Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:03:33 (355)

1996-10-15 17:03:33# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Veiðileyfagjaldið í dag, hv. þm., er 139 kr. á hvert þorskígildistonn svo að ég leiðrétti nú sjálfan mig, ég held að ég hafi sagt 134 kr. áðan, á þorskígildistonn. Að sjómenn séu að greiða 1 milljarð í veiðileyfagjald á Reykjanesi er ekki alveg svo, en eigi að síður er keypt þetta mikið magn til Reykjaness umfram það sem er selt þaðan. Það er ekki þar með sagt að sjómenn borgi það allt saman, en því miður eru þeir látnir borga allt of stóran hluta af því þó að það hafi ekki verið reiknað út nákvæmlega.

En ef við mundum fara ykkar leið og leggja 13 milljarða á sjómannastéttina og útgerðina þá yrði þetta væntanlega 13 sinnum meira heldur en nú er, ef við ættum að fara að leggja saman einhverjar tölur. Þannig að ég held að röksemdafærslan sé engan veginn í samræmi við hugmyndirnar í rauninni. Ég hef þá trú að jafnaðarmenn telji sig vera að gera gott með þessu og ætli sér að reyna að leiðrétta einhverja óánægju og við skulum segja aðferðir sem ekki hafa fallið í góðan jarðveg hjá þjóðinni, en þeir eru bara því miður ekkert að því. Þessar hugmyndir passa ekki og eru einungis íþyngjandi fyrir það fólk sem þeir telja sig vera að leiðrétta kjörin hjá. Hversu oft sem hann vill meina það að við landsfundarfulltrúar hjá Sjálfstfl. höfum dansað í kringum formanninn okkar í þessu máli, þá get ég alveg sagt það hér að ég er fyllilega sammála formanninum í hans málflutningi.