Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:09:01 (342)

1996-10-15 16:09:01# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:09]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Til umræðu er þáltill. um veiðileyfagjald. Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni nú sem fyrr. Ég leyfi mér að gagnrýna framsetningu þáltill. þar sem segir, með leyfi forseta, í 1. mgr.: ,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi.`` Þessu er slegið fram. Síðan í framhaldinu er lagt til að skipuð verði nefnd til að kanna málið frekar. Mér finnst þetta rekast dálítið á eins og hefur komið fram í umræðum hv. framsögumanna tillögunnar sem hafa komið upp og vitna gjarnan í skildagatíð til framtíðar: ,,ef arður verður af fiskvinnslu og sjávarútvegi þá megi`` o.s.frv. Mér finnst tillagan um of einmitt einkennast af skildagatíð framtíðar eins og kennd var í skólum hér áður fyrr.

Ég gagnrýni það líka í málflutningi framsögumanna að vilja einangra umræðu um veiðileyfagjald og halda henni utan við umræðu um fiskveiðistjórnun sem og að halda umræðu um stöðu fiskvinnslunnar utan við þessa umræðu. Ég tel að útilokað sé að ræða um jafnmikilvægt mál sem veiðileyfagjald í sjávarútvegi án þess að taka greinina í heild til umræðu, útgerð, veiðar og vinnslu.

En hver er svo hugsunin að baki veiðileyfagjalds. Forsendan er vitaskuld sú að auðlindin er sameign þjóðarinnar. Um það er ekki deilt. Um það er þverpólitísk samstaða. Í framhaldi af því er eðlilegt að gerð sé sú krafa að þjóðin sem eigandi auðlindarinnar fái sem mestan arð í samneysluna af þessari auðlind. Hugsunin er góð. Um hana eru allir sammála. En þá er eðlilegt að spyrja: Gengur sú hugsun upp sem fram er sett til lausnar í þáltill. þeirri sem hér er til umræðu? Ég tel það vera galla á tillögunni að hún er óútfærð. Hún er, eins og hv. þm. sagði í ræðu, eins og merkimiðar þar sem bent er á ýmsa möguleika og jafnvel gefið í skyn að í fyllingu tímans megi afnema tekjuskattinn. Ég tel það vera einföldun. Ef litið er til fyrirtækja í sjávarútvegi um þessar mundir þá hygg ég að þeir sem í þeim rekstri standa sjái ekki fram á að sú grein geti staðið undir greiðslum á 17 milljörðum, hvað þá 30 milljörðum.

Hér hefur komið fram að fiskvinnslan eða sjávarútvegurinn í heild á við kreppu að stríða. Það kemur jafnframt gjarnan fram hjá dyggustu fylgjendum veiðileyfagjalds að ríkissjóður hafi litlar sem engar tekjur af þessari grein. Sjávarútvegurinn er vitaskuld skattlagður og sjávarútvegur færir ríkissjóði árlega tugi milljarða í beinar og óbeinar tekjur, af öllu því fólki sem þar starfar, hvort heldur er í landi eða á sjó, eða með beinum sköttum, í þróunarsjóðinn, sem nemur á fjórða milljarð kr. Sjávarútvegurinn með öðrum orðum leggur þegar til tugi milljarða í ríkissjóð. Þá kemur spurningin: Ræður greinin við viðbótarálögur í dag? Þá hljótum við að spyrja: Hver er staða greinarinnar? Það hefur ítrekað komið fram að greinin sem heild hefur verið rekin með tapi á síðustu árum. Það eru margar ástæður fyrir því, svo sem verðfall og sveiflur á mörkuðum, minnkandi fiskstofnar og samdráttur. Það er jafnframt má segja óbein skattlagning á fyrirtækin í fiskvinnslu sem hafa þurft að leggja í miklar breytingar vegna kröfu frá EES og þannig má áfram telja. Í það heila tekið má segja að greinin hangi á horriminni, jafnvel undir henni og ég óttast að verði veiðileyfagjald rétt sisvona sett á greinina að óbreyttu þá muni það ganga af henni dauðri. Það muni hrekja mörg fyrirtæki í útgerð og vinnslu í gjaldþrot. Þá má spyrja: Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Hvað verður um þau störf sem þar með hverfa? Hvað verður um þær byggðir sem verða fyrir því? Þessu hljótum við að þurfa að svara.

En við skulum aðeins staldra við. Það er ekki víst að öll fyrirtæki lendi í gjaldþroti. Ég hygg nefnilega að með því að setja á þessar álögur, veiðileyfagjald, að óbreyttu á sjávarútveginn, muni leiða til þess að þeir sem eru skást staddir nú --- og til allrar hamingju eru til fyrirtæki sem eru sæmilega stæð, það eru risarnir --- muni gildna og eftir standi 12--15 fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi.

Við verðum að svara þeirri spurningu ásamt öðrum hvort við viljum það. Ég tel að tillagan sé ekki tímabær. Ég tel að það sé byrjað á röngum enda og flutningsmenn og reyndar Alþingi, þurfi að starfa að því í vetur að vinna það sem má kalla heimavinnu vegna sjávarútvegs, að það þurfi að svara mörgum mikilvægum pólitískum spurningum áður en jafnstór pólitísk ákvörðun er tekin og sú að leggja þegar í stað á veiðileyfagjald.

Ég vil nefna nokkrar af þessum pólitísku spurningum. Á allur afli að fara á markað eins og hér hefur verið kynnt úr ræðustól? Þeirri spurningu þarf að svara áður en við leggjum á veiðileyfagjald eða tökum ákvörðun um það. Þarf ekki að gefa vinnslunni færi á að laga sig að nýju umhverfi, m.a. vegna krafna frá EES? Þarf ekki að laga kaupgetu þess fólks sem starfar í fiskvinnslu? Rétt er að minna á að aðrar greinar taka gjarnan mið af láglaunafólki í fiskvinnslu við ákvörðun á kauptöxtum sínum. Mun fiskvinnslan geta keppt við aðrar greinar í launum ef viðbótarálögur eru lagðar strax á greinina? Þurfum við ekki að lagfæra þann augljósa galla sem er á kvótakerfinu? Þegar ég nefni augljósan galla þá vitna ég til leiguliðafyrirkomulagsins sem ég hygg að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé sammála um að þurfi að taka á og verði að taka á vegna þess að það felur í sér óréttlæti og það styrkir þá stóru á kostnað hinna minni. Við þurfum líka að gefa greininni sem heild kost á að vinna sig út úr því tapi sem hún hefur verið í á síðustu árum og við þurfum líka að svara þeirri pólitísku spurningu hvort við viljum horfa á vinnsluna hverfa út á sjó og úr landi. Það eru þessar spurningar, herra forseti, sem ég tel að þurfi að svara ásamt auðvitað öðru. Að skapa greininni það rekstrarumhverfi sem er eðlilegt þannig að hún geti blómstrað og þá í fyllingu tímans vonandi skilað 30 millj. kr. hagnaði. Þá fyrst er tímabært að taka upp umræðu um veiðileyfagjald og hver veit nema meiri hluti yrði fyrir því. En tillagan er að mínu mati ótímabær, heimavinnan er óunnin.