Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:31:15 (329)

1996-10-15 15:31:15# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. á að flokkur hans, Sjálfstfl., hefur alltaf gert grundvallarmun á sköttum og gjöldum hvort heldur það eru þjónustugjöld eða önnur gjöld fyrir hvers konar afnot. Við bendum á hvaða leiðir okkar þingflokkur telur helst færar í þessari tillögu sem hér er sett fram. Við erum ekki með þær leiðir sem beina tillögu í tillögugreininni. Það er mjög mikilvægt að fá stuðning við að leggja á veiðileyfagjald og ég vil benda hv. þm. á hvernig við leggjum til samsetningu þeirrar nefndar sem ætti að undirbúa löggjöf um þetta efni þar sem koma eiga að fulltrúar frá öllum þingflokkum, helstu samtökum útgerða, sjómanna, fiskvinnslu og annarra aðila atvinnulífsins og yrði þá væntanlega metið hvort og þá að hvaða leyti ætti jafnframt að skoða hvernig fiskveiðistjórnunin lægi gagnvart þessu máli.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, virðulegi forseti, að ef ekki er hægt að fá stuðning við tillögu með þessum opna hætti þar sem markmiðið er skýrt og verið að leggja til að sem flestir komi að málinu og séu með í að móta hvernig það næst fram, þá mundum við aldrei fá stuðning í þessum sal ef við værum búin að koma með fullformaða útfærslu sem væri stefna okkar jafnaðarmanna. Það er með þessum hætti sem er möguleiki á að vekja þingmenn af þyrnirósarsvefni um það að hér sé ekki hægt að greiða nokkurt gjald á meðan við sýnum fram á með tölum hvaða fjármunir eru á ferð á milli vasa í þessari mikilvægu grein okkar.