Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:44:08 (370)

1996-10-15 17:44:08# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Sannleikurinn er sagna bestur og reynslan er sá dómur sem ekki verður áfrýjað. Þetta neyðarkerfi til eins árs eins og það var í huga hv. 1. þm. Vestf. þáverandi (EOK: Nei.) hefur nú staðið ansi lengi þannig að þeir sem töldu að þetta væri neyðarkerfi til eins árs hafa ekki getað komist út úr þeirri neyð og komast sennilega ekki út úr henni í bráð.

Í öðru lagi vísa ég til greinargerðarinnar með þessari þáltill. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Annars vegar er rætt um fiskveiðistjórnunarkerfið, t.d. hvort notað er aflamark eða sóknarmark ...`` o.s.frv. þannig að það er bókstaflega gert ráð fyrir því í greinargerð með tillögunni að stjórnunarkerfið geti komið til endurskoðunar, enda er það stjórnunarkerfi sem menn hafa hverju sinni og veiðigjaldið alveg tvö óskyld mál eins og hefur komið fram hjá okkur áður. Ég er jafnreiðubúinn að samþykkja veiðigjald í sóknarstýringarkerfi hv. þm. Einars Odds eins og í núverandi kvótakerfi Sjálfstfl. og Framsfl.