Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:09:32 (358)

1996-10-15 17:09:32# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:09]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að út af fyrir sig hafi farið hérna fram mjög gagnleg umræða og málin hafi skýrst nokkuð og ég tel að að sumu leyti megi segja, svona til að gæta sanngirni að öllu leyti, að flutningsmenn hafi gert þinginu þó nokkurn greiða að draga málið inn í þingið þó svo að um það séu talsvert skiptar skoðanir.

Gallinn við málið er að sumu leyti sá að það er ekki nægilega skýrt. Það er mjög sérkennilegt í raun og veru að flytja till. til þál. um eitthvað, en gera svo ráð fyrir því að nefnd geri tillögu um útfærslu á því. Ég hefði heldur viljað sjá að hv. flm. hefðu gert tillögu í frv. um veiðileyfagjald þannig að það hefði verið hægt að ræða um málið efnislega skýrar en kostur er á samkvæmt þessari tillögu. Vandinn við tillöguna er sem sagt sá að hún er loðin og mjög almenn og óljós á köflum og það er galli. Þess vegna held ég að það sé í raun og veru ekki hægt að segja eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé eitthvert stærsta málið á þjóðmálavettvangi um þessar mundir. Það er þessi tillaga ekki eins og hún er heldur tel ég að þessi mál verði raunar að ræðast á allt öðrum forsendum.

Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því eins og hér hefur komið fram, m.a. í málflutningi talsmanna Alþb., að það er gríðarleg óánægja í landinu, bullandi óánægja, með kvótabraskið, með leiguviðskiptin, með það að menn séu að hirða milljónir og aftur milljónir á því að eiga veiðiheimildir sem þeir nota ekki og lifa sjálfir í vellystingum praktuglega og leigja þær út. Það er þetta sem er óþolandi kerfi og þessi tillaga hróflar ekki við því vegna þess að svínaríinu væri hægt að halda áfram jafnvel þó lagður yrði á skattur eins og menn eru hér að tala um. Það er gallinn við þetta. Þess vegna felst í raun og veru ekki í tillögunni andstaða við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Menn segja ekki fullum fetum í þessari tillögu: Við erum á móti þessu kerfi. Menn segja það ekki. Menn skilja það eftir opið og segja: Þetta er gjald og fiskveiðistjórnin er svo allt annað mál.

Við höfum í okkar samþykktum í miðstjórn Alþb. sagt sem svo: Ef það á að taka á þessu kerfi, þá verður að stöðva leigubraskið, það er númer eitt. Það verður að stöðva kvótabraskið, það er númer eitt. Það verður að ráðast til atlögu við þá þætti sem eru jarðvegur og grunnur spillingarinnar, jarðvegur og grunnur þeirrar spillingar sem þjóðin er að mótmæla í þessu. Og Alþingi verður að gera sér grein fyrir því að þjóðin er að gera uppreisn gegn þessu aflamarkskerfi eins og það hefur þróast á markaðnum á undanförnum árum, en því miður tekur þessi tillaga ekki á því. Og það var mjög athyglisvert að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem er þingmaður Vestfjarðakjördæmis og kveður jafnan skýrt að orði, kom aldrei að þessu atriði í sínum málflutningi vegna þess að ég geri meiri kröfur til hans en ýmissa annarra með fullri virðingu fyrir öllum öðrum að því er þessa hluti varðar af því að hann kemur frá Vestfjörðum. Vegna þess að það dæmi sem hann nefndi um rækjuna áðan og hækkunina úr 8 kr. í 90, það gæti líka þrifist með veiðileyfagjaldi. Skilja menn það ekki? Það gæti líka þrifist með veiðileyfagjaldi og í rauninni er það þannig að ef veiðileyfagjald yrði lagt á þá gæti það auðvitað haft það í för með sér að þeir sterku og stóru yrðu áfram enn þá sterkari og stærri en þeir eru núna, þannig að í raun og veru verðum við að viðurkenna það, hæstv. forseti, að eins og sakir standa og eins og tillagan lítur út, þá tekur hún ekki á vandanum.

Ég held sem sagt að grundvallaratriðið sé það að menn svari því: Erum við tilbúin til þess að stöðva framsalið eins og það hefur tíðkast? Erum við tilbúin til þess að taka þennan þátt út fyrir hið almenna markaðshagkerfi sem við búum við að öllu öðru leyti? Það er spurningin sem menn þurfa að svara í þessu samhengi.

Tíminn er enginn til að ræða um þetta mál, hæstv. forseti, þannig að ég á ekki langan tíma eftir. En það er eitt sem mig langar til að koma á framfæri í viðbót og það er þetta: Ekki tala um það hér úr þessum ræðustól, herra forseti, að þjóðin eigi ekki fiskimiðin og það leiki vafi á því. Við skulum ekki aðstoða þá sem vilja skapa sér eignaraðgang að þessum miðum með því að lýsa því yfir úr þessum stól að þjóðin eigi ekki þessi mið. Það er alveg kristalstært að þjóðin á fiskimiðin og það mál liggur þannig að það er alveg 100% ljóst að Alþingi getur gert hvaða breytingar sem er á fiskveiðistjórnunarlögunum án þess að það hrófli við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að einkaeignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ver ekki þann aðgang að fiskimiðunum sem um er að ræða í dag. Það er alveg ljóst. Við skulum ekki hjálpa þeim sem við ætlum síst að aðstoða í þessu máli með því að lýsa yfir úr ræðustól að einhver vafi leiki á eignarhaldi þjóðarinnar.

[17:15]

Þá segja menn: Leggjum á veiðileyfagjald til að tryggja að ljóst sé að þjóðin eigi þetta. Þá segi ég eins og sagt hefur verið áður: Já, við skulum athuga það. En það leysir ekki málið að öllu leyti að því er þetta varðar. Gerum okkur grein fyrir að t.d. forustumenn Granda hafa sagt: Við skulum borga veiðileyfagjald enda fáum við að eiga þetta í friði áfram. Menn eru því að tala um að borga veiðileyfagjald til að festa það kerfi sem þeir hafa búið við.

Síðan þurfa menn að átta sig á því, sem Kristinn H. Gunnarsson og fleiri bentu á, að auðvitað er verið að leggja á ákveðið veiðileyfagjald eins og hv. þm. Kristján Pálsson líka rakti áðan. Þá segja menn: Já, en afnotarétturinn, en erfðarétturinn, og eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði fyrr í dag: Já, en er ekki að verða til ígildi eignarréttar í gegnum þetta? Ég held í að þau mál liggi með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og velta þeim fyrir sér. En ég held að menn eigi að gera sér grein fyrir að við gerum það ekki með veiðileyfagjaldsálagningu. Við gerum það ekki öðruvísi en að þora að segja: Kerfið, eins og það er, er í grundvallaratriðum vitlaust. Við verðum að þora að breyta því og reyna að ná um það samstöðu og við skulum ekki reyna að blekkja þjóðina til fylgis við okkur og halda fram að við séum með patentlausn sem leysir þetta vandamál.

Vandinn er sá, hæstv. forseti, að þeir sem róa til fiskjar hjá fiskveiðiþjóð þar sem er of lítill fiskur, hafa mjög sterka stöðu gagnvart hagkerfinu, allt of sterka stöðu, hættulega sterka stöðu og það er það sem við þurfum að gera okkur grein fyrir og svara spurningunni: Verðum við ekki að draga úr framsalsheimildunum, veikja hina almennu markaðsmeðferð þessara mála til að ná utan um þau og koma í veg fyrir spillinguna og svínaríið sem þjóðin er að mótmæla í þessu máli?