Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:51:23 (374)

1996-10-15 17:51:23# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:51]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess áðan að ég hefði séð og heyrt rök um að líklega gæti aflamarkskerfið gagnvart uppsjávarfiskum leitt til aukins fiskveiðiarðs. Ég gat þess líka að mér væri mjög til efs að stjórnun veiða á botnlægum tegundum gæti nokkurn tíma náð árangri vegna þeirrar sóunar sem í kerfinu væri fólgin. Ég hélt að þetta væri nokkuð skýrt og það þyrfti ekkert að fara á milli mála hvað ég var að segja þarna.

Ég hef hins vegar lagt til og mun halda áfram að leggja það til vegna þess að þetta er ekki vandamál Íslands eða íslenskra veiða. Þetta er vandamál alls heimsins. Aflakerfið í fiskveiðum er vandamál alls heimsins. FAO lítur svo á að um 20 millj. tonna sé hent á ári vegna aflastýringar, 20 millj. tonna í sveltandi heimi. Þetta hlýtur að vera stórkostlegt vandamál.

Við hljótum að geta verið sammála um að það hlýtur að vera númer eitt að reyna að búa til þennan arð. Ég ætla ekkert að deila um það eða tala um það hvort hann geti orðið 10, 20 eða 30 milljarðar. Ég ætla ekkert að nefna neina tölu. Það hefur ekkert að segja. Það hlýtur að vera aðalatriðið að reyna að búa til arðinn fyrir þjóðina og fyrir framtíðina og það er ekkert sem okkur varðar eins mikið og að fá þennan arð, ná honum. Síðan er það kannski minna mál hvernig við ættum að skipta honum vegna þess að það liggur ekkert fyrir um (Gripið fram í.) að það þurfi endilega að vera á þann veg að arðurinn komist best til skila með því að láta ríkið hafa hann. (Gripið fram í.) Það er ekkert gefið mál að þannig verði því best komið fyrir, hjá ríkinu. Það er ekkert gefið mál en við skulum bara skoða það og ekki afneita því. Hitt er aðalatriðið. Búum til nýja peninga.