Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:23:20 (362)

1996-10-15 17:23:20# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:23]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að ég hef aldrei verið með honum vestur á fjörðum að hlusta á ræður hans og ég er staðráðinn í að bæta úr því hið bráðasta, strax og ég fæ tækifæri til því bersýnilegt er að hann heldur mjög merkar ræður vestur á fjörðum og ég verð að játa að veruleg yfirsjón er hjá mér að hafa ekki fylgt honum á fundum þar vestra.

Ég upplifi það þannig, hæstv. forseti, að hv. þm. Alþfl. og jafnaðarmannaþingflokksins séu í raun og veru að bakka í málinu. Þeir byrjuðu á því að segja: Þetta leysir allan vanda. Þeir byrjuðu á því að segja: Þetta er leiðin til að stoppa svindlið, kvótabraskið og allt það. Þeir byrjuðu á því að gefa í skyn að þeir væru með lausnina á hverjum fingri undir nafninu veiðileyfagjald. Núna segja þeir: Það hefur aldrei staðið til. Það er þvert á móti annað sem vakir fyrir okkur, þ.e. að koma hlutunum þannig fyrir að tryggja að þessi grein skili almennum arði til þjóðarinnar í heild. Ja, þá er það allt annað mál og við skulum ræða það. Og um það er enginn ágreiningur í þessum sal, trúi ég, að eðlilegt sé að þessi grein borgi skatta eins og aðrar greinar og jafnvel er hugsanlegt, ef ég næði eyrum hv. þm. og flm., að tala um þetta mál sem almennt auðlindagjaldsmál þannig að menn horfðu þá bæði á orkuna og fiskimiðin og allt kerfið eins og það leggur sig. En það er annað mál og er ekki á dagskrá hér. Hv. þingmönnum hefur láðst að flytja það ef það stóð til. Það er alla vega ekki í því þskj. sem hér er til meðferðar.

Þess vegna finnst mér að við ættum að skoða þessi mál miklu betur og velta fyrir okkur hvort ekki væri nær að taka braskpeningana, að taka leigupeningana m.a. til að styrkja stöðu fiskvinnslunnar og hækka kaupið hjá fólkinu sem vinnur hjá fiskvinnslunni í landi, m.a. á Vestfjörðum.