Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:59:37 (410)

1996-10-17 11:59:37# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:59]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þar sem frv. mun koma til fjárln. til vinnslu hef ég tækifæri til þess þar að fjalla nánar um einstök atriði sem frv. gerir ráð fyrir um viðbótarfjárveitingar og mun því hafa aðeins nokkur almenn orð um þetta mál við 1. umr. Fjáraukalagafrv. staðfestir þann viðsnúning sem orðið hefur í efnahags- og atvinnulífinu. Það staðfestir að það hafa orðið auknar fjárfestingar og það reyndar sýnir líka að einkaneysla í þjóðfélaginu hefur farið vaxandi. Það að auknar fjárfestingar eru staðreynd sýnir að bjartsýni hefur aukist og það er vel. Hins vegar verður að undirstrika að fjáraukalagafrv. sýnir að sá bati sem gert er ráð fyrir er fyrst og fremst vegna aukinna tekna. Eigi að síður er það þó staðreynd að aukin útgjöld ná ekki auknum tekjum þannig að útkoman verður betri en gert var ráð fyrir ef þessar áætlanir standast.

Þau þáttaskil hafa einnig orðið, það sýnir frv., að það er hægt að og það hafa verið hafnar aðgerðir í því efni að endurfjármagna lán ríkissjóðs. Það er vissulega hægt vegna þess að bati hefur orðið í efnahagslífinu og ríkissjóður þykir traustari lántakandi eftir en áður. Öllu þessu ber auðvitað að fagna en þó að það séu miklar tekjur sem koma inn fram yfir það sem var gert ráð fyrir í áætlunum þá dregur það ekkert úr mikilvægi þess að hafa aðhald í útgjöldum. Einmitt við þessar aðstæður þegar velta eykst í þjóðfélaginu þá á ríkissjóður að hafa aðhald að sínum útgjöldum og það er mjög áríðandi einmitt við þær aðstæður sem nú eru að svo verði. Ef ávinningur er í tekjunum fram yfir það sem frv. sýnir þá á það vissulega að koma til góða til þess að afkoman verði betri og til þess að hægt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Það er vissulega áríðandi að ríkissjóður nái inn öllum þeim tekjum sem hann á rétt á. En sá ávinningur á að nýtast til að skila enn betri útkomu. Það er langmesta kjarabótin fyrir allan almenning í landinu því að ef ríkissjóður hefur ekki aðhald að fjármálum sínum á þenslutímum þá leiðir það eingöngu til vaxtahækkana og aukinnar verðbólgu í þjóðfélaginu. Það er grundvallaratriði í þessu máli.

Varðandi einstaka málaflokka. Á bls. 25 í frv. er góð tafla sem sýnir frávikin bæði í tekjunum og gjöldunum. Það kemur í ljós sem fyrr að það reynist erfiður róður að halda áætlunum í heilbrigðis- og tryggingamálum. Hv. 4. þm. Vestf. hafði áðan áhyggjur af því máli. Mér fannst það eðlilegt því hann þekkir þetta mál mjög vel. En mér fannst hann þekkja það of vel til að hann gæti verið eins hneykslaður og hann var í ræðu sinni. Ég greip niður í fjáraukalagafrv. fyrir árið 1994 þegar hans flokkur fór með þessi mál. Þar segir á bls. 38 í því frv. undir heilbr.- og trmrn.:

,,Lagt er til að fjárheimild heilbr.- og trmrn. verði aukin um 1.499 millj. kr.``

Hér stendur einnig:

,,Sjúkratryggingar. Sótt er um 800 millj. kr. hækkun fjárheimildar í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöldin miðað við útkomu fyrstu átta mánaða ársins. Fjárvöntunin stafar að mestu af því að áform um sparnað á þessum lið hafa ekki gengið eftir.``

Þessi barátta er nú ekki alveg ný af nálinni. Það er dálítið einkennilegt að sjá fyrrv. heilbrrh. standa hér upp svona óskaplega hneykslaðan á þessu máli. Hins vegar er ég ekki að draga úr mikilvægi þess, langt því frá, að reyna að hafa aðhald. En menn vita náttúrlega allir sem hér eru inni að það er erfitt að meta útgjaldaþörfina í þessum lið.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það nú en hins vegar hafa orðið þau þáttaskil, t.d. varðandi sjúkrahúsin í Reykjavík að þar hefur verið samið um ákveðið samstarf um að setja þau mál í ákveðinn farveg með tilteknum aðgerðum sem við bindum vonir við að skili sparnaði þegar til lengri tíma er litið.

Annar stór liður í útgjaldatilefnunum eru sérstakar ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis þar sem m.a. eru upphæðir vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna til að gera þann flutning viðunandi, upp á 240 millj. kr. Áhrif kjarasamninga eru þar upp á 250 millj. kr. og aðstoð vegna náttúruhamfara upp á 250 millj. Ég held að það geti ekki verið deilur um þessar upphæðir, að þetta sé réttmætt. Það er þá fyrst og fremst hvort það hefði mátt eitthvað spara í þessum 560 millj. kr. útgjöldum sem eru flokkaðar hér undir: Annað. Ég ætla ekki að orðlengja um þá liði. Fjárln. mun fara yfir mál og reyndar hefur verið samkomulag í nefndinni að fjalla um þetta mál þó 1. umr. sé ekki lokið og við höfum þegar hafið þá vinnu. Við munum leggja áherslu á að málið liggi fyrir frá okkar hendi innan ekki of langs tíma. Ég tel mikilvægt að fjáraukalög séu samþykkt sem fyrst á haustþingi svo að fjárlagarammi þeirra stofnana og aðila sem þau varða liggi fyrir þannig að ég mun beita mér fyrir því sem formaður fjárln. að þessi vinna gangi eins fljótt fyrir sig og hægt er en að því tilskildu að nefndarmenn fái þær upplýsingar sem um er beðið í sambandi við þetta.

Ég ætla ekki á þessu stigi að hafa öllu fleiri orð um frv. Ég vil enn minna á að það hefur mikla þýðingu, ekki síst á tímum aukinna tekna og á þenslutímum eins og ber á að séu nú, að sýna aðhald og sparnað í ríkisútgjöldunum og sú barátta heldur vissulega áfram.