Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:46:39 (372)

1996-10-15 17:46:39# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:46]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. spurði hvort við værum tilbúin til að fara í að vinna að nýju kerfi, öðru kerfi, hvort við værum reiðubúin til að leggja vinnu í það og svarið er já. Það liggur þannig að því er varðar okkar flokk að við höfum sagt það fullum fetum að svarið er já við þeirri spurningu. Við viljum breyta þessu kerfi. Við teljum að það komi illa út m.a. gagnvart sjómönnum eins og um hefur verið talað, það komi illa út gagnvart fiskvinnslunni eins og um hefur verið talað. Það er talað um eignarréttarvandann í kringum þetta kerfi. Það er talað um spillingu. Það er talað um að einstakir aðilar maki krókinn og menn viðurkenna það í raun og veru allir að það jaðrar við uppreisn í landinu út af þessu kerfi. Fólk upplifir það sem ranglátt og vitlaust. Þess vegna er það augljóst mál að verulegur hugur er hjá þjóðinni í þá veru að breyta þessu kerfi í grundvallaratriðum.

Við höfum sagt: Við erum tilbúin til að afnema þetta framsalskerfi, og hv. þm. svarar því með nokkuð snjallri samlíkingu. Ég vil hins vegar segja að ég held að staðan sé þannig að ef við eigum að komast út úr þessum vanda sem nú blasir við, þá verðum við að taka á því hvernig við komumst út úr framsalskerfinu. Ég gæti séð það fyrir mér að við færum t.d. að einhverju leyti í það kerfi sem var verið að kynna í Noregi núna um síðustu helgi. Og það var nokkuð merkilegt að á sama tíma og landsfundur Sjálfstfl. stóð yfir var verið að kynna nýja úthlutun fiskveiðiheimilda í Noregi á allt öðrum forsendum en þeim sem við höfum kynnst. Því ekki að skoða það? Það mikilvæga við umræðuna í dag er að allir eru sammála um, allir, að kerfið er vont. Það hefur enginn verið hér úr halelújakór hæstv. sjútvrh. í umræðunum í dag til þessa þannig að svarið við spurningu hv. þm. er já af okkar hálfu.