Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:49:29 (351)

1996-10-15 16:49:29# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:49]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það furðar mig mjög þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsir því yfir að heill landsfundur hafi verið tekinn á taugum út af veiðileyfagjaldi þeirra þingmanna í jafnaðarmannaflokknum. Mér finnst það dálítið merkilegt að það eigi að vera hægt að taka menn á taugum út af þessari tillögu því að eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu er búið að vera á veiðileyfagjald í mörg ár þannig að þetta er ekki nein ný umræða og alls ekki ný tillaga heldur hefur hún verið samþykkt innan sala Alþingis og hefur verið framkvæmd af framkvæmdarvaldinu í fleiri ár. Eins og hefur komið fram hjá sumum þingmönnum, þá eru lögð á veiðileyfagjöld sem heita annars vegar veiðieftirlitsgjald og hins vegar þróunarsjóðsgjald. Þetta gjald er í dag 135.900 kr. á 100 þorskígildistonn. Þetta er það gjald sem menn greiða í dag fyrir að fá að fara á sjó. Þeir þurfa að leysa út aflaheimildir sínar sem koma í póstkröfu, í tilkynningu, og þar með hafa þeir fengið heimild til þess að fara á sjó. Þessi umræða að það þurfi sérstök lög til þess að leggja á veiðieyfagjald er því í rauninni kórvilla.

Ég styð veiðileyfagjald eins og það er útfært í dag. Ég er alls ekki á móti því að útgerðin borgi einhvern hluta af þeim kostnaði sem fellur til vegna hennar ekkert síður en ég hef stutt það að fiskvinnslufyrirtæki borgi holræsagjöld. Þau borga vatnsskatt, fasteignagjöld. Þau borguðu áður fyrr aðstöðugjöld mun hærri heldur en útgerðin. Það hafa því verið lagðir á slíkir skattar óháð afkomu í gegnum áratugina þannig að það er ekkert nýtt við þetta og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við þá hugsun sem kemur fram í þessu frv. hv. þm., en ég minni enn á það að sá hugsunarháttur er löngu inni í okkar stjórnkerfi þannig að að halda því fram, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að það væri verið að taka heilan flokk á taugum er náttúrlega mjög mikið sagt og í rauninni óskhyggja þingmannsins og alveg út í bláinn.

Ég held að þeir hv. flutningsmenn, sem leggja fram þetta frv., séu einfaldlega að reyna að yfirbjóða í skjóli mikillar óánægju með framsalsaðferðir útgerðarmanna eins og þær hafa litið út á undanförnum mánuðum og hefur í raun fallið í mjög grýttan jarðveg hjá þjóðinni. Að vera að höggva í þann knérunn með slíkri tillögu finnst mér alger óþarfi og ég vil einfaldlega benda mönnum á hvað skiptir langmestu máli í þessu öllu. Það sem hefur gerst með framsalinu hefur skapað þann óróleika meðal þjóðarinnar sem við erum núna að glíma við. Framsalið hefur orðið til þess að aflaheimildir hafa flust óvenjumikið milli landshluta, á milli kjördæma, sem hefur þýtt það að sjómenn á svæðum sem hafa verið mjög háð því að geta keypt til sín aflaheimildir hafa þurft að taka á sig hluta kostnaðarins svo að þeir hefðu heimildir til þess að fara á sjó. Samkvæmt tölum sem ég hef fengið frá Fiskistofu, þá hafa aflaheimildir gengið á milli kjördæma sem hér segir á árunum 1995 og 1996: Reyknesingar hafa keypt 9.858 þorskígildistonn til sín umfram það sem þeir hafa selt frá sér. Á síðasta fiskveiðiári keyptu þeir 16.817 þorskígildistonn umfram það sem þeir seldu frá sér. Ef við mundum reyna að gera þetta að peningum, þá gæti þetta þýtt að Reyknesingar hefðu keypt til sín þorskígildistonn fyrir yfir milljarð á sl. ári. Það er það gjald sem þeir hafa þurft að greiða fyrir að komast á sjó sumir hverjir þó að það sé að sjálfsögðu misjafnt milli útgerða hvað þetta hefur verið notað til þess að komast yfir þorskheimildir eða heimildir til veiða.

Í öðrum kjördæmum hefur þetta verið mun minna. Í Reykjavík voru t.d. einungis keypt 16 tonn umfram það sem selt var. Á Vesturlandi voru keypt 5.748 tonn á sl. ári en Vestfirðingar seldu aftur á móti frá sér 8.870 tonn umfram það sem þeir keyptu. Norðurland vestra seldi frá sér 8.437 tonn og Norðurland eystra 10.464 tonn. Það eru þessar gríðarlegu tilfærslur sem hafa komið sjómönnum í opna skjöldu og hafa gert þá og þjóðin mjög tortryggna út í kvótakerfið svokallaða eða aflastýringarkerfið sem að mínu viti hefur reynst mjög farsælt fyrir útgerðina og þá þróunarmöguleika sem útgerðin þarf að hafa til þess að geta stýrt rekstri sínum inn á hagkvæmustu leiðirnar. Þar er framsalið í rauninni dínamíkin í hagkvæmninni og ef við neyðumst til þess að taka af framsalið, þá erum við búin að taka mestu dínamíkina frá útgerðinni. Þess vegna er það grundvallaratriði í þessari umræðu allri hvernig við komumst fyrir það að sjómenn séu með einum eða öðrum hætti neyddir til þess að kaupa aflaheimildir með útgerðunum. Það er sú kórvilla sem hefur slæðst inn í þennan feril og er nauðsynlegt að leiðrétta.

Hvernig við gerum það er ekki endilega mjög ljóst. Aftur á móti hafa menn bent á ýmsar leiðir og ég er einn af þeim sem hafa talið að það að setja sem mest af afla á markað sé ein leiðin til þess að sjá hve gegnsætt verðið er.

Aðrar leiðir eru að sjálfsögðu mögulegar, eins og komið hefur fram í þáltill. frá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og Guðmundi Hallvarðssyni um að banna hreinlega allt framsal. Ég ætla að geyma mér umræðu um það, en ég held að það sé samt mjög erfitt að banna framsal ef við ætlum alla vega að leyfa útgerðinni að hafa þá dínamík sem hún hefur og þarf að hafa.

Það eru í mínum huga til ýmsar aðrar leiðir sem nauðsynlegt er að skoða til þess að jafna óróa landsmanna með það kerfi sem við höfum. Ég tel að ein leið séu ýmsir hvatapottar sem ég taldi alla tíð að svokallaður línutvöföldunarpottur hefði verið. Að afnema þann pott var afskaplega vanhugsuð aðgerð og að mínu viti komust útgerðarmenn þar í nokkuð feitt að mér sýndist og höguðu sér að mörgu leyti eins og minkar í hænsnabúi þegar þeir komust yfir þann kvóta og seldu hann út og suður. Það var slæm aðgerð, en eigi að síður er hægt að leiðrétta slíkt og það er hægt að finna leiðir til þess að sætta þjóðina við þetta kerfi og það er nauðsynlegt.