Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:42:25 (369)

1996-10-15 17:42:25# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:42]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst þegar aflamarkskerfið var sett á var það sett til eins árs. Það stendur alveg klárt og það var sett sem neyðarráðstöfun og það var kynnt þannig alls staðar af þáv. hæstv. utanrrh. og öllum sem töluðu með því vegna þess að menn litu á skýrsluna sem þá lá fyrir hjá Hafrannsókn að við yrðum að ná aflanum niður í 200 þúsund tonn og menn vildu trúa því að það mætti ekki gera það með öðru móti en þessu.

Í öðru lagi kemur það mjög skýrt fram í þessari þingsályktunartillögu sem allir þingmenn jafnaðarmanna skrifa undir og eru flutningsmenn að, að þeir reikna með því að núverandi kerfi haldi áfram. Þeir ætla bara að bæta ofan á það nýjum skatti sem getur ekkert annað en íþyngt greininni. Hann getur aldrei búið til nýja peninga. Hann íþyngir greininni. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er flutningsmaður að þessu. Hann er flutningsmaður að því að íþyngja greininni. Að vísu segir hann ekkert um hvað eða hvernig, heldur um að íþyngja greininni um það sem þeir vilja og telja að sé hægt að gera á hverjum tíma.

Það kemur fram í þessari greinargerð og það hefur komið fram æ ofan í æ í málflutningi 1. flm. sem ég hef hlustað á nokkrum sinnum, að gjaldið gefi ný sóknarfæri, gjaldið sjálft gefi ný sóknarfæri fyrir greinina og sé ekki íþyngjandi fyrir greinina, alls ekki. Hann hefur margtekið það fram. Hann er hér meðal vor þannig að við getum rætt það.