Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 16:00:33 (391)

1996-10-16 16:00:33# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[16:00]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem er til umræðu um breytingu á lögum á um þingsköp Alþingis. Ég tek efnislega undir frv. um að veita nefndum meira svigrúm til að taka mál upp á eigin vegum og að þingnefndir starfi fyrir opnum tjöldum nema nefndin ákveði annað. Þarna gæti einmitt orðið til sá stefnumótunarvettvangur sem hv. þm. Svavar Gestsson benti réttilega á að vantaði sárlega á vettvangi Alþingis. Það vantar vettvang fyrir stjórn og stjórnarandstöðu til að takast á um stefnumótun. Nefndir þingsins virðast ekki hafa slíkt frumkvæði þó að væntanlega sé það hægt ef vilji væri fyrir hendi. Því miður kemur ráðherra afar sjaldan inn í þingnefndirnar sem er einnig slæmt miðað við þá hefð að ráðherra virðist hafa úrslitavald um það hvaða mál fari í gegn í málaflokki hans og hvað ekki.

Þá tek undir með flutningsmanni og andmæli um leið hæstv. forseta þingsins, hv. 1. þm. Reykn., að Alþingi Íslendinga nálgast meira en góðu hófi gegnir það sem kalla má framkvæmdarvaldsþing. Þó að það sé rétt að slíkt hljóti að teljast afstætt, samanber það sem hefur komið fram í umræðunni að breska þingið breyti ekki stjórnarfrumvörpum enda engar fastanefndir þar til að vinna þá vandasömu vinnu sem á sér stað í fastanefndum þingsins hér, þá er þetta auðvitað afstætt. En ég tel að á meðan langflest stjórnarfrumvörp eru samin í ráðuneytum framkvæmdarvaldsins eða á vegum ráðherra og á meðan starfsmenn nefnda eru embættismenn er mjög eðlilegt að þessi ályktun sé dregin.

Ég hef nýverið átt þess kost að heimsækja Bandaríkjaþing. Þar kom t.d. fram að starfsmenn fastanefnda eru starfsmenn stjórnmálaflokkanna eða einstakra þingmanna og frumvörp eru samin mun meira á vegum nefndanna eða undirnefnda fastanefndanna og alls ekki af framkvæmdarvaldinu í sama mæli og hér. Þar hafa þingmenn og stjórnmálaflokkar mikið starfslið sem er auðvitað ekki mögulegt hér en hugsanlegt væri að sérfræðingar utan úr bæ og frá ráðuneytum kæmu meira með nefndunum að tilbúningi frv. Ég tel að það ástand, sem mér finnst vera í þinginu gæti lagast við það að ráðherrar hættu að vera þingmenn. Við það hlýtur framkvæmdarvaldið að aðskiljast betur frá löggjafarvaldinu. Við kvennalistakonur höfum lengi haft á stefnuskrá okkar að ráðherrar gegni ekki þingmennsku og ég tel að þar með yrði löggjafarvaldið mun sjálfstæðara en það er nú. Samkvæmt íslenskum stjórnskipunarrétti fer Alþingi með veigamesta þátt ríkisvaldsins og meginstoð stjórnskipunarinnar. Nýlegur dómur Hæstaréttar varðandi mál Samherja á Akureyri bendir til að dómsvaldið sjái ástæðu til að minna löggjafarvaldið á þetta svo og að vara löggjafarvaldið við því að framselja of mikið vald til ráðherra sem iðulega er verið að gera hér.

Þessi mál þarf að skoða af alvöru og það er von mín að þetta mál geti orðið farvegur til þess en að öðru leyti verði það rætt á vettvangi stjórnar þingsins. Þá vil ég taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni um aukið vald hagsmunaaðila og fjölmiðla. Þingið þarf að mínu mati að skoða þetta atriði mjög gaumgæfilega, samanber umræðuna þessa dagana um stefnuræðu forsrh. Þessi mál verður að taka fastari tökum sem gerist vonandi fljótlega á vettvangi forsn.