Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 14:21:01 (380)

1996-10-16 14:21:01# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:21]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Meiningamunurinn er alveg ljós og hefur alltaf verið. Hann er hvort eigi að fara inn á þá braut í ríkari mæli en stjórnarskrárákvæðið leyfir að skipa það sem ég leyfði mér að kalla pólitískar rannsóknarnefndir. Um það snýst ágreiningurinn. Það er sjálfsagt að ræða þetta eina ferðina enn og þetta frv. gefur tilefni til þess. Það munum við ræða.

Hv. þm. nefndi að ráðherrar ættu að geta svarað fyrirspurnum yfir sumartímann. Það er eitt sem við höfum einmitt rætt í sambandi við endurskoðun þingskapalaganna.

Ég læt svo í ljós vonbrigði með að hv. þm. skyldi ítreka þá skoðun sína að þetta væri framkvæmdarvaldsþing, eins og hv. þm. orðaði það. Mér þykir vont ef þingmenn fara að trúa þessu sjálfir. Þá trúir allur almenningur því um leið. Ég fullyrði að þetta hefur verið að breytast í þá átt að þingið lætur ekki segja sér fyrir verkum. Það á ekki að gera það. Það er hins vegar ekkert óeðlilegt við að sá meiri hluti sem ríkisstjórn á hverjum tíma styðst við sé frekar inni á því en á móti að afgreiða stjórnarfrumvörp. Hann fer í gegnum þau og við höfum skýr dæmi um hvernig stjórnarfrumvörpum hefur verið breytt. Ég vek líka athygli á að sjálfir ráðherrarnir taka þátt í þeim breytingum sem eiga sér stað í þinginu sjálfu.