Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:28:32 (399)

1996-10-17 11:28:32# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:28]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þm. skuli hafa áhuga á og áhyggjur af heilbrigðis- og tryggingamálum nú sem endranær. Það er rétt hjá honum að þær fjárheimildir sem verið er að sækja um til viðbótar því sem er í fjárlögum og kemur fram á bls. 16--17 í frv. eru samtals um 1.300--1.400 millj. ef ég man rétt.

Ég get því miður ekki svarað honum um það þegar þessi tala er borin saman við útgjöld ráðuneytisins á fjárlögum yfirstandandi árs og síðan við þá tölu sem við getum kallað sparnaðartölu ráðuneytisins fyrir það ár. Ég hef ekki þær tölur hjá mér og get ekki svarað þeim en ég veit að hv. þm., sem er gamall heilbr.- og trmrh., þekkir það frá fyrri tíð að það hefur stundum komið fyrir að áætlanir ráðuneytisins hafi ekki að fullu staðist og á því eru þá einhverjar skýringar. Sjálfsagt þykir mönnum þær misgóðar eftir atvikum en það er rétt eins og hér kemur fram að nokkur munur er á tölum fjárlagafrv. og þeim tölum sem verða síðan niðurstöðutölur.

Ég býst við því að ég geti síðar í umræðunni upplýst nokkurn veginn hvernig ríkisútgjöldin í þessum ákveðna málaflokki hafa þróast á umliðnum árum. Ég vil eingöngu nota þetta tækifæri nú til þess að staðhæfa að það er rangt sem haldið hefur verið fram að um stórkostlegan niðurskurð hafi verið að ræða á undanförnum árum í þessum málaflokki, hvorki nú né þá. Menn hafa leitast við að halda útgjöldunum tiltölulega stöðugum og koma í veg fyrir mikla útgjaldaþenslu sem er í þessum flokki.