Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:27:55 (345)

1996-10-15 16:27:55# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:27]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu síðasta hv. þm., Magnúsar Stefánssonar, minntist hann á sægreifana svonefndu og er ástæða til að taka undir það sem fram kom í ræðu hans um að í umræðu um sjávarútvegsmál er of mikið af alhæfingum og stimplun á einstaklingum sem stunda þessa grein sem spilltum sægreifum yfir höfuð og hefur það að sjálfsögðu dregið úr virðingu fyrir þessari stétt. Að sjálfsögðu er verið að ræða um einstök tilvik um hina nýríku sem gera út á kerfið og verða sér út um tugi milljóna eins og dæmi eru um. Það svíður, það særir réttlætiskennd fólks og hins vegar þar sem verr stæð fyrirtæki leigja af betur stæðum og fara fram hjá skiptakerfi sjómanna o.s.frv. En hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi ágætt dæmi um að í rauninni væri veiðileyfagjald á sjávarútvegi í dag og tók dæmi um 2--3 kr. á kg af útgerð sem hann hefði skoðað sérstaklega. Nú er ætlunin að bæta ofan á þetta. Eins og yfirleitt þegar verið er að ræða um skattlagningu, því veiðileyfagjald er ekkert annað en skattlagning, á sú skattlagning að verða mildileg í upphafi. Það er rétt að benda á það að á innan við tíu árum hefur staðgreiðsla skatta aukist í rauninni um 20%. En mér eldri og reyndari þingmenn muna ugglaust eftir þeim fögru orðum og fögru fyrirheitum sem voru þá höfð uppi úr þessum stól um að þetta yrði aldrei hækkað verulega. Það var m.a. notað sem rök fyrir staðgreiðslu. Hið sama mun gerast í veiðileyfagjaldi. Eins og staðan er núna mundi það ganga af yfirgnæfandi meiri hluta þeirra fyrirtækja sem eru í þessari grein dauðum. Hitt er annað mál að í fyllingu tímans eins og áður hefur verið rætt mætti skoða þetta þegar heimavinnan hefur verið unnin.