framkvæmdarvald. Þeirri meginreglu þjóðaréttarins er fylgt að eftirlit með því að fiskiskip virði verndunar- og stjórnunarreglur á úthafinu og framfylgd þeirra sé fyrst og fremst í höndum fánaríkisins, þ.e. þess ríkis sem skipið er skráð í. Samningurinn leggur þá skyldu á herðar fánaríkinu að það stjórni veiðum skipa sinna á úthafinu með því að leyfisbinda þær og að það banni þeim skipum að stunda veiðar sem ekki hafa tilskilin leyfi.

Hins vegar er gert ráð fyrir því að öll aðildarríki samningsins sem eru aðilar að svæðisstofnun hafi rétt til að hafa eftirlit með fiskiskipum annarra aðildarríkja samningsins á því úthafssvæði sem stofnunin nær til og jafnframt til að fara með framkvæmdarvaldið gagnvart þeim, sinni fánaríkið ekki skyldu sinni í því efni. Þannig gæti t.d. strandríki gripið í taumana og stöðvað ólöglegar veiðar skips á úthafinu ef fánaríkið léti undir höfuð leggjast að gera það.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir að hafnríki fari með hefðbundið eftirlitsvald samkvæmt þjóðarétti og að þeim sé einnig heimilt að setja lög sem geri stjórnvöldum þeirra kleift að banna löndun á afla sem veiddur hefur verið í trássi við gildandi verndunar- og stjórnunarreglur.

Fimmti og síðasti meginþáttur samningsins eru ákvæði hans um friðsamlega lausn deilumála. Sú leið er farin að láta ákvæði hafréttarsamningsins um skyldubundna og bindandi lausn deilumála gilda um deilur milli aðildarríkja úthafsveiðisamningsins. Deilur þessar geta annars vegar snúist um túlkun eða beitingu samningsins sjálfs og hins vegar um túlkun eða beitingu svæðisbundins fiskveiðisamnings um deilistofna eða víðförula fiskstofna sem ríkin eru aðilar að. Hér undir falla m.a. deilur um verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim. Ljóst er að það er afar mikilvægt að ríkjum, sem ekki geta komið sér saman um ráðstafanir til verndunar tiltekins stofns og stjórnunar veiða úr honum, skuli opin sú leið að skjóta deilumáli sínu til alþjóðlegs dómstóls eða gerðardóms til bindandi úrlausnar.

Þegar þýðing úthafsveiðisamningsins er vegin og metin er rétt að hafa í huga það markmið hans að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Ljóst er að langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða eru í því fólgnir að þessu markmiði verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar úr þessum stofnum á úthafinu víðs vegar í heiminum. Engin ríki eiga þó meira undir því en ríki sem byggja afkomu sína að mjög miklu leyti á fiskveiðum eins og Ísland.

Sérstakir hagsmunir strandríkja af verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim eru viðurkenndir með ýmsum hætti í samningnum. Jafnframt er þar viðurkennd sérstaða strandríkja á borð við Ísland sem eru í mjög miklum mæli háð fiskveiðum.

Ljóst er að úthafsveiðisamningurinn getur haft mikla þýðingu bæði almennt séð og fyrir Ísland. Hitt er jafnljóst að hann mun ekki leysa sjálfkrafa hinar ýmsu deilur um veiðar á úthafinu sem sprottið hafa á undanförnum árum víðs vegar í heiminum, þar með taldar þær deilur sem Ísland er aðili að. Þar reynir fyrst og fremst á pólitískan vilja þeirra ríkja sem í hlut eiga hverju sinni. Samningurinn mun hins vegar mynda ramma um og þrýsta á um samstarf ríkja á vettvangi svæðisbundinna veiðistjórnarstofnana og þannig stuðla að lausn hinna ýmsu deilumála.

Þó að úthafsveiðisamningurinn hafi ekki enn öðlast gildi er áhrifa hans farið að gæta í starfi ýmissa svæðisstofnana, m.a. Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, og Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, þar sem fram hafa komið tillögur um að taka upp einstakar reglur samningsins og útfæra þær nánar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.