Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:35:07 (331)

1996-10-15 15:35:07# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:35]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða um mál sem hefur verið mikið til umfjöllunar í þjóðfélaginu í fjölda ára og með meiri þunga hin síðari missiri. Oft er talað um veiðileyfagjald á ómarkvissan hátt og hugmyndir um fyrirkomulag gjaldtökunnar eða þá fjármuni sem yrðu greiddir í sameiginlega sjóði okkar með tilkomu gjaldsins eru margar hverjar mjög óljósar og þokukenndar.

Ég leyfi mér t.d. að efast um að veiðileyfagjald eitt og sér sé einhver allsherjarlausn á fjárhagslegum vanda þjóðarinnar og landsmenn geti hætt að greiða skatta ef gjaldið verður lagt á eins og margir hafa viljað láta í veðri vaka. Ég tel hins vegar að fyrirkomulagið á nýtingu auðlindarinnar særi mjög réttlætiskennd margra. Sú staðreynd að tiltekinn hluti þjóðarinnar fékk afnotaréttinn afhentan án endurgjalds og getur flutt þann rétt sín á milli og þegið fyrir það stórfé særir réttlætiskennd fólks.

Þrátt fyrir að ýmsir andstæðingar hugmyndarinnar um veiðileyfagjald finni henni ýmislegt til foráttu er um mjög knýjandi mál að ræða sem við munum þurfa að taka til alvarlegrar umræðu fyrr eða síðar. Ég undrast mjög að heyra ekki skoðanir hæstv. forsrh. í dag eða sjútvrh. Ráðherrastólarnir eru tómir en þessir sömu ágætu hæstv. ráðherrar höfðu heldur betur skoðanir á þessari tillögu sem er til umræðu á nýafstöðnum landsfundi sínum. Þeir virðast hins vegar ekki sjá ástæðu til að lýsa sínum sjónarmiðum í þingsölum og taka þátt í umræðunni og það kemur mér hreinlega mjög undarlega fyrir sjónir miðað við þær stóru yfirlýsingar sem gefnar voru á landsfundi Sjálfstfl. nýverið.

Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem noti sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar eigi að greiða fyrir þau afnot í sameiginlegan sjóð landsmanna. Ég get því tekið undir grundvallarsjónarmiðið sem býr að baki hugmyndum um veiðileyfagjald. Slík gjaldtaka er í samræmi við það háleita sjónarmið, sem kemur fram í lögunum um stjórn fiskveiða, að auðlindirnar skulu vera sameign þjóðarinnar.

Tillagan sem er til umfjöllunar snýst um þetta grundvallaratriði en leggur jafnframt til að skoðuð verði áhrif á fjárhagslega stöðu sjávarútvegs, hagvöxt, fiskveiðistjórnunina, byggðaþróun, samkeppnisstöðu atvinnuvega svo dæmi séu nefnd. Mjög mikilvægt er að skoða gjaldtöku af þessu tagi í tengslum við alla slíka þætti og í raun sýnist mér felast í þessu að um heildarendurskoðun á fyrirkomulaginu öllu geti verið að ræða og sé að ræða. Slík endurskoðun er nauðsynleg, tel ég, samhliða því að veiðileyfagjald yrði lagt á og mikilvægt að taka tillit til allra slíkra þátta í þeirri endurskoðun, ekki síst fiskveiðistjórnunarinnar.

Þá er ekki síður aðkallandi að tekið sé fyrir leigubraskið sem tíðkast víða með kvótann og bitnar á þeim er síst skyldi en slík viðskipti samræmast vart hugmyndinni um þjóðareign á auðlindinni eins og bent hefur verið á og Alþb. hefur m.a. lagt áherslu á í sínum málflutningi.

Ég vil vekja athygli á því sem kemur fram í seinni hluta tillögunnar og hefur týnst svolítið í þessari umræðu, þ.e. að auðlindagjald skuli lagt á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku. Slíkar auðlindir eiga líka að vera sameign þjóðarinnar ekki síður en auðlindir hafsins og geta falið í sér mikil verðmæti.

Að lokum, herra forseti, vil ég hvetja til alvarlegrar og málefnalegrar umræðu um þetta mál. Það er í mínum huga réttlætismál fyrst og fremst þótt fjárhagslegur ávinningur fyrir ríkissjóð skipti líka máli enda er það kannski líka spurning um réttlæti hverjir greiði þangað, fyrir hvað og hversu mikið.