Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:45:20 (371)

1996-10-15 17:45:20# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:45]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi liggur það fyrir í þessari greinargerð að hv. þm. er flutningsmaður að henni og þar er m.a. lagt til að sérstakt gjald verði lagt á þorsk ef það verður aukning í honum. Það er ein af tillögum mannanna.

Í öðru lagi er það höfuðnauðsyn að búa til peninga til þess að geta skipt þeim. Ég var í ræðu minni áðan að vekja athygli á því. Ég hafði efasemdir um að um nokkurn fiskveiðiarð væri að ræða, mjög miklar efasemdir, enda liggur það fyrir og það hafa margir sýnt fram á að aukist arðurinn í sjávarútvegi þá getur hann með margs konar á móti komið til þjóðarinnar. Ég er ekki í vafa um að ekki er til skýrara dæmi um þetta en einmitt arðurinn sem orðinn er núna í mjölvinnslunni eða í rækjuvinnslunni. Hann hefur orðið til þess að við höfum endurnýjað þessar iðngreinar stórkostlega og þær fjárfestingar munu standa undir lífskjörum morgundagsins.