Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:09:33 (324)

1996-10-15 15:09:33# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:09]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek leiðréttingu þingmannsins fyrst og fremst sem nokkuð sem getur verið hártogun á skilgreiningu einfaldlega vegna þess að stundum kallar þingmaðurinn þessa hluti skatta og stundum kallar hann þá veiðileyfi og fer ýmist eftir því hvernig liggur á honum og eftir því hvernig hann þarf að beita sér í umræðunni. Ég veit að þingmanninum var fullkomlega ljóst að mér er kunnugt um þessi gjöld og okkur öllum sem erum hér inni þannig að ég kýs að líta svo á að þarna sé um ákveðna hártogun að ræða.

Hvað varðar spurninguna um réttlæti þess að menn leigi frá sér veiðiheimildir ár eftir ár án þess að veiða þær verð ég að segja hv. þm. að það finnst mér vera fyrir neðan allar hellur og það hefur margoft komið fram í máli mínu. Við verðum að horfa til þess í fiskveiðistjórnunarkerfi okkar að það hafi ákveðinn sveigjanleika og það þjóni þeim hagsmunum okkar að það sé rekið eins vel eins og mögulegt er. Það ríður á fyrir okkur vegna þeirra hagsmuna sem við höfum af því að auðlindin sé nýtt vel og eðlilega. Það gengur ekki að nýting auðlindarinnar og sá sveigjanleiki gangi freklega á kostnað réttlætiskenndar almennings. Því verður að breyta.