Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:51:19 (335)

1996-10-15 15:51:19# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:51]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja ræðuna aftur sem ég flutti áðan. Það er bent á að hægt er þegar fram líða stundir að leggja niður tekjuskatt einstaklinga upp á 17 milljarða. Það er sagt í tillögunni, og ég marglas það upp, að það byggist á því að það er kominn fiskveiðiarður upp á 15--30 milljarða. Við skulum beita mjög einfaldri aðferð: Það er kominn hagnaður í greinina upp á 30 milljarða, drögum frá 17 milljarða, sem er tekjuskatturinn. Við leggjum á veiðileyfagjald til að lækka tekjuskattinn, og þá eru eftir 13 milljarðar í greininni. Það hefur alltaf verið talað um það, herra forseti, í allri umræðunni að við erum að draga hluta af arði sem er að myndast í greininni út úr henni. Það er það sem við erum að tala um. Ekki er verið að skattleggja íslenskan sjávarútveg, síst af öllu í núverandi stöðu. Það er verið að benda á að á næstu árum er hér að myndast hagnaður. Allt bendir til þess að við náum góðum tökum á þessu og bent hefur verið á t.d. varðandi þorskstofninn að þegar hann byggist smátt og smátt upp í 300 þúsund tonn, sem tekur nokkurn tíma, geti hagnaður í íslenskum sjávarútvegi aukist um 10 milljarða og þorskurinn er bara hluti af okkar hagkerfi. Menn verða að átta sig á því, herra forseti, hvílíkar tölur hér er verið að tala um. En allt þetta byggist á því þegar við erum að tala um að lækka tekjuskatt einstaklinga í framtíðinni að þessi hagnaður hefur þá myndast í greininni. Þannig að ekki er verið að taka frá núverandi stöðu eða núverandi aðstæðum í sjávarútvegi heldur þvert á móti. Það er verið að skapa skilyrði til að þessi arður og hagnaður megi myndast. Þá er arðurinn með þessari tillögugerð að hluta til dreginn út úr greininni á sanngjarnan hátt til hagsbóta fyrir almenning.