Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 10:48:15 (394)

1996-10-17 10:48:15# 121. lþ. 10.1 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[10:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af framlagningu frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1997. Þar kemur fram eins og hæstv. fjmrh. sagði að ástæðan fyrst og fremst fyrir því að ekki er talin þörf á jafnmiklum lántökum ríkissjóðs eins og verið hefur undanfarin ár sé áform um hallalausan ríkisrekstur. Eins og öllum er kunnugt byggist hagstæðari afkoma ríkissjóðs á árinu sem er að líða en oft áður fyrst og fremst á því að tekjur ríkissjóðs á árinu sem er að líða hafa reynst vera miklu meiri en gert var ráð fyrir og heldur en ástæða var til að ætla miðað við þróun undanfarinna ára. Hagstæður árangur í rekstri ríkisins á þessu ári byggist því ekki á aðhaldi á útgjaldahlið. Útgjöld hafa farið verulega mikið fram úr áætlun og raunar hafa ýmis sparnaðaráform hæstv. ríkisstjórnar sem gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga ekki gengið eftir. Ástæðan fyrir því að þróunin hefur orðið hagstæðari er sú fyrst og fremst að öfugt við það sem hefur verið á undanförnum árum, á því erfiðleikaskeiði sem yfir okkur hefur gengið í efnahagsmálum, þá hefur tekjuspá ríkissjóðs eins og hún var áformuð í fjárlögum verið mun lægri en fjárlagaáformin gerðu ráð fyrir. Á erfiðleikaárunum var það einkennandi fyrir spár fjmrn., Þjóðhagsstofnunar og annarra slíkra aðila að menn ofáætluðu tekjur ríkissjóðs og bættist það við erfiðleika á því að ná niður útgjaldahlið ríkissjóðs. Mikil breyting hefur á þessu orðið á árinu sem nú er að líða þannig að tekjur ríkissjóðs, bæði af veltusköttum og af tekjusköttum hafa reynst vera miklu meiri en ráð var fyrir gert. Fyrst og fremst það hefur orsakað að menn hafa getað staðið svona nokkuð við markmið fjárlaga en ekki árangursríkar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að ná niður kostnaði.

Þetta hefur hins vegar fylgt því sem kemur fram í frv. að skuldir heimila hafa stórvaxið. Með öðrum orðum, hluti af tekjuaukningu ríkissjóðs stafar af mjög auknum veltusköttum vegna þess að heimilin í landinu hafa í von um betri kjör í framtíðinni skuldsett sig til kaupa á dýrum neysluvörum erlendis frá, svo sem bifreiðum og dýrum heimilistækjum sem mikil aukning hefur verið í innflutningi á og það hefur komið fram sem stórauknar skuldir heimilanna. Þannig segir betri afkoma ríkissjóðs ekki nema hluta sögunnar. Hin myndin sem er miklu dekkri er sú að að hluta til stafar þessi tekjuaukning ríkissjóðs af stórauknum skuldum heimilanna sem skýra má af því að fólk er farið að taka fyrir fram út á væntanlegt góðæri sem auðvitað verður til þess að ýta enn á kröfuna um hækkun launa í komandi kjarasamningum.

Hinn þáttur skýringarinnar er auðvitað ánægjulegur, þ.e. sá að tekjur ríkissjóðs hafa stóraukist af tekjusköttum, sem þýðir einfaldlega að tekjur manna hafa aukist á árinu 1996 umfram það sem gert var ráð fyrir. Það er ánægjuleg þróun. Hitt er annað mál að heimilin a.m.k. hafa ekki notað þær auknu tekjur til að lagfæra skuldastöðu sína því skuldastaða heimilanna, eins og fram hefur komið í þessu frv. til lánsfjárlaga, hefur vaxið á árinu þrátt fyrir meiri tekjur en gert var ráð fyrir eins og innheimta ríkissjóðs á tekjuskatti sýnir á árinu sem er að líða. Með öðrum orðum, breytt lántökuáform ríkissjóðs stafa eingöngu af þessari tekjuaukningu sem menn spá að geti orðið áfram á næsta ári og að áformin um hallalausan rekstur ríkissjóðs nái fram að ganga. Nú er að vísu eftir að afgreiða fjárlög þannig að ekki er hægt að fullyrða um hvort það markmið muni nást. En náist það ekki þá mun það að sjálfsögðu hafa áhrif til hins verra á lántökuáform ríkissjóðs samkvæmt frv. til lánsfjárlaga.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um hvaða áhrif hugsanlegar framkvæmdir Landsvirkjunar í tengslum við orkuöflun vegna samninga um nýjan orkufrekan iðnað mundu hafa á þetta frv. eða tölur í því. Hæstv. ráðherra hefur nú þegar upplýst um það mál og þarf þá ekki að spyrja um það frekar. En að sjálfsögðu þegar þær tölur verða teknar inn í lánsfjárlögin eins og væntanlega verður gert í meðförum Alþingis, þá hækka lántökuáform Landsvirkjunar úr 4,8 milljörðum kr., eins og lánsfjárfrv. gerir ráð fyrir, í 9 milljarða kr. og auðvitað breytir það verulega niðurstöðunni.

Það er eitt atriði sem mig langaði sérstaklega til að spyrja hæstv. fjmrh. um. Það vekur athygli mína enn og aftur að í skýringu við 4. gr. lánsfjárlaganna segir svo, með leyfi forseta, í 5. tölul. um Stofnlánadeild landbúnaðarins:

,,Miðað er við að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 1.100 millj. kr. á árinu 1997 og er það 100 millj. kr. hærri fjárhæð en á þessu ári. Innheimtar afborganir og vextir deildarinnar eru áætlaðar 1.270 millj. kr. Greiddar afborganir og vextir eru hins vegar áætlaðar 1.630 millj. kr. á árinu 1997 og veitt lán og styrkir 1.100 millj. kr.``

Það er sem sagt gert ráð fyrir að heimila Stofnlánadeild landbúnaðarins að taka lán fyrir öllum styrkja- og útlánaáformum á árinu. Styrkir og útlán eru 1.100 millj., lántökuheimild er upp á 1.100 millj., en síðan er halli upp á tæplega 400 millj. kr., á annars vegar greiddum vöxtum og afborgunum og hins vegar vöxtum og afborgunum sem renna til sjóðsins. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Á hvaða vaxtakjörum eru þau lán sem Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur tekið til endurlána og styrkveitinga samanborið við þau vaxtakjör sem Stofnlánadeild landbúnaðarins innheimtir hjá þeim aðilum sem hún veitir lán? Þær tölur sem hér koma fram í skýringunum benda til þess að Stofnlánadeild landbúnaðarins sé að taka lán á kjörum sem eru mun óhagstæðari en þau kjör sem hún síðan býður viðskiptamönnum sínum upp á. Með öðrum orðum að skattborgararnir séu stöðugt ár frá ári að taka að sér að greiða stórlega niður vaxtakjör í lánveitingum þessa aðila sem er að mínu viti einn af opinberum fjárfestingarlánasjóðum þjóðarinnar. Í því framhaldi vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Er enn munur á útlánakjörum Stofnlánadeildarinnar og á útlánakjörum annarra fjárfestingarlánasjóða hins opinbera? Ef svo er, hver er ástæðan fyrir því? Og hefur hæstv. fjmrh. eða ríkisstjórn í huga að gera þarna breytingar á til að samræma lánakjör Stofnlánadeildar landbúnaðarins lánakjörum annarra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna? Það er ansi mikill munur þegar um 400 millj. kr. halli er á útlána- og innlánaviðskiptum opinbers sjóðs eins og Stofnlánadeild landbúnaðarins er. Það stingur mjög í stúf við þá almennu stefnu sem nú er uppi í okkar fjármálaheimi að menn séu ekki að niðurgreiða vexti nema til sérstakra tímabundinna félagslegra þarfa.

Herra forseti. Það væri ástæða til að fara í fleiri atriði í þessu frv. til lánsfjárlaga. Ég vil aðeins geta þess í lokin að ég gagnrýni ekki þá ákvörðun hæstv. fjmrh. að kalla til innlausnar spariskírteinin sem áttu að koma til innlausnar, að mig minnir, á árunum fram að aldamótum og gefa út ný þess í stað þó það valdi um 10.000 millj. kr. auknum útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári vegna þess að þau auknu ríkisútgjöld munu skila sér til baka í lægri vaxtagreiðslum ríkisins vegna þessara lána á þeim árum sem eftir eru. Ég vil því taka það sérstaklega fram að ég gagnrýni ekki þessa ákvörðun hæstv. fjmrh. þó svo að það komi fram sem mun meiri hallarekstur ríkissjóðs á yfirstandandi ári en gert var ráð fyrir.

Ég vil svo ítreka að það hefur komið í ljós að það vantar í frv. eins og það er sett fram nú, stórar fjárhæðir og það byggir fyrst og fremst á þeim grunni að ríkissjóður verði rekinn hallalaus á næsta ári sem ekki er búið að sýna fram á. En alvarlegasta umhugsunarefnið í grg. frv. sem lagt er fram hér eru þær upplýsingar sem þar eru gefnar um mjög alvarlegar horfur í skuldastöðu heimilanna, jafnvel þó svo að á árinu sem er að líða hafi tekjur heimilanna reynst hafa verið meiri en menn gerðu ráð fyrir. Það er alvarlegt áhyggjuefni vegna þess að menn skyldu ætla að á Íslandi eins og í nálægum löndum mundu hækkaðar tekjur og þá ekki síst hækkaðar tekjur umfram áætlanir, koma fram í því að menn notuðu það svigrúm til að greiða niður skuldir sínar, ekki síst skuldir heimilanna sem orðnar eru mjög háar. En því miður virðist svo ekki hafa verið á því ári sem nú er að líða heldur þvert á móti og er það vissulega alvarlegt áhyggjuefni.