Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:56:13 (321)

1996-10-15 14:56:13# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Við getum ábyggilega orðið sammála um að leggja á hófsama skatta. Ég vona að við getum líka orðið sammála um að leggja ekki á meiri skatta en sá sem á að borga geti borgað. Í grg. með tillögunni er rakið í löngu máli hvernig eigi að bregðast við þegar veiðileyfagjaldið er orðið hærra en atvinnugreinin þolir og rakin áhrifin af gengisfellingunni. Það er fjarri því að ég hafi farið með rangt mál í þeim efnum heldur hef ég þvert á móti byggt mál mitt á því sem fram kemur í grg. frv. og kom fram í framsöguræðu.

Ég vil segja um leiguframsalið að það er höfuðmeinsemdin sem við búum við í dag. Það er líka meinsemd gagnvart hagræðingarkröfunni því að leiguframsalið kemur í veg fyrir hagræðingu í sjávarútvegi. Það gefur óhagkvæmum útgerðareiningum möguleika á að lifa ár eftir ár með því að leigja heimildir sínar og draga saman útgerðarkostnaðinn sem ella væri ekki mögulegt ef einungis væri miðað við að menn mættu selja varanlegar veiðiheimildir eins og var fyrir 1990.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, af því að hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi að stundum gæti staða sjávarútvegs leitt til erfiðrar stöðu annarra útflutningsgreina. Það eru þekkt dæmi um það og við skulum ekkert andmæla því. En það er svo aftur hans trú að veiðileyfagjaldið leysi það vandamál.

Ég vil vitna í formann samtaka iðnaðarins sem mun hafa hvað mest barist fyrir að taka upp veiðileyfagjald og hvað segir hann, með leyfi forseta?

,,Samkeppnisstaðan er að mestu leyti í lagi um þessar mundir, en hún er þó ekki allt. Iðnaðurinn mótmælir hækkun tryggingagjalds og iðnaðurinn mótmælir mismunandi gjaldi eftir atvinnugreinum.``