Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 10:36:15 (393)

1996-10-17 10:36:15# 121. lþ. 10.1 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[10:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga sem er 24. mál þessa þings. Lánsfjárlögin endurspegla nú sem endranær niðurstöður fjárlagafrumvarps og þar með þá efnahagsstefnu stjórnvalda sem það byggist á. Í upphafi máls míns vil ég vekja athygli á lánsfjáreftirspurn innlendra aðila. Því næst fjalla ég um nokkur almenn atriði sem varða stöðu fjármagnsmarkaðarins einkum með tilliti til umsvifa ríkissjóðs og loks vík ég að einstökum efnisatriðum þessa frumvarps.

Horfur í ríkisfjármálum fyrir 1997 benda til þess að nýjar lántökur ríkissjóðs og aðila sem njóta ríkisábyrgðar nemi 11,7 milljörðum kr. eða 7,7 milljörðum kr. lægri upphæð en á yfirstandandi ári. Lánsfjárþörf þessara aðila hefur ekki verið minni í meira en áratug. Þá mun ríkissjóður í fyrsta skipti frá upphafi síðasta áratugar greiða niður skuldir sínar eða sem nemur 2,3 milljörðum kr. Þetta skýrist m.a. af því að áformað er að afgreiða fjárlögin með afgangi en ekki halla eins og á undanförnum árum. Lánsfjáreftirspurn innlendra aðila hefur frá miðju ári 1995 til jafnlengdar 1996 aukist um 64 milljarða eða 8% sem er í samræmi við hlutfallslega aukningu landsframleiðslu milli ára. Það vekur sérstaka athygli að lántökur heimilanna halda áfram að aukast á þessu tímabili eða um 11,5%. Þrátt fyrir auknar tekjur auka heimilin enn skuldir sínar og lýsir það misvægi í þróun þjóðartekna og einkaneyslu. Það hlýtur að valda áhyggjum að kaupmáttaraukningin skuli ekki ganga til að greiða niður skuldir heimilanna. Í öðru lagi eru fyrirtækin farin að taka lán að nýju eftir að hafa styrkt fjárhagsstöðu sína, m.a. með því að greiða niður skuldir. Uppgang í atvinnurekstri er víða að finna og má í því sambandi nefna miklar fjárfestingar tengdar loðnuvinnslu. Í þriðja lagi vekur athygli að skuldir sveitarfélaga eru teknar að lækka eða minnka en þær náðu hámarki á síðasta ári. Síðast en ekki síst hefur vöxtur í lántökum ríkisins dregist verulega saman en þær jukust um 4,4% á fyrri helming þessa árs samanborið við 8,4% á sama tíma í fyrra.

Við afgreiðslu fjárlaga 1996 var talið að nýr peningalegur sparnaður yrði allt að 32 milljarðar kr. á árinu 1996. Endurskoðuð áætlun bendir til þess að aukning verði talsvert meiri eða tæpir 43 milljarðar kr.

Á árinu 1997 er talið að nýr peningalegur sparnaður verði meiri en í ár, um 46 milljarðar kr., eða 8,8% af landsframleiðslu. En rétt er að leggja áherslu á að skekkjumörk eru mikil í þessu því að báðar stærðirnar geta hreyfst og þess vegna ber að taka þær með nokkrum fyrirvara.

Frá því að Verðbréfaþing Íslands hóf starfsemi sína hefur Seðlabanki Íslands verið viðskiptavaki með spariskírteini ríkissjóðs og myndað markaðsverð með kaupum og sölu á þeim. Þetta hlutverk Seðlabankans hefur verið gagnrýnt og ekki talið fara saman við önnur hlutverk hans, eins og að hafa áhrif á skammtímavexti. Af þeim ástæðum og einnig til að örva verðbréfamarkaðinn gerði Seðlabankinn, um miðjan febrúar sl., samninga við þrjú verðbréfafyrirtæki um vörslu og viðskiptavakt á stórum flokkum ríkisverðbréfa. Samkvæmt samningunum er viðskiptavökum skylt að endurnýja kaup- og sölutilboð reglulega. Óhætt er að fullyrða að þessir samningar hafa haft góð áhrif á verðmyndun á eftirmarkaði. Satt að segja hygg ég að ríkið þurfi að kanna rækilega á næstu missirum hvort sameina skuli flokka spariskírteina með einhverjum hætti til þess að treysta markaðinn enn betur og gera hann auðveldari fyrir alla aðila sem eiga viðskipti á honum.

Ávöxtun spariskírteina var í byrjun árs um 5,9% á 10 ára skírteinum og 5,8% á 20 ára skírteinum. Ávöxtunarkrafan fór svo lækkandi og náði lágmarki í júní en þá var hún 5,4% á 10 ára, en 5,2% á 20 ára skírteinum. Frá þeim tíma hefur hún heldur hækkað og er ávöxtunarkrafan nú 5,67% á 10 ára bréfum og 5,46% á 20 ára skírteinum. Sala spariskírteina hefur verið mjög góð það sem af er árinu. Þannig hefur náðst að selja 20 ára skírteini í almennum útboðum fyrir 3,5 milljarða kr. sem er 68% af heildarsölu spariskírteina í slíkum útboðum.

Vextir óverðtryggðra ríkisbréfa fóru lækkandi framan af árinu en hafa heldur hækkað að undanförnu. Þannig hafa vextir fimm ára bréfa lækkað úr 10,5% um síðustu áramót í u.þ.b. 9% um miðjan október. En það var 8,8% ef ég man rétt í september. Sala ríkisbréfa hefur verið nokkuð sveiflukennd. Hún byrjaði vel í upphafi árs, var dræm um mitt ár en hefur aðeins verið að glæðast nú að undanförnu. Samtals hafa verið seld ríkisbréf fyrir um 4,5 milljarða kr. í ár.

Vextir ríkisvíxla, þriggja, sex og tólf mánaða, voru í byrjun janúar u.þ.b. þremur prósentustigum hærri en erlendir skammtímavextir vegnir með viðskiptavog fyrir Ísland. Þessi munur fór lækkandi fram eftir árinu og var um tíma tvö prósentustig, en vegna aðgerða Seðlabanka Íslands í lok september til að draga úr þenslu hækkaði munurinn að nýju og er nú svipaður og hann var í byrjun árs. Hætta er jafnan á að streymi fjár til útlanda ef vextir ríkisvíxla nálgast um of erlenda skammtímavexti. Það er hins vegar ávallt háð mati markaðarins hversu mikill þessi munur þarf að vera. Því ráða þættir eins og lánstraust, stöðugleiki og stærð markaðarins.

Vextir á þriggja mánaða víxlum eru nú 7,14% sem er u.þ.b. 0,5% lægri vextir en í byrjun árs. Sala ríkisvíxla í útboðum var í samræmi við áætlanir. Þetta breyttist í skiptiútboði vegna innköllunar spariskírteinaþegar heldur meira var selt af víxlum en ráð var fyrir gert. Frá þeim tíma hefur eftirspurn eftir ríkisvíxlum verið heldur meiri en framboð. Fyrstu átta mánuði ársins nam nettósala þeirra um 3,9 milljörðum kr.

Í lok maí var ákveðið að innkalla andvirði þriggja flokka spariskírteina frá árinu 1986 sem báru vexti á bilinu 8--9% auk verðtryggingar, samtals að fjárhæð 17,3 milljarðar kr., en undanfarin missiri hafa vextir spariskírteina í útboðum verið vel innan við 6%. Áætlað er að þessi aðgerð spari ríkissjóði um 2 milljarða kr. í vaxtagjöldum fram til ársins 2000.

Endurfjármögnun þessara flokka á innlendum markaði gekk allvel bæði með sölu spariskírteina til langs tíma og ríkisvíxla. Jafnframt hefur fjáröflun Byggingarsjóðs verkamanna gengið vel á innlendum markaði en sjóðurinn hefur með útboðum á húsnæðisbréfum náð að fjármagna 5,7 milljarða kr. lánsfjárþörf sína en á árinu á undan hvíldi fjáröflun sjóðsins á ríkissjóði. Innlend fjáröflun þessara aðila hefur því gengið mun betur á þessu ári en á því síðasta.

[10:45]

Heildarlántökur ríkisins, ríkisfyrirtækja og sjóða eru áætlaðar 47,7 milljarðar króna á árinu 1997. Afborganir eldri lána eru áætlaðar 36 milljarðar króna. Hrein lánsfjáröflun, þ.e. ný lán að frádregnum afborgunum eldri lána, er áætluð 11,7 milljarðar króna og er það 7,7 milljörðum króna lægri fjárhæð en á þessu ári. Heildarlántökum er ekki skipt milli innlendra og erlendra lána frekar en undanfarin ár. Má rekja það til aukins frelsis í fjármagnsflutningum milli landa þar sem vaxta- og gengisþróun ræður miklu um hvernig leitað er á fjármagnsmarkaði. Nú geta erlendir aðilar t.d. keypt ríkisverðbréf útgefin hér á landi og innlendir aðilar erlend ríkisverðbréf hömlulaust. Í þessu sambandi má geta þess sem auðvitað hefur komið fram í fréttum að erlendir aðilar hafa að undanförnu verið að kaupa íslensk ríkisverðbréf í stærri stíl en áður. Þetta ætti að öðru jöfnu að hafa áhrif til meira jafnvægis á vaxta- og peningamarkaðnum íslenska.

Virðulegi forseti. Þetta frv. er sem endranær hvorki langt né flókið. Það er sett upp á hefðbundinn hátt og skiptist í lántökur ríkissjóðs, ríkisábyrgðir, ýmis ákvæði um lánsfjármál og loks gildistökuákvæði. Í frv. er gert ráð fyrir að Landsvirkjun fái heimild til að taka að láni 4,8 milljarða kr. og var það gert með fyrirvara um orkuöflun vegna hugsanlegra samninga um nýjan orkufrekan iðnað.

Eftir að frv. til lánsfjárlaga var lagt fram á Alþingi hafa borist óskir um 4,2 milljarða kr. hækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar þannig að hún verði 9 milljarðar kr. Hér er um að ræða aukna lánsfjárþörf vegna áforma um virkjunarframkvæmdir á árinu 1997 í þágu fyrirhugaðs 60 þús. tonna álvers Columbia Venture Corporation á Grundartanga sem tekið yrði í rekstur um mitt ár 1998 og stækkunar á Járnblendiverksmiðjunni sem áætlað er að taka í rekstur haustið 1999. Þessar óskir þarf að skoða sérstaklega og ég vænti þess að þær verði skoðaðar frekar m.a. við meðhöndlun þingsins á frv. Ég mun að sjálfsögðu láta hv. nefnd í té bréfaskipti, bréf frá Landsvirkjun þar sem lýsing á hugsanlegri lántökuheimild kemur fram en mun óska eftir að nefndin taki það mál til sérstakrar afgreiðslu. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, í framsöguræðu minni að fjalla nánar um greinar frv. og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.