Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 14:24:40 (382)

1996-10-16 14:24:40# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:24]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Er nokkuð skrýtið þótt breyting á stjfrv. fari ekki í gegn nema ráðherra blessi það? Ég veit að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þarf ekki að fara lengra en að líta í eigin barm frá sínum ráðherraferli. Ég býst við að ef þingið hefði viljað knýja í gegn einhverja breytingu á lagabálki, sem undir hennar ráðuneyti heyrði, hefði ráðherrann ekki viljað láta það yfir sig ganga. Við skulum ekki gera stórmál úr því þótt ráðherra hafi skoðun á máli sem heyrir undir hans ráðuneyti, þó það nú væri. Ég tók fram í máli mínu áðan að ráðherrar taka einmitt beinan þátt hér á Alþingi í að breyta frumvörpum sem hafa komið frá þeim sjálfum. Án þess að ég þekki kannski nægilega mikið til í kringum okkur --- ég þekki þó dæmi þess í tilteknum þjóðþingum að slíkt mundi heyra til meiri háttar tíðinda ef stjfrv. væri breytt í þinginu --- held ég að við séum einmitt mjög frjálslyndir hvað þetta varðar á okkar þingi og ég tel það okkur til sóma.