1996-10-15 14:36:42# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að reyna að afla þessara upplýsinga. Það er alveg ljóst að mínu mati að það eru ekki nægilegar heimildir í íslenskum lögum til þess að við getum stjórnað veiðum á úthafinu. Það þarf a.m.k. að liggja fyrir samningur um viðkomandi stofn og við viðkomandi ríki til þess að við getum gripið þar inn í. Það má t.d. segja að því er varðar síldveiðarnar úti á hinu alþjóðlega hafsvæði að við gátum ekki gripið þar inn í nema búið væri að ganga frá samningi við Færeyinga á sínum tíma, sem við gerðum, og við getum ekki gripið inn í veiðar íslenskra skipa á Flæmska hattinum miðað við núverandi stöðu mála. Það er því ljóst að þarna eru ekki nægilegar heimildir. Hins vegar voru áður fullar heimildir í íslenskum lögum, en fyrir nokkrum árum var þessum lögum breytt af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér þannig að til þess að við getum fullgilt þessi ákvæði þá þurfa þessar heimildir að koma til.

Mér er nær að halda að mörg önnur ríki í nágrenni okkar hafi þegar nauðsynlegar heimildir í þessu sambandi, t.d. Norðmenn og jafnframt Kanadamenn. Ég held að Færeyingar hafi þær líka en það er sjálfsagt að afla þessara upplýsinga eftir því sem nokkur kostur er, m.a. um þau ríki sem þarna eiga hlut að máli, en því verður vart trúað að nokkur ríki gangi frá fullgildingu nema þau viti að þau geti staðið undir þessum skuldbindingum sem þau takast á hendur með undirritun samningsins og fullgildingu hans.