Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:28:45 (420)

1996-10-17 12:28:45# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Líklega er flest af því sem hér eru gerðar tillögur um búið og gert. Fjármunum hefur þegar verið ráðstafað og afgreiðsla Alþingis aðeins formsatriði. Þetta er gömul saga og ný og það er einnig gömul saga og ný að við þessu er erfitt að gera í mörgum tilvikum. Þó er það mjög oft matsatriði. Ég nefni sem dæmi 430 millj. kr. framlag vegna hallareksturs sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sá halli var fullkomlega fyrirsjáanlegur við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Hefði meiri hluti Alþingis fallist á varnaðarorð stjórnarandstöðunnar og tillögur um aukin framlög við afgreiðslu fjárlaga stæðum við ekki frammi fyrir því að ræða þær aukafjárveitingar sem hér eru lagðar til. Sama er að segja um sjúkratryggingar sem augljóslega voru vanmetnar. Það er líka gömul saga og ný. Ár eftir ár eru uppi hugmyndir um niðurskurð og sparnað á þessum mikilvæga lið sem varðar fjölskyldur og einstaklinga svo miklu. En þær eru sjaldnast raunhæfar og skapa í rauninni ekkert annað en erfiðleika.

[12:30]

Nú er leitað eftir fjárheimildum til ýmissa verka sem orka tvímælis. Ég nefni þar útgjöld vegna kaupa á Sóleyjargötu 1 sem ég er ekki að gagnrýna í sjálfu sér en finnst að hefði mátt kosta af lið fjmrn. nr. 481, útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum, þar sem fjmrh. fær m.a. heimild til að kaupa húseignir og lóðir í nágrenni Arnarhvols fyrir Stjórnarráðið. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi ekki komið til greina og hvort að þar sé ekki enn þá talsvert fé eftir til ráðstöfunar. Kaupin á Sóleyjargötu 1 kalla á framkvæmdir við endurbætur á Stjórnarráðshúsinu og hér er gerð tillaga um 25 millj. kr. og reyndar er einnig um eitthvert framlag að ræða í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, ef ég man rétt 3--4 millj. kr. Hefði það þá ekki mátt bíða næsta árs eða eru þessar framkvæmdir þegar hafnar? Það er þá enn eitt dæmi þess að ákvörðun er í raun þegar tekin og framkvæmdir hafnar og aðeins leitað formlegrar stimplunar Alþingis.

Hér er líka leitað eftir framlögum vegna Íslenska menntanetsins sem þegar hafa verið innt af hendi eins og svo margt annað. Sama má segja um Íslenska dansflokkinn sem árum saman hefur verið fastur liður á dagskrá. Hér er reyndar sagt að nú sé komin ný stjórn yfir dansflokkinn sem gert hafi ráðstafanir til að koma böndum á reksturinn. Að mínu mati hefur dregist allt of lengi að taka á þeim vanda sem þessi stofnun hefur átt við að stríða, fortíðarvanda, og hefur vafalaust hamlað eðlilegri þróun í þessari grein. Það hefur ekki verið gaman fyrir stjórnendur Íslenska dansflokksins að vera fastur liður á aukafjárveitingaskránni með tilheyrandi áliti og kannski duldum ásökunum um óráðsíu. Vonandi er þeim hremmingum lokið og að Íslenski dansflokkurinn fái að dafna við eðlileg skilyrði.

Það er ekki að spyrja að þenslunni hjá utanrrn. Þar er líka fastur liður á dagskrá, auking vegna erlendra samskipta, fjölgun starfsmanna og aukinn ferðakostnaður sem í mörgum tilvikum ætti að vera fyrirséður en þeim kostnaði er þegar búið að verja. Menn vissu t.d. um ráðherrafund EFTA í júní sl. Það er sótt um 5,2 millj. kr. vegna þess fundar. Þeir vissu líka um formennsku Íslands í þeim samtökum. Það er sótt um 2,6 millj. kr. vegna þeirrar formennsku. Það er beiðni um 6 millj. kr. sem er rakin til ferðakostnaðar vegna EES samstarfsins, þátttöku í Eystrasaltsráðinu, Barentshafsráðinu og Norðurskautsráðinu. Það er beðið um aukafjárveitingu vegna Habitat-ráðstefnunar í Istanbúl að fjárhæð 5,8 millj. kr. Auðvitað vissu menn um þessa ráðstefnu þegar fjárlög voru samþykkt og ég hlýt að spyrja í þessu sambandi hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir neinu af þessu sem talið er upp sem útgjaldaorsakir á bls. 34--35. Var ekki vitað um þær við afgreiðslu fjárlaga? Eða var búið að eyða þeim fjármunum sem gert var ráð fyrir til þessara verkefna í einhver önnur ferðalög og útgjaldatilefni?

Ég tel að við verðum að fara vel ofan í ferða- og risnutilefni hins opinbera, ekki bara hjá utanrrn. heldur hjá öllum ráðuneytunum. Ég ræddi líka um þessi mál við 1. umr. um fjárlög, hvernig kostnaður við erlend samskipti hefur verið að þenjast út á undanförnum árum og hann mun halda áfram að þenjast út. Ég sé ekki annað en að svo verði. Mér sýnist ekki vera sami aðhaldsvilji fyrir hendi hvað það varðar eins og þegar kemur að útgjöldum t.d. vegna heilbrigðisþjónustunnar. Ég nefndi þá, þ.e. við 1. umr. um fjárlög, sem dæmi gríðarlegan kostnað vegna Schengen-samstarfsins sem á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að kosta okkur 55 millj. kr. á næsta ári og þar að auki 150 millj. kr. vegna breytinga á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hér í frv. til fjáraukalaga eru a.m.k. tvö útgjaldatilefni vegna þessa Schengen-samstarfs sem þó er ekki fyllilega gengið frá. Það er árgjald Íslands upp á 4,5 millj. kr. og 4 millj. kr. til launagreiðslna vegna þessa samstarfs.

Annar liður undir dóms- og kirkjumrn. er Neyðarsímsvörun þar sem farið er fram á 7 millj. kr. í stofnkostnað og aðrar 7 millj. kr. til kynningarmála árin 1995 og 1996 sem er þá greinilega þegar búið að eyða. Í greinargerðinni segir: ,,Í samningnum sem dómsmrn. gerði við Neyðarlínuna hf. síðla árs 1995 bættist við 7 millj. kr. stofnkostnaður og aðrar 7 millj. kr. til kynningarmála árin 1995 og 1996. Í frv. til fjárlaga ársins 1997 hefur verið gert ráð fyrir sambærilegri hækkun framlags til þessarar starfsemi.`` Þetta þykja mér nokkuð háar upphæðir, einkum til kynningarmála, og svo eru menn undrandi á kostnaði forsetaframbjóðendanna vegna kynninga og útgáfu vegna framboðs fyrr á þessu ári.

Ég vek líka athygli á beiðni um hækkun fjárheimildar vegna endurmats á eftirlaunum fyrrverandi bankastjóra Útvegsbankans. Óskað er eftir 70 millj. kr. hækkun fjárheimildar á liðnum Uppbætur á lífeyri af tveimur tilefnum. Ég vek sérstaklega athygli á því fyrra. Fjárþörf á þessum lið eykst vegna endurmats sem gert hefur verið á eftirlaunum fyrrverandi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Lagt er til að fjárheimild verði hækkuð um 25 millj. kr. til þess að gera upp vangreidd eftirlaun þeirra á tímabilinu frá desember 1993 fram í ágúst 1996 og áætlað að árlegur kostnaðarauki vegna þessa verði eftirleiðis um 7 millj. kr. Hefur verið gert ráð fyrir þeirri hækkun í frv. að fjárlögum ársins 1997. Ég skil það þá svo að þetta sé viðbót við fyrri áætlanir og þar sem ég þekki þetta mál ekki nægilega hlýt ég að spyrja hversu marga einstaklinga er hér um að ræða og hversu lengi þeir eiga að njóta þessara eftirlauna og hversu háar upphæðir er hér um að ræða. Og ein spurning enn af þessu tilefni: Eru þessir einstaklingar ekki í störfum annars staðar? Og fá fyrrverandi bankastjórar og aðstoðarbankastjórar greidd há eftirlaun úr ríkissjóði til viðbótar við laun fyrir önnur störf eða koma þau til frádráttar?

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Ég reikna með því að fá skýringar í hv. fjárln. á ýmsum einstökum liðum en ég vildi aðeins vekja athygli á því sem ég hef þegar tínt til. Að lokum ítreka ég í anda Cato gamla að framkvæmdarvaldið tekur sér að mínu mati of mikið vald til ráðstöfunar fjármuna án þess að leita samþykkis löggjafarvaldsins. Í þeim tilvikum þar sem það er unnt á framkvæmdarvaldið ekki að eyða fé án þess að hafa fengið heimild frá Alþingi.